10.01.1980
Sameinað þing: 9. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í B-deild Alþingistíðinda. (347)

Umræður utan dagskrár

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð. — Í fyrsta lagi út af því sem hv. 1. þm. Austurl., fyrrv. fjmrh., sagði. Hann vék hér að árinu 1975. Það var alveg rétt sem hann fór með, það var misminni hjá mér, og skal ævinlega hafa það sem sannara reynist. Ég held að ef við bærum saman afkomu þjóðarbúsins 1975 og 1979 og það yrði tekið með inn í reikninginn, þá stæðist það fullkomlega þann samanburð sem því miður — og ég endurtek: því miður á sennilega eftir að koma út úr því dæmi sem .nenn hafa verið að ræða um hér núna, þ.e. ríkissjóðsdæminu 1979.

Varðandi það, sem hæstv. fjmrh. sagði, furða ég mig á því, með tilliti til þess lærdóms sem ég hef fengið í bókfærslu, að það geti verið samkomulagsatriði Seðlabanka Íslands og ríkissjóðs, hvort verðbótaþáttur á lánum, sem ríkissjóður hefur fengið hjá Seðlabankanum, sé færður upp um áramót og efnahagsreikningar annars vegar Seðlabankans og hins vegar ríkissjóðs gerðir þannig upp. Hér er ekki um neitt samkomulag að ræða. Hér gilda einfaldar reglur um bókhald. Ég spyr: Ef ríkissjóður og Seðlabanki Íslands ætla ekki að fara eftir þeim einföldu reglum sem gilda um bókhald, hvað þá um alla hina? Eftir höfðinu dansa limirnir.

Svo kom hæstv. fjmrh. hér upp og sagði að ég hefði fundið 12 milljarða skuld. Hann var í sama orðinu að tala um að það væri búið að færa upp gengisbreytingar á lánum ríkissjóðs hjá Seðlabankanum, og hann vitnaði í hæstv. fyrrv. fjmrh. Ég trúi ekki öðru en hæstv. fjmrh. viti að lánin í Seðlabankanum eru ekki gengistryggð, heldur með verðbótaþætti. Og það er einmitt verðbótaþátturinn sem á að færa upp. Það er búið að færa hann upp á láninu sem var borgað í desember. Og á láninu, sem ekki er borgað af á þessu ári, á að færa hann upp líka. En gengisbreyting er ekki til þar. Menn vita nánast ekki hvað þeir eru að tala um.

Þegar ég kem hér og segi: Staða ríkissjóðs er lakari árið 1979 — og miða við þær tölur sem ég hef eftir hæstv. fjmrh., þá erum við ekki að tala um skuld í Seðlabankanum nema að því leyti sem hún hefur aukist um 2.2 milljarða. En við skulum lesa fjárl. sem giltu fyrir árið 1979. Það var gert ráð fyrir 5 milljarða niðurgreiðslu. Og þar var gert ráð fyrir greiðsluafgangi upp á 2.5 milljarða. Greiðsluafgangurinn er ekki til. Niðurgreiðslan í Seðlabankanum hefur ekki heldur átt sér stað. Þetta er 7.5 milljörðum lakari staða en gert var ráð fyrir, og þar við bætast þessir 2.2 milljarðar, sem eru aukin lán í Seðlabankanum. Síðan fengum við upplýsingar um það, — og höfum heyrt það frá hæstv. heilbrmrh., — að skuldin hjá Tryggingastofnuninni væri um 5 milljarða. Þær upplýsingar, sem ég hef, eru að skuldin hafi verið í upphafi ársins 2.5 milljarðar. Ef við bætum þessu við kemur hin talan út. Staða ríkissjóðs er lakari sem þessu nemur, en ekki um það að ræða, að skuldasöfnun við Seðlabankann hafi aukist um þetta. Hún er bara einn þátturinn af því. Umræður utan dagskrár.