10.01.1980
Sameinað þing: 9. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í B-deild Alþingistíðinda. (345)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Ég held að út af fyrir sig sé ekkert óeðlilegt eða óæskilegt þó svo nokkuð, almenn umr. hafi orðið hér um ríkisfjármálin, vegna þess m.a. að þessi fsp. og umr. um þessi samskipti ríkisins og sveitarfélaganna hefur orðið til vegna frétta um bráðabirgðatölur um afkomu ríkissjóðs. Það er ekkert óeðlilegt og ekkert óæskilegt að nokkur umr. hafi orðið um ríkisfjármálin í tengslum við fsp. En ég ætla ekki að halda henni áfram, enda væntanlega ekki mjög langt þangað til tækifæri gefst til að taka það mál sérstaklega fyrir, heldur svara í örfáum orðum eða koma með ábendingar í sambandi við það sem menn hafa sagt.

Í fyrsta lagi er það sem hv. síðasti ræðumaður sagði, hv. 2. þm. Norðurl. e. Það er alveg rétt, að fræðsluskrifstofurnar eiga í allverulegum fjárhagsörðugleikum, m.a. og einkum og sér í lagi sakir þess að sveitarfélögin eða öllu heldur landshlutasamtökin leggja í mörgum tilvikum fræðsluskrifstofunum ekki til það fé sem grunnskólalögin mæla fyrir um að landshlutasamtökin skuli gera. Mér er vel kunnugt um að mjög víða veldur þetta erfiðleikum í rekstri fræðsluskrifstofanna. Þarna hefur ríkið hlaupið undir bagga, bæði beint og óbeint, og greitt til viðbótar við þann kostnað, sem það á að leggja fræðsluskrifunum til hluta af því sem sveitarfélögin hefðu átt að leggja fram.

Við munum það, sem sátum á þingi þegar þessi mál voru til umr., að það, sem torveldar að hægt sé að framfylgja þeim atriðum grunnskólalaganna að sveitarfélög leggi fræðsluskrifstofum til fé, var að ekki fékkst samþ. frv. til l. um réttarstöðu landshlutasamtakanna, þar sem m.a. var ráð fyrir því gert að landshlutasamtökin fengju vald til að innheimta hjá sveitarfélögunum fjárhæðir sem landshlutasamtökunum var í öðrum lögum, eins og grunnskólalögunum, gert skylt að greiða. Þarna hefur myndast sá hnútur að landshlutasamtökin eru samkv. grunnskólalögunum skyldug til að leggja fræðsluskrifstofunum til fé, en hins vegar eru landshlutasamtökin ekki aðilar að lögum og hafa ekki vald til þess að innheimta það fé hjá sveitarfélögunum. Því hafa fræðsluskrifstofurnar orðið fjárvana. Vandi fræðsluskrifstofanna er því ekki fyrst og fremst að þær skorti meira fé frá ríkissjóði, þó að auðvitað gætu þessar skrifstofur notað aukið fjármagn þaðan, heldur fyrst og fremst að sveitarfélögin hafa í flestum tilvikum, ef ekki öllum, ekki greitt fræðsluskrifstofunum það sem grunnskólalögin gera ráð fyrir að þau greiði og sá vandi hefur komið á ríkissjóð. Þannig er það ríkissjóður sem þarna reynir að hlaupa undir bagga með fræðsluskrifstofunum, vegna þess að sveitarfélögin leggja ekki fram það framlag sem grunnskólalög gera ráð fyrir.

Í öðru lagi minntist hv. þm. á stöðu hinna fátækari hreppa í Norðurl. e. Það er alveg rétt, að einstök sveitarfélög hafa átt í nokkrum erfiðleikum út af samskiptum við ríkisvaldið um skólakostnað, þó svo að staða sveitarfélaganna í heild gagnvart ríkinu sé ekki verri í þessu sambandi samkv. frásögn menntmrn. en hún var um s.l. áramót. Eftir þær breytingar, sem gerðar voru í haust, ætti ríkissjóður raunverulega inni hjá sveitarfélögum, ef skuldajafnað væri, vegna þess að hann hefur greitt fyrir sveitarfélögin yfirvinnu og stundakennslu í desember sem gjaldféll ekki á ríkissjóð fyrr en í janúar, en sveitarfélögin áttu að greiða í desember. Ef þarna væri skuldajafnað mundi ekki staðan vera sú, að sveitarfélögin ættu inni hjá ríkissjóði vegna skólakostnaðar, heldur þvert á móti þannig, að ríkissjóður ætti inni hjá sveitarfélögunum. T.d. get ég upplýst að samkv. frásögn launadeildar í morgun hefur ríkissjóður í desembermánuði greitt fyrir Reykjanesumdæmi slíkan kostnað, sem ekki ætti að greiðast fyrr en í janúar, að upphæð tæpar 54 millj., 53 712 863. Þetta er samkv. bréfi til mín frá Guðmundi Karli Jónssyni deildarstjóra launadeildar, dagsettu 10. jan. 1980, en það er yfirlit sem unnið hefur verið í launadeild um stundakennslu og yfirvinnu sem ríkissjóður hefur greitt fyrir sveitarfélög í Reykjanesumdæmi í desembermánuði, sem ekki hefði gjaldfallið fyrr en 1. janúar að réttu lagi. Hins vegar telja sveitarfélög í Reykjaneskjördæmi að þau eigi þarna kröfu á ríkissjóð, sem hafi verið gjaldfallin og hafi átt að greiðast að upphæð um 40 millj. kr. Menn sjá því að ef þarna yrði gert upp og skuldajafnað ætti ríkissjóður inni hjá sveitarfélögum í umdæminu rúmlega 13 millj. kr. En við skulum láta það liggja á milli hluta. En í heildina held ég sem sé, að ef þetta mál yrði gert upp milli sveitarfélaga almennt og ríkissjóðs væri ekki hallað á sveitarfélögin.

En hitt er rétt, sem hv. þm. sagði, að einstök sveitarfélög eiga þarna í erfiðleikum. Menntmrh. hefur reynt að koma til móts við þau með því að heimila nokkru örari greiðslur til þeirra. En vandinn er sá í Norðurl. e., eins og hefur komið fram, að sum af sveitarfélögunum hefðu átt undir öllum eðlilegum kringumstæðum að vera búin að fá nokkuð af kostnaði sínum endurgreitt, vegna þess að sá kostnaður gjaldféll vegna t.d. september- og októbermánaðar. Hvað önnur fræðsluumdæmi varðar hafa þau þegar fengið endurgreiðslur á kostnaði sem féll í gjalddaga á þeim tíma. Ástæðurnar fyrir því, að sveitarfélögin í Norðurl. e. hafa lent illa út úr þessu, verr en mörg önnur, er einfaldlega sú, eins og hæstv. menntmrh. tók fram áðan, að engir reikningar bárust menntmrn. um endurgreiðslur til þessara sveitarfélaga fyrr en alveg í mánaðarlokin í nóvember, rétt um mánaðamótin nóvember–desember. Ég ætla ekki að ræða hvers vegna þetta gerðist ekki fyrr, hvort það var vegna þess að sveitarfélögin skiluðu ekki reikningum sínum fyrr eða hvort það var vegna þess að fræðslustjórinn skilaði ekki af sér fyrr, en staðreyndin er engu að síður að engar greiðslubeiðnir bárust úr þessu fræðsluumdæmi um endurgreiðslur til sveitarfélaga vegna kostnaðar, sem sveitarfélögin hefðu innt af hendi í september, október og nóvember, fyrr en í lok nóvembermánaðar s.l. Þá fyrst komu fyrstu greiðslubeiðnirnar.

Hv. þm. 4. landsk. þm. talaði í þessu sambandi um að ég hefði farið árásarorðum um trúnaðarmenn fræðslukerfisins í fræðsluumdæmunum. Það er ekki rétt. Ég er aðeins að benda á þær upplýsingar sem mér eru gefnar. Þetta eru þær upplýsingar sem mér eru gefnar af menntmrn. Hæstv. menntmrh. hefur staðfest að í þessu tilviki bárust engir reikningar fyrr en í lok nóvembermánaðar. Það er öðru máli að gegna í öðrum fræðsluumdæmum. Ég er aðeins að tala um þær upplýsingar sem ég hef frá þessu tiltekna fræðsluumdæmi.

Hitt er svo alveg ljóst, svo að ég víki að því sem hv. þm. Páll Pétursson sagði áðan, að þegar ákveðið er í samræmi við reglur fyrri ára að beiðnir um greiðslur verði að hafa borist ríkissjóði fyrir 12. des. og fyrst er verið að senda reikninga utan af landsbyggðinni 3. des. og síðar og þeir reikningar fara fyrst til menntmrn., þar þarf að yfirfara þá og koma þeim síðan til fjmrn. og þessu á að vera lokið fyrir 12. des., þá er auðvitað alveg ljóst að orðið getur af mjög eðlilegum ástæðum erfitt að veita þessum reikningum viðtöku, koma þeim til skila til menntmrn., yfirfara þá og ljúka við að koma þeim í greiðslubeiðni til fjmrn. fyrir 12. des., svo maður tali ekki um ef reikningarnir eru sendir frá fræðsluumdæmunum síðar.

Ég sagði alls ekki að vandi sveitatfélaganna í þessu sambandi væri hlægilegur, þó að hann skipti aðeins nokkrum hundruðum þúsunda eða kannske fáum millj., síður en svo. Ég skil ósköp vel vanda sveitarfélaganna og íbúa þeirra í því sambandi. Ég sagði hins vegar að það gæti verið broslegt að ætla að skýra óvænta og hagstæðari niðurstöður í ríkisfjármálunum, sem næmi nokkrum milljörðum kr., með því að ríkissjóður hefði ekki greitt reikninga til þessa skóla upp á 600 þús. og hins skólans upp á 1 millj. kr. Þarna erum við auðvitað að tala um gersamlega ólíkar stærðir. Ég er hins vegar ekki að gera lítið úr því, að auðvitað getur slíkt skapað skólum, einstaklingum og sveitarfélögum talsverðan vanda.

Hv. þm. Tómas Árnason sagði áðan að ekki væri búið að færa upp við bráðabirgðauppgjörið hjá Seðlabanka Íslands gengisbreytingar vegna erlendra skulda á árinu. Það er ekki rétt. Það er búið, eins og hv. þm. raunar tók fram við mig rétt áðan þegar hann hafði kynnt sér ögn málið þannig að sú aths. hefur ekki við rök að styðjast, eins og ég býst við að hv. þm. sé fús til að viðurkenna.

Hv. þm. Alexander Stefánsson spurði, hvers vegna hafi verið gripið til þess ráðs nokkrum dögum fyrir áramót að breyta áætlunum um greiðslur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til sveitarfélaganna, lækka mjög þær greiðslur miðað við framlag á íbúa. Ég get engu svarað því, því þetta er ekki mál fjmrn. Jöfnunarsjóður sveitarfélaga og áætlanir um greiðslur úr honum eru ekki mál sem fjmrn. hefur með höndum. Það eina, sem fjmrn. gerir í því sambandi, er að rn. stendur Jöfnunarsjóði sveitarfélaga skil á hluta af tollum og söluskatti, eins og lög mæla fyrir og eins og hann hefur verið innheimtur til loka nóvembermánaðar. Þannig er þetta gert og þannig var þetta gert nú eins og ætíð áður. En áætlanirnar um greiðslur úr Jöfnunarsjóði til sveitarfélaga koma hvergi við í fjmrn., svo að hv. þm., sem er reyndur sveitarstjórnarmaður og ætti raunar að vera þetta ljóst, ætti að beina spurningu sinni til annarra en fjmrh. eða fjmrn.

Eins og ég kom að áðan, er það eina, sem gerst hefur í samskiptum ríkisins og sveitarfélaganna í sambandi við skólakostnað til breytinga á þessu hausti frá því sem áður hefur verið, og þar á meðal í nóvember og desembermánuði að ríkissjóður hefur ákveðið það, sem hann er ekki skyldugur til að gera, að greiða jafnharðan fyrir sveitarfélögin alla yfirvinnu- og stundakennslureikninga sem sveitarfélögunum ber að greiða samkv. grunnskólalögum og geta ekki krafist endurgreiðslu úr ríkissjóði á fyrr en síðar. Þetta er eina breytingin sem gerð hefur verið í fjmrn. á samskiptum sveitarfélaganna og ríkisvaldsins út af skólakostnaði nú í haust. Hún er tvímælalaust til bóta fyrir sveitarfélögin, vegna þess að þá þurfa þau ekki að leggja þetta fé út og krefja síðan ríkisvaldið um endurgreiðslu, heldur greiðir ríkissjóður það beint. Er þar tvímælalaust um hagsbót að ræða.

Til þess að sýna enn betur fram á, að hér er ekki um nein nýmæli að ræða sem neikvæð geti talist, vil ég gefa upplýsingar komnar frá ríkisbókara um hvernig staðan í þessu sambandi var í árslok 1978: Þá nam skuld ríkissjóðs vegna grunnskóla 354 millj. kr. Þessa skuld mætti, til að fá út svipaða fjárhæð og nú, færa upp til verðlags um ca. 50% eða meir. Meginhluti þessarar fjárhæðar kom fram eftir miðjan desember 1978 og fram á árið 1979 og var því ekki grundvöllur til greiðslu úr ríkissjóði 1978, segir ríkisbókari. Ástæðan er sú, að endanlegar kröfur sveitarfélaga fyrir milligöngu fræðslustjóranna vegna hvers árs berast ekki fyrr en á fyrstu mánuðum ársins eftir. Þær koma þá fyrst til bókunar og afgreiðslu og slíkar kröfur eru færðar til gjalda í ríkisreikning á árinu á undan, þá jafnframt sem skuld ríkisins. Ríkisbókari tekur þarna líka fram og minnir á að skil á endanlegu uppgjöri sveitarfélaganna og kröfum vegna skólakostnaðar hafa ávallt verið mun seinna á ferðinni en skilafrestur ríkisbókhalds hefur verið og að jafnaði hefur uppgjör skólakostnaðar verið síðasti þáttur í uppgjöri A-hluta ríkisreiknings hvers árs. Ríkisbókari bætir við og segir, að í sumum tilvikum hafi jafnvel þurft að áætla gjaldatölu vegna skólanna og fræðsluskrifstofa, vegna þess að fræðslustjórar hafi sumir hverjir ekki skilað uppgjöri fyrir skrifstofur sínar í því formi sem ætlast hefur verið til þannig að sjá mætti heildargjöld þeirra og skiptingu milli ríkissjóðs og sveitarfélaga. Enn fremur minnir ríkisbókari á, að sveitarfélög hafi sum hver ekki greitt á réttum tíma framlög sín til fræðsluskrifstofu. Ríkisbókari endar aths. sínar á því að ætta að skuldaraukning ríkissjóðs á árinu 1979 vegna grunnskóla sé mjög óveruleg, en menntmrn. fullyrðir að hún sé engin.

Þessi umr. er öll um að safnað hafi verið stórskuld hjá ríkissjóði, ógreiddum reikningum vegna skólakostnaðar sveitarfélaga sem séu gjaldfallnir. Menn þurfa ekki að hafa mín orð fyrir því að svo sé ekki. Menn hafa hér álit ríkisbókara, menn hafa álit menntmrn. og menn fá að sjá innan fárra daga hver verður niðurstaða í bráðabirgðauppgjöri sem nú stendur yfir. Það er með öllu ástæðulaust að halda áfram að tönnlast á að svona hljóti þetta að vera, svona verði þetta að vera, það verði að hafa gerst að við höfum stórlega skert hlut sveitarfélaga frá því sem viðgengist hafi. Það þýðir ekkert að halda áfram að tönnlast á slíku dag eftir dag eftir að fyrir liggur álit allra þeirra hlutlausu embættismanna sem ég hef hér vitnað í og hafa um málið fjallað.

Ég endurtek, að samkv. yfirlýsingum bæði ríkisbókara og menntmrn. hefur þetta ekki gerst og hugmyndir um það og fullyrðingar, að þarna hafi verið um að ræða mikla skuldasöfnun og miklar vangreiðslur, eru ekki á rökum reistar. Menn þurfa ekki að hafa mín orð fyrir því. Ég er með þetta skriflegt frá ríkisbókara og líka skriflegt í fréttatilkynningu frá menntmrn. Ef menn vilja endilega deila við þá háu herra, hina hlutlausu embættismenn sem menn eru alltaf að biðja um úttektir frá, er rétt að þeir geri það. En ég er furðu lostinn ef menn halda áfram að tönnlast á þessu sama eftir þetta.

Það eina, sem gerst hefur á þessu hausti í samskiptum ríkis og sveitarfélaga vegna grunnskóla og ekki verið áður, er að reglum hefur verið breytt til hagræðis fyrir sveitarfélögin. Sveitarfélögin hafa haft beinan fjárhagslegan hag af þeirri einu breytingu frá venjum og reglum sem gilt hafa á undanförnum árum. Ég nenni hreinlega ekki að elta ólar við fullyrðingar um hið gagnstæða, ef ekki er tekið mark á því sem ríkisbókari lætur frá sér fara um þetta mál, ef ekki er tekið mark á því sem menntmrn. lætur frá sér fara um þessi mál, ef ekki er tekið mark á þeim talnalegu upplýsingum sem fjmrn. lætur frá sér fara um þessi mál. Það er alveg tilgangslaust að vera að elta ólar við slíkt.

Hv. þm. Stefán Jónsson og hv. þm. Matthías Á. Mathiesen bentu báðir á það, sem rétt er, að segja má að ríkissjóður skuldi Tryggingastofnun ríkisins bókhaldslega eitthvert fé. Meginatriði málsins í samskiptum Tryggingastofnunar ríkisins og ríkissjóðs er það, hvort til greiðslustöðvunar hafi komið hjá Tryggingastofnun, hvort Tryggingastofnun ríkisins getur ekki staðið í skilum með lögboðnar greiðslur. Það er meginatriði málsins. Halda má fram að ríkissjóður skuldi Tryggingastofnun ríkisins allmikið fé. En menn skyldu líka gæta að því, hvernig sú skuld er til komin. Hún er að öllum meginstofni til frá árinu 1971. Þá myndast þessi skuld við það að sú ríkisstjórn, sem þá tekur við völdum, tekur þá ákvörðun að hækka bótagreiðslur Tryggingastofnunar ríkisins án þess að útvega Tryggingastofnuninni fé á móti. Þetta á að vera á vitorði allra fjvn.-manna að minnsta kosti. Sú ákvörðun þáv. ríkisstj. að ákveða að hækka mjög verulega bótagreiðslur Tryggingastofnunar ríkisins, t.d. ellilífeyri, án þess að sjá til þess að fé kæmi á móti, varð til þess að skapa það vandamál sem menn hafa velt á undan sér frá ári til árs síðan og hefur hlaðið utan á sig síðan, vegna þess að engin ríkisstjórn hefur tekið á málinu. Þetta hefur orðið til þess að þessi skuld, eins og menn kalla það, hefur skapast. Ég veit að bæði núv. og fyrrv. heilbr.- og trmrh. mundu staðfesta þetta. Ég veit að hv. þm. Matthías Bjarnason mundi staðfesta það, ég tala nú ekki um hæstv. núv. heilbrrh., að það vandamál, sem hér er um að tala, skapaðist á árinu 1971 fyrir tilverknað þáv. ríkisstj., þegar útgreiðslur voru stórauknar hjá Tryggingastofnun án þess að fyrir fé væri séð.

Hvers vegna ekki hafi orðið um að ræða greiðslustöðvun til fræðsluumdæmisins á Vestfjörðum. Svarið er ákaflega einfalt. Það var ekki um neinar greiðslustöðvanir að ræða til þeirra fræðsluumdæma í landinu, og þau voru fleiri en Vestfirðir, sem voru innan fjárlagatölunnar framreiknaðrar í vísitölu. (Gripið fram í.) Menntmrn. hafði engin afskipti af því önnur en þau að greiða alla slíka reikninga. Vandamálið skapaðist fyrst og fremst hjá þeim fræðsluumdæmum sem fóru mjög verulega fram úr því fjármagni uppfærðu til verðlags sem Alþ., menntmrn., og fjvn. og fjmrn. áætluðu til þessa tiltekna kostnaðar. ( Gripið fram í: Hver voru hin umdæmin?) Mig minnir að það hafi verið Reykjavík, — ég er ekki alveg viss, mig minnir að það hafi verið Reykjavík líka. En það voru Vestfirðir og a.m.k. eitt eða tvö önnur umdæmi. Ástæðan er sú, það get ég upplýst menn um hér, mér er mjög vel kunnugt um það því að svo vel vill til að ég þekki nokkuð til skólamála í mínu kjördæmi, að þarna voru málin unnin þannig bæði af fræðsluyfirvöldum á stöðunum og skólastjórunum, að t.d. vinna kennara vegna félagsstarfa o.fl. í skólunum var við heimildir miðuð, leyfilegur vinnutími var við fjárveitinguna miðaður, og yfirvöld skólabarna heimiluðu ekki meiri aukavinnu í þessu sambandi en nam því fé sem Alþ. hafði úthlutað til verkefnisins.

Ég held að það hljóti að vera krafa allra þeirra, sem með fjárveitingavaldið fara, að þannig sé reynt að halda á málunum, a.m.k. þekki ég það af setu minni í fjvn., að þetta er sú krafa sem fjvn. gerir til allra forstöðumanna ríkisstofnana sem þangað koma. Krafa hennar er að þeir miði áform sín, eftir því sem þeir mögulega geta, við það fjármagn og þá vinnu sem fjárveitingavaldið hefur talið hæfilegt. Ég tel mjög varhugavert ef handhafar fjárveitingavaldsins, alþm., hafa öndverða skoðun, því að þá eru þeir raunverulega að halda því fram að fjárveitingavaldið eigi ekki að vera í höndum þm., heldur í höndum allt annarra manna í þjóðfélaginu. Þetta held ég að sé mjög varasamt og mjög vafasamt. Ástæðan fyrir því, að fræðsluumdæmi fara mjög verulega fram úr verðbættum kostnaðartölum í þessu sambandi, er að skólar í umdæminu hafa greitt meira í hvers konar launakostnað og annan kostnað, sem eftirágreiddur er, en fjárveitingavaldið hefur mælt fyrir um, og þá er það viðfangsefni og verkefni fjármáladeildar menntmrn., fjárlaga- og hagsýslustofnunar, fjmrn. og fjvn. Alþingis að reyna að ná tökum á slíkum málum.

Ég held að menn verði að skilja að alþm. megi ekki hegða sér í þessu sambandi eins og óábyrgir þrýstihópar, vegna þess að það er eitt af verkefnum þeirra að úthluta fé í fjárlögum til að sinna þeim þörfum, sem alþm. sjálfir telja að beri að sinna, og afla fjár til þeirra þarfa. Alþm. hljóta einni að krefjast þess, að eftir þeim vilja sé a.m.k. reynt að fara eftir því sem menn framast orka. Það er a.m.k. ekki æskilegt að mjög mikill mismunur geti orðið á milli stofnana eða fræðsluumdæma, þannig að embættismönnum t.d. og starfsmönnum ríkisins, sem eru mjög aðhaldssamir og reyna að fara eftir fyrirmælum Alþ., sé beinlínis refsað fyrir það með því að sagt sé við þá: Þakka ykkur fyrir. Þetta var gott. En næsta manni, sem e.t.v. hugsar ekki eins mikið um slíka hluti, sé leyft að fara fram úr þeim fjárveitingum, sem Alþ. ætlar til hans, eins og honum dettur í hug. Það er ekki æskileg málsmeðferð.

Ég veit að það er rætt mikið og fullyrt að ríkissjóður hafi ekki borgað áfallnar skuldir, en hins vegar er minna um að þær skuldir séu nefndar, nema það sem hér hefur komið fram um nokkra tugi millj. vegna vangreidds kostnaðar við grunnskóla, sem ég hef þegar svarað. Aðeins ein ábending hefur komið fram í þessum umræðum í því sambandi sem ég vil sérstaklega minnast á. Það er að ríkissjóður skuldi frá fyrra ári 14–15 hundruð millj. kr. vegna útfluttra landbúnaðarafurða. Þetta er algjörlega rangt. Ríkissjóður hefur lokið greiðslum vegna útfluttra landbúnaðarafurða á s.l. ári upp í topp. Það hefur oft gerst að endanlegu uppgjöri hafi verið frestað fram yfir áramót, en það var ekki gert nú. Ríkissjóður borgaði uppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir, fjárhæð sem nemur 10% af heildarverðmæti landbúnaðarframleiðslunnar á verðlagsárinu frá 1. sept. 1978 til ágústloka 1979, eins og lög mæla fyrir um. Það fé, sem menn eru að tala um, er vegna verðábyrgðar á framleiðslu verðlagsársins frá 1. sept. 1979 til ágústloka 1980, það er útflutningsábyrgð sem gjaldfellur ekki fyrr en á árinu 1980. Að greiða á árinu 1979 hluta af þeirri ábyrgð, sem gjaldfellur á árinu 1980, er að greiða flýtigreiðslu, hraða greiðslum á útflutningsuppbótum umfram það sem fjárlög og lög um Framleiðsluráð landbúnaðarins o.fl. mæta fyrir um. Það er rétt, að slíkt var ekki gert nú, enda skorti til þess heimild í fjárlögum.

Ég ítreka það svo að lokum, að allt það, sem ég hef sagt hér í sambandi við skipti sveitarfélaga og ríkissjóðs, hef ég beint eftir fjmrn. og stofnunum í tengslum við fjmrn. og menntmrn. sem um þessi mál fjalla. Ég held að það sé mjög varasamt að fullyrða sýknt og heilagt að þær upplýsingar séu rangar, þær séu ekki réttar og byggðar á rangindum, öðruvísi en að afla sér haldbetri upplýsinga frá aðilum sem betur vita.

Að lokum nokkur atriði í sambandi við það sem hv. þm. Matthías Á. Mathiesen, 1. þm. Reykn., sagði í ræðu sinni áðan.

Hv. þm. sagði m.a. að ég hefði haldið áfram þeim ævintýraleik að ná hagstæðari stöðu í lok hvers mánaðar til þess að geta velt mér upp úr því, en allt hefði verið komið um koll aftur næsta dag. Ef það væri rétt hjá hæstv. fyrrv. fjmrh., að ég hefði ætlað mér í blöðin og fjölmiðlana alla þá daga sem staða ríkissjóðs á hlaupareikningum í Seðlabankanum væri hagstæð, þá er ég hræddur um að fáa daga eftir miðjan nóv. og des. hefðu blöðin losnað við mig. Ég hefði verið þar nokkurn veginn fastagestur, svipað og leiðari, vegna þess að svo til allan þennan tíma, meginhluta desembermánaðar að 4 dögum undanskildum, og svo til alla síðustu 10 dagana í nóvembermánuði var staðan slík. Hefði ég ætlað að notfæra mér það í hvert skipti til auglýsingar hefði ég verið fastagestur í útvarpi og sjónvarpi og blöðum alla þá daga. Aðeins var um að ræða vísbendingu, eins og ég segi, um það, eins og hæstv. fyrrv. fjmrh. sagði áðan úr þessum ræðustól, að afkoma ríkissjóðs á árinu 1979 mundi reynast hagstæðari en bjartsýnustu vonir höfðu gert ráð fyrir. Það staðfesti hæstv. fyrrv. fjmrh. áðan.

Um það, að staða ríkissjóðs við Seðlabankann hafi ekki verið rétt gerð upp í fjmrn. í bráðabirgðaupplýsingunum sem ég gaf, vil ég taka fram í fyrsta lagi: Hv. þm. Matthías Á. Mathiesen sagðist hafa aflað annarra upplýsinga í Seðlabankanum um þetta efni en hafa komið fram hér. Ég man eftir því, að hv. þm. sagði, þegar hann var ráðh. fjármála fyrir nokkrum árum, að hlutverk Seðlabanka væri ekki að gefa upplýsingar um ríkisfjármálin, heldur væri það viðfangsefni fjmrn. Var fjmrh. allra manna harðastur í þeirri afstöðu sinni. En látum það nú vera. Rétt er sú ábending hans, að af þeim lánum, sem ríkissjóður hefur tekið hjá Seðlabankanum, hafi ekki verið tekin ákvörðun um hvernig færa skuli verðbætur, nema hvað færðar voru verðbætur vegna þess láns sem greitt var í desember, eins og sýnt var í þeim upplýsingum sem ég kom með. Ég vil taka fram í þessu sambandi að í umræðu er milli fjmrn. og Seðlabankans, hvernig með þetta mál skuli fara. Það hefur ekki verið tekin endanleg ákvörðun. Ég býst við að Seðlabankinn muni ekki heldur vilja, ef á reyndi, fullyrða annað en það væri rétt. Um það hefur ekki verið tekin ákvörðun, hvernig áfallnir vextir og verðbætur verða færð nú um áramótin.

Það er rétt hjá hv. þm., að til þessa hefur gengissig jafnan verið fært upp sem skuldaaukning, og það hefur verið gert nú eins og ávallt áður. Hins vegar hafa áfallnar verðbætur á spariskírteinum ekki verið færðar til skuldar, og fyrrv. fjmrh. hljóta allir við það að kannast, og áfallnir vextir hafa ekki heldur verið færðir til gjalda fyrr en þeir hafa verið greiddir. Ég get tekið undir með hv. þm. Matthíasi Á. Mathiesen að vel getur komið til greina að færa áfalinar verðbætur til skuldar um áramót, og það er nú til athugunar og til viðræðu við Seðlabankann. En ef það er gert ætti jafnframt að færa verðbætur af spariskírteinum til skuldar og alla áfallna vexti. Það verður að stíga þetta skref allt í einu tagi.

Að öðru leyti vil ég fátt um þetta segja. Við eigum væntanlega eftir að ræða málið nánar þegar haldbetri bráðabirgðatölur um afkomu ríkissjóðs á árinu 1979 verða gefnar. Að sjálfsögðu verða gefnar upplýsingar um þróun ríkisfjármála á árinu 1979. Í samræmi við ákvæði laga um stjórn efnahagsmála o.fl. frá því á síðasta þingi hefur ríkisendurskoðun með höndum að fylgjast með framkvæmd fjárlaga í umboði Alþingis. Ríkisendurskoðun hefur þegar gert sína fyrstu skýrslu um þetta verkefni sitt, þó svo að ekki sé búið að fá í fast form hvernig sú starfsemi ríkisendurskoðunar eigi að vera og það sé nú til skoðunar í rn. Þessari fyrstu skýrslu hefur ríkisendurskoðun þegar komið á framfæri við fjvn.menn.

Ég ætla að láta þetta verða lokaorð mín um ríkisfjármál almennt, því að tími mun gefast til að ræða þau nánar síðar. En meira í gamni en í alvöru held ég eftir bókhaldsuppfærslu hv. þm. Matthíasar Á. Mathiesen áðan að dæma, þar sem hann bjó til eina 12 milljarða kr. viðbótarskuld ríkissjóðs hjá Seðlabankanum, að ef ríkissjóður væri framtalsskyldur og skattskyldur, þá mundi ég a.m.k. skoða hug minn um það að biðja hv. þm. að telja fram fyrir hann.