10.01.1980
Sameinað þing: 9. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 236 í B-deild Alþingistíðinda. (342)

Umræður utan dagskrár

Tómas Árnason:

Herra forseti. Þessar umr. um ríkisfjármálin á árinu 1979 eru að mínu mati kannske ekki tímabærar að því er snertir niðurstöðu þeirra, vegna þess að ekki liggja enn þá fyrir nándar nærri nægar upplýsingar til þess að menn geti gert sér grein fyrir hver raunverulega hafi orðið þróun ríkisfjármála á árinu 1979 eða niðurstaða þeirra.

Ég er ákaflega ánægður yfir því, satt að segja, að hæstv. fjmrh. hefur rökstutt sína skoðun mjög rösklega um að í ríkisfjármálum hafi nánast allt verið blúndulagt þegar ég lét af embætti. Ég get ekki annað en glaðst yfir því. En eins og ég sagði áður eru þó ekki öll kurl komin til grafar í þessum efnum og ekki hægt að ræða með neinni vissu enn þá hvernig niðurstaðan hefur orðið.

Ég fer rétt með það í samræmi við upplýsingar, sem ég hef fengið í fjmrn. og raunar hefur verið upplýst um, að heildarskuld ríkissjóðs við Seðlabankann hafi verið í árslok 1979 um 26.6 milljarðar kr., en í ársbyrjun 1979 26.3 milljarðar, þannig að þarna hafi bæst við 300 millj. kr. í skuld. Þess ber að gæta í sambandi við þetta, að enn þá er ekki búið að færa upp erlendar skuldir ríkissjóðs og fjöldamargt fleira í tengslum við ríkisfjármálin hefur ekki verið gert upp enn þá þannig að menn geti gert sér fyllilega heildarmynd af niðurstöðu þeirra. Ég þykist þó sjá að útkoman hafi verið heldur hagstæðari, nokkru hagstæðari en gert var ráð fyrir t.d. í haust þegar gerðar voru sérstakar ráðstafanir til þess að bæta stöðu ríkissjóðs með útgáfu brbl. um hækkun söluskatts og vörugjalds. Þetta virðist vera nokkuð ljóst.

Ég vildi fyrst beina nokkrum orðum til hv. þm. Matthíasar Á. Mathiesens varðandi ríkisfjármálin. Mér finnst hann vera heldur fljótur á sér að dæma um niðurstöður ríkisfjármálanna fyrir árið 1979 af sömu ástæðu, að ekki liggja fyrir nægar upplýsingar um þau enn þá. Allar fullyrðingar hans í því efni eru því getgátur, að talsverðu leyti a.m.k. Ég vænti þess að hæstv. fjmrh. haldi þeirri venju, sem verið hefur um nokkurt árabil, að gefa Alþ. skýrslu um þróun ríkisfjármála fyrir seinasta ár, þannig að hægt verði að ræða þau mál hér á hv. Alþ. í ljósi þeirra upplýsinga sem þar verður að finna. Þess vegna veit ég ekki hvort ég fer út í það að ræða við hv. þm. Matthías Á. Mathiesen um ríkisfjármálin. Ég hef þó örlitla tilhneigingu til þess að bera saman árið 1975, sem var fyrsta árið sem hann fór með ríkisfjármálin heilt ár, og árið 1979, sem var ekki að fullu í minni embættistíð, en mætti segja að ég bæri þó nokkuð mikla ábyrgð á, og er ég ekkert að skorast undan þeirri ábyrgð, vegna þess að í raun og veru hefur ekkert gerst í sambandi við ríkisfjármálin sem neinu munar um niðurstöðuna frá þeim grundvelli sem lagður var í minni fjmrh.-tíð, eins og kunnugt er. En hver sem niðurstaðan verður á ríkisfjármálunum árið 1979 er ég alveg viss um að hún verður miklu hagstæðari en var á árinu 1975, því að þá var rekstrarhalli á fjárlögum ríkisins 7.5 milljarðar. (Gripið fram í: Nei, greiðsluhalli.) Rekstrarhalli, það var rekstrarhalli. (Gripið fram í: Nei.) Jú, ég held að við þurfum ekki að deila um þetta, hv. þm. og ég. Þetta liggur fyrir. Það var þannig, ef ég man rétt, að tekjurnar voru tæpir 50 milljarðar, en útgjöldin um 57 milljarðar 1975. Rekstrarhallinn var þannig um 7.5 milljarðar, sem mundi samsvara a.m.k. 35 milljörðum miðað við núverandi verðlag.

Auðvitað var lagður grundvöllur að ríkisfjármálunum með afgreiðslu fjárl. fyrir jól 1978 og tekjuöflunarfrv. sem þá voru afgreidd upphaflega. Síðan kom það til, sem gerð var grein fyrir á síðasta ári, að þróun ríkisfjármála var óhagstæð eins og þróun efnahagsmála yfirleitt á seinasta ári. Ekki þarf að fara í neinar grafgötur með það. Margar ástæður ollu því. Ein af ástæðunum var olíukreppan, kannske sú stærsta, því að hún setti í raun og veru úr skorðum allar áætlanir sem gerðar höfðu verið í efnahagsmálum, atvinnumálum, ríkisfjármálum og peningamálum. Það hefur stundum verið sagt, að ríkissjóður hafi grætt á olíukreppunni vegna þess að hann hafi fengið miklu meiri tekjur inn vegna tolla af bensíni og olíuvörum. En auðvitað er ekki öll sagan sögð með þessu, vegna þess að það fé, sem varð að greiða úr landi vegna hækkaðs verðs á olíuvörum, var ekki notað til að flytja inn til landsins alls konar vörur sem hefðu gefið ríkissjóði verulegar tekjur. Sú fullyrðing, að ríkissjóður hafi grætt á þessu, er því mjög vafasöm. Ég skal ekki fullyrða neitt í þeim efnum. Það gæti verið að ríkissjóður hefði hagnast eitthvað á þessu. Þó minnir mig að það hafi verið talið sáralítið þegar menn reyndu að leggja mat á hvaða vörur það hefðu orðið sem hefðu verið fluttar til landsins í staðinn fyrir þær fúlgur sem þurfti að greiða úr landi vegna hækkunar á olíuvörunum.

Ýmsar ráðstafanir voru gerðar, sem ég skal ekki rekja við þetta tækifæri, — ég geri það kannske síðar, gerði það raunar á hinu stutta Alþ. í haust, — sem olli því hve ríkisfjármálin voru óhagstæð eða þróun þeirra á seinasta ári. En fyrst og fremst réð þó verðbólgan þar mestu og raunar fleira sem þar kom til. En röskun ríkisfjármálanna, sem leiðir af miklu meiri verðbólgu en menn gera ráð fyrir þegar fjárlög eru afgreidd, hefur margvíslegar afleiðingar. Hún hefur þær afleiðingar að ríkið þarf meiri tekjur en ella hefði verið, vegna þess að kaupgjald hækkar og innflutningur er meiri, umsetning í þjóðfélaginu er meiri o.s.frv., en einnig hitt, sem venjulega vegur þyngra, að öll útgjöld aukast að miklum mun. Þetta raskar öllum ríkisfjármálum og gerir það að verkum að útilokað er annað en að afgreiða ýmis mál og ýmsar aukafjárveitingar til þess að koma í veg fyrir glundroða í sambandi við t.d. ýmsar framkvæmdir sem samið hefur verið um og menn eru bundnir við á þeim grundvelli sem áður var, en breytist með hækkandi verðlagi. Þannig á sér stað viss glundroði í sambandi við það að standa nákvæmlega við fjárlög sem Alþ. samþykkir, m.a. af þessum ástæðum. Laun hækka meira en gert hefur verið ráð fyrir o.s.frv.

Um miðjan septembermánuð voru gefin út brbl. um hækkun á söluskatti og vörugjaldi sem gáfu ríkissjóði í tekjur á þessu ári, að ég ætla, um 3 milljarða kr. til viðbótar við það sem áður var. Ákveðið var að þessi lög kvæðu á um að framlengja hækkun á söluskatti og vörugjaldi allt árið 1980. Jafnframt var ákveðið að taka í desembermánuði, til þess að styrkja stöðu ríkissjóðs, bráðabirgðalán að upphæð 4.5 milljarðar kr. og greiða það upp á fyrstu mánuðum þessa árs með auknum tekjum af hinum hækkuðu tekjustofnum. Þetta mun hafa verið gert og greiðslustaða ríkissjóðs af þessum sökum stórlega batnað.

Þegar verið var að ganga frá þessum málum í fyrrasumar varð illu heilli verulegur dráttur á því að samþykkja brbl. en þau voru samt að lokum samþ. af fyrrv. ríkisstj. og lögð fram hér á Alþ. í haust. Þau urðu ekki afgreidd á Alþ. í haust, eins og menn muna, heldur féllu þau úr gildi. Þessi lög voru svo gefin út á nýjan leik sem brbl. af núv. hæstv. ríkisstj. Ég hef haft tilhneigingu til þess að álíta að Sjálfstfl. bæri ábyrgð á þessari auknu tekjuöflun þrátt fyrir yfirlýsingar um lækkun skatta, vegna þess að hann hleypti fótunum undir núv. hæstv. ríkisstj., eins og kunnugt er. Þannig tel ég að Sjálfstfl. beri fulla ábyrgð á þeim skattahækkunum sem þarna áttu sér stað - fulla ábyrgð. (MÁM: Þetta er misskilningur hjá ræðumanni.) Þetta er enginn misskilningur, því að Sjálfstfl. mótmælti þessu aldrei, ekki svo að ég yrði var við. En það er nú annað mál.

Þegar gengið var frá þessum málum í septembermánuði var áætlað að það mundi skorta á um 4.5 milljarða kr. á síðasta ári til þess að endarnir næðu saman rekstrarlega. Þess vegna var þannig að farið að taka bráðabirgðalán, sem yrði greitt á fyrstu mánuðum þessa árs og ekki blandað saman við tekjuöflun og tekjuáætlanir ríkissjóðs á þessu ári að öðru leyti.

Það, sem gerst hefur í tíð núv. hæstv. ríkisstj. í sambandi við ríkisfjármálin, er að minni hyggju aðallega tvennt. Það er í fyrsta lagi að gerð var breyting varðandi innheimtu. (Gripið fram í.) Það var gerð sú breyting á varðandi innheimtu á tekjum ríkissjóðs, að í stað þess að innheimtumenn eða innheimtuaðilar skiluðu ríkissjóði fé tvisvar í viku var ákveðið að gera það á hverjum degi. Ein stór stofnun var þó undanþegin í þessu efni, þar sem var tollstjóraembættið, sem hefur ávallt skilað ríkissjóði jafnóðum á hverjum degi tekjum sínum. Þetta hefur auðvitað engin áhrif á heildarútkomu ársins 1979, ekki nokkur, vegna þess að það hefur ætið verið svo, að skrapað hefur verið upp allt sem menn hafa getað skrapað í ríkissjóð fyrir áramót og hefur þess vegna engin áhrif á heildarniðurstöðu ríkissjóðs eða fjármála ríkisins á s.l. ári.

Í öðru lagi var skorið niður um 500 millj. af útgjöldum ríkisins. Lögum samkv. átti að skera niður 1 milljarð. Samkv. lögum nr. 13 frá 1969, um stjórn efnahagsmála o.fl., var beinlinís lögbundið að skera niður 1 milljarð. Ég gerði ráðstafanir til þess strax í marsmánuði með bréfi til hinna ýmsu fagráðuneyta að þau gerðu tillögur til fjmrn. um hvað skyldi skera niður. Það verður að segja þá sögu alveg eins og hún gekk fyrir sig, að það komu frekar litlar tillögur til rn. út af þessu. Þess vegna hafði ég í undirbúningi tillögur til ríkisstj. um niðurskurð að upphæð 1 milljarður. En það vannst ekki tími til að vinna úr því máli vegna stjórnarskiptanna. Hæstv. fjmrh. hefur skýrt frá því, að ríkisstj. hafi ekki treyst sér til að skera niður nema 500 millj. kr. vegna þess hversu mjög hafi verið liðið á árið þegar hún kom til valda. Ég skal ekki leggja dóm á það. En ég fæ ekki séð að það hafi í raun og veru neitt það gerst í sambandi við ríkisfjármálin síðari hluta ársins sem hefur breitt þeirri niðurstöðu sem ætla má að hefði orðið á árinu þó að fyrrv. ríkisstj. hefði setið áfram.

Ég vil t.d. upplýsa það, að í júnímánuði, eða nánar tiltekið 13. júní 1979, gerði fjmrn. samning við Seðlabankann um greiðsluáætlun ríkissjóðs og þar með um fyrirgreiðslu af hálfu Seðlabankans til ríkissjóðs vegna framkvæmdar fjárlaga ársins 1979. Samkv. þeirri greiðsluáætlun var gert ráð fyrir að í janúarmánuði þyrfti Seðlabankinn að lána ríkissjóði 5.5 milljarða kr., í febrúar 8.2 milljarða, í mars 11.6, í apríl 15.4 milljarða, í maí 13.9 í júnímánuði 14.6 í júlímánuði 14.7, í ágúst 9.8, í sept. 8 milljarða, í okt. 6 milljarða, í nóv. 700 millj. og þetta væri svo komið niður í 0 í desemberlok. Þannig var um þetta samið og þá er miðað við stöðuna eins og hún er í lok hvers mánaðar. Það er engin ný saga að fjármál ríkisins ganga þannig, að fyrri hluta ársins og sérstaklega á miðju ári er mikið af útgjöldum, en aftur tiltölulega minna af tekjum. Síðari hluta ársins snýst þetta við, útgjöldin verða hlutfallslega minni og tekjurnar margfalt meiri. Þess fer alveg sérstaklega að gæta í okt., nóv. og desembermánuði. Eins og sést af þessari greiðsluáætlun er gert ráð fyrir að lánin minnki í okt., nóv. og hverfi alveg í des. Það er því engin ný bóla þó að umskipti verði í þessum efnum einmitt á þessum tíma, heldur er það eðlilegt og hefur jafnan verið svo.

Varðandi einstök atriði í þessum efnum er af mörgu að taka. Hv. þm. Matthías Á. Mathiesen sagði að skuld ríkissjóðs við Tryggingastofnun ríkisins hefði numið rúmum 5 milljörðum kr. í árslok 1979. Ég held að ég muni það örugglega rétt, að þessi skuld hafi verið 4.7 milljarðar við árslok 1978. (MÁM: 2.5.) Ja, það verður að athuga það. Ég held að ég fari nokkuð rétt með þetta og ég held að ég þori að láta það fara inn í þingtíðindi, að hún hafi verið 4.7 milljarðar. Um þetta er ítarleg skýrsla til í fjmrn. sem hægt er að fletta upp í. Ég mun hafa sagt á Alþ. í fyrra að skuld þessi hafi verið um 5 milljarðar, sennilega oftar en einu sinni. Ég held að hún hafi verið 4.7 milljarðar kr. Ég skal ekkert fullyrða um samanburð eða við árslok 1978–1979 og nú við árslok 1979–1980. Ég skal ekkert um það fullyrða vegna þess að ég veit ekkert um það. En ég veit að þessi skuld var veruleg við áramótin 1978–1979.

Ég vil endurtaka að það eru hreinar ágiskanir hjá hv. þm. um stöðu ríkissjóðs eins og hún var við síðustu áramót. Það kemur allt saman í ljós þegar skýrsla berst frá ráðh. um þessi mál og verður sjálfsagt innan tíðar send þm. þannig að þeir geti rætt það nánar, e.t.v. í tengslum við væntanlega fjárlagaræðu sem ekki hefur verið boðað hvenær verður flutt. Mér finnst þessar umr. vera ótímabærar að því er snertir niðurstöðu fjármála ríkisins á síðasta ári. Hins vegar er fullkomlega eðlilegt að komi fram fsp. sú sem hv. fyrirspyrjandi lagði hér fram að gefnu tilefni um upplýsingar sem hæstv. fjmrh. hefur gefið í fjölmiðlum. Það er eðlilegt.

Ég verð að segja eins og er, að ég er nú hálfhræddur um að hæstv. fjmrh. hafi kallað á kröfugerð frá ýmsum með fréttaflutningi sínum. Sveitarstjórnarmenn munu nú fylgja málinu eftir og reyna að fá borgað allt sem þeir eiga að fá borgað. Það væri hræsni að halda því fram að ekki hafi einhvern tíma verið pottur brotinn í þessum efnum fyrr, enda kom það fram hjá hv. þm. Alexander Stefánssyni sem þekkir þessi mál gjörla því að hann hefur starfað í sveitarstjórnamálum um langa hríð. En ég vona að það fáist tækifæri til þess að kryfja ríkisfjármálin 1979 til mergjar hér á Alþ. þegar upplýsingar liggja fyrir um þau. Ég skal ekki spá neinu, en ég held þó að niðurstaðan sé heldur betri en menn gerðu ráð fyrir í sept. og það stafi af því að tekjurnar hafi orðið meiri en menn áætluðu.

Ég get vel játað að ég óskaði eftir því við þá, sem áætluðu tekjur ríkissjóðs, að þegar um matsatriði væri að ræða reyndu þeir að meta varlega því að aldrei sakar að hafa borð fyrir báru í þessum málum. Því miður hefur það stundum viljað brenna við að menn hafi ekki séð fyrir þróunina og útkoman orðið lakari en menn höfðu haft ásstæðu til að ætla þegar áætlanir voru gerðar.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um málið nú, en tel að það orki tvímælis að fjmrh. gefi út ýmiss konar fréttatilkynningar um fjármál ríkisins fyrr en allar stærðir liggja fyrir, þannig að menn þurfi ekki að fara í neinar grafgötur um það, hver útkoman hafi orðið og hver þróun ríkisfjármálanna hafi orðið á s.l. ári.