10.01.1980
Sameinað þing: 9. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í B-deild Alþingistíðinda. (344)

Umræður utan dagskrár

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég mun ekki hafa langt mál út af þessu máli en mér fannst að ræða hæstv. fjmrh. væri í raun og veru miklar umbúðir utan um litlar upplýsingar. Fjmrh. ræddi um greiðslustöðu ríkissjóðs gagnvart sveitarfélögunum, enda hófst þessi umr. eingöngu út af vandamálum sveitarfélaganna, og hefði verið eðlilegt, eins og hæstv. forseti gat um í upphafi, að rætt hefði verið að þessu sinni eingöngu um það mál, en ekki að eyða tíma og fara út í allt aðra sálma.

Það fór ekki milli mála við hvað hæstv. fjmrh. átti þegar hann var að ræða um ákveðið fræðsluumdæmi, því að a.m.k. leit hann oftar en einu sinni til mín í því sambandi, og tók ég það þannig að þar væri um Norðurl. e. að ræða. Ég hef ekki fylgst með þessu tilkynningastríði svo mjög, ég er stundum upptekinn við símann og annað þannig að ég hef ekki fylgst með því, en ég held að upphafið hafi verið að haft hafi verið eftir einhverjum sveitarstjórnarmönnum eða forráðamönnum skóla í Norður-Þingeyjarsýslu um stöðuna þar og síðan hafi þetta smáaukist. En staða þeirra um áramótin, hinna fátæku hreppa á Norðausturlandi sem hafa orðið fyrir mestum áföllum vegna veðurfars, var 16.4 millj. kr. hjá ríkissjóði. T.d. skuldar ríkið fámennum hreppi eins og Öxarfjarðarhreppi 6 millj.

Hæstv. fjmrh. segir að allir reikningar hafi verið greiddir sem hafi komið. Hæstv. menntmrh. viðurkennir að þeir hafi verið stöðvaðir í rn. Ég held að þeir hefðu átt að reyna að koma sér saman um vinnubrögð, og e.t.v. er það skýringin að bremsan hafi átt að vera þannig, enda er mér sagt af sumum mönnum, sem fóru að grennslast um þessar greiðslur, að þeim hafi verið sagt að gefin hafi verið út tilkynning eða sagt hafi verið af vissum mönnum að ekki yrðu borgaðar neinar beiðnir sem kæmu a.m.k. eftir 22. nóv. Ég aflaði mér þeirra upplýsinga út af þessu stríði, hvernig staðan væri í mínu kjördæmi. Beiðnirnar fara allar 22. og 23. nóv. nema ein. En síðan gerist það, að sum sveitarfélögin fá greiðslu upp í þessa reikninga, þ.e.a.s. þau sem hafa sérstaklega borið sig illa, en ég fullyrði það a.m.k., að sum þeirra stóðu ekkert verr að vígi en mörg hinna sem ekkert fengu.

Ég held að þessi umr. hafi verið þörf, og ég held að hún ætti líka að leiða meiri athygli þm. að fræðsluskrifstofunum úti um land og hvernig að þeim er búið. Hæstv. fjmrh. var sérstaklega að benda á fræðsluumdæmið í Norðurl. e. Ef ætti að fara samkv. lögum ættu stjórnendur þess að fá rúmar 21 millj. til þess að inna þau störf af hendi sem löggjöfin ætlar þeim. En þannig er skorið niður að það er ekki helmingur sem þeir fá. Ég tek það eiginlega sem mjög mikla viðurkenningu, sem hæstv. ráðherra lét falla um fræðslustjórann í Norðurl. e., þó að hann hafi kannske ætlað að hafa það á annan veg, að hann hafi reynt að ganga eins langt og hægt væri til þess að gera skyldu sína í sambandi við það sem fræðsluskrifstofurnar eiga að inna af hendi. Það er óviðunandi að sumir fræðslustjórarnir þurfi jafnvel að taka víxla sjálfir til þess að geta borgað fyrir jól því starfsliði sem þeir hafa, vegna þess að ríkið stendur ekki í skilum og borgar ekki það sem það á að borga. Þetta hefur verið gert, ekki í einu, heldur í fleiri umdæmum.

Ég held og ég veit það raunar-ég þekki marga menn í embættum fræðslustjóra að verulegur tími fer í að reyna að rukka bæði sveitarfélögin og ríkið. Þannig er t.d. í Norðurl. e. og þar er um mjög mörg sveitarfélög að ræða. Ég held að það ætti að koma málum þannig fyrir, að ríkið blátt áfram borgaði allt saman og tæki það af jöfnunargjaldinu til að létta þessum störfum af fræðslustjórunum. Sveitarfélögin eiga t.d. ekki gott með að borga fræðsluskrifstofunum fyrir áramót, þegar ríkið heldur stórum upphæðum fyrir þeim, eins og hefur gerst nú og kannske áður.

Hv. þm. Tómas Árnason gaf í skyn að það mundi áður hafa verið þverbrestur í þessum málum. Það kann að vera. En ef þessi umr. yrði þó til þess að þetta yrði allt endurmetið og komið reglu á þau mál, þá er vel.