10.01.1980
Sameinað þing: 9. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 251 í B-deild Alþingistíðinda. (348)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs utan dagskrár til þess að beina fsp. til hæstv. dómsmrh. um embættaveitingar hans og þeirrar bráðabirgðaríkisstjórnar, sem nú situr, með sérstöku tilliti til þess, að ég tel nauðsynlegt að hæstv. dómsmrh. skýri fyrir þingheimi þær röksemdir sem liggja að baki veitingu hans á tilteknu embætti: Hvers vegna hann hefur með þeirri veitingu gjörsamlega gengið á bak fyrri yfirlýsingum sínum um baráttu gegn spillingu, baráttu gegn rotnuðu kerfi, og hefur nú tekið upp nákvæmlega sömu vinnubrögð sem hann fordæmdi áður með hvað sterkustum orðum hjá þeirri ríkisstj. sem hér sat 1974–1978. Hvers vegna hæstv. dómsmrh. hefur þannig gerst liðsauki við spillingaröflin í landinu. Hvers vegna hann hefur kosið, þrátt fyrir allar sínar yfirlýsingar hér á Alþ. áður, að ganga inn í bandalag gamla samtryggingakerfisins.

Ég veit að ég þarf ekki að rifja það upp fyrir þeim þm., sem sátu hér á næstsíðasta þingi, — því að síðasta þing var stutt og hæstv. dómsmrh. var þar hljóðlátur eins og hann hefur reyndar verið að mestu leyti á þessu þingi það sem af er, — en á því þingi, sem þar var áður, voru höfð hér í þingsölum stór orð um nauðsyn baráttu gegn spillingu, um nauðsyn þess, að ekki væti lengur hyglað flokkspólitískum gæðingum, og nauðsyn þess, að flokkspólitískar embættaveitingar yrðu lagðar af, því að slíkt kerfi væri „algjörlega óþolandi“, svo notað sé orðalag hæstv. dómsmrh. sjálfs. Hann boðaði einnig samkvæmt eigin orðum rækilegan uppskurð á stjórnkerfinu eða — svo vitnað sé í hæstv. ráðh. — „það skúringarstarf þarf víða að vinna.“

Nú hafa orðið tímamót hjá þessum hæstv. ráðh., því að eftir að núv. ríkisstj. baðst lausnar skipaði hann í embætti Finn Torfa Stefánsson. Samkvæmt þeim yfirlýsingum, sem hæstv. ráðh. gaf þegar hann var þingmaður, er slík embættaveiting gjörsamlega óþolandi og óverjandi.

Mig langar þess vegna að fara hér nokkrum orðum um og beina fyrirspurnum til hæstv. dómsmrh. varðandi þennan gjörning og í því sambandi spyrja sérstaklega um það, hvers vegna hæstv. bráðabirgðaríkisstjórn Alþfl. hefur nú tekið að framkvæma embættaveitingar sem talsmenn flokksins fordæmdu hörðum orðum hjá bráðabirgðaríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar fyrir rúmu ári, 1978, hvort hæstv. bráðabirgðaríkisstjórn, Alþfl. ætli að halda áfram, meðan hún situr sem bráðabirgðaríkisstjórn, að skipa gæðinga sína í embætti á sama grundvelli og talsmenn flokksins fordæmdu sem heitast þegar baráttan gegn spillingunni stóð sem hæst. Það er ástæða til að ætla að svo verði, vegna þess að í dag auglýsir hæstv. félmrh. lausa stöðu skrifstofustjóra Tryggingastofnunar ríkisins sem jafnframt eigi að gegna aðstoðarforstjórastarfi í þeirri stofnun, eins og ég mun koma að á eftir.

Hæstv. ríkisstj. baðst lausnar 4. des. En 28 des. veitti hæstv. dómsmrh. Finni Torfa Stefánssyni, nýföllnum þm. Alþfl. og væntanlega einnig frambjóðanda flokksins í næstu þingkosningum, embætti umboðsmanns í dómsmrn. eða umboðsfulltrúa. Þessi embættisveiting, eftir að hæstv. ráðh. var búinn að biðjast lausnar, olli mér satt að segja mikilli undrun, vegna þess að mér var í fersku minni sá harði dómur sem hæstv. ráðh. felldi, þá nýkjörinn þm., í júlímánuði 1978 um veitingu Geirs Hallgrímssonar, þá bráðabirgðaforsætisráðherra, á embætti húsameistara ríkisins.

Hinn 7. júlí 1978, nokkrum vikum eftir að hæstv. ráðh. var orðinn þm. í kjölfar „stærsta kosningasigurs í sögu lýðveldisins og tímamóta í baráttunni gegn spillingunni“, eins og það var orðað hér í þingsölum og víðar, skrifaði hann grein út af þessari embættisveitingu í Dagblaðið undir fyrirsögninni: „Hneykslanleg embættisveiting.“ Í þessari grein segir svo m.a., með leyfi hæstv. forseta: „Í útvarpsfréttum á miðvikudagskvöld kom hneykslanleg frétt.“ Síðan er það nánar rakið og sagt að greinarhöfundur, núv. hæstv. dómsmrh., ætli sér ekki að setja neitt út á þann einstakling sem embættið fékk, hann þekki það mál ekki, en hann fer hins vegar að deila harðlega á þann hæstv. ráðh. sem embættið veitti og sat þá í nákvæmlega sömu stöðu og hæstv. dómsmrh. sat sjálfur er hann veitti Finni Torfa Stefánssyni það embætti sem hann hefur nýlega hlotið. En í greininni segir enn fremur, með leyfi hæstv. forseta: „Það er auðvitað óþolandi, ef ríkisstjórn, sem hefur beðið ósigur og í kjölfar þess síðan beðist lausnar, situr við það að troða gæðingum í embætti á meðan verið er að velta fyrir sér með hverjum hætti sé hægt að stjórna landinu.“ Síðan kemur í greininni stefnuyfirlýsing þm. og Alþfl. um uppskurð í stjórnsýslunni. Nú þurfi heldur betur að taka til hendinni og uppræta vinnubrögð gamla tímans, eins og segir orðrétt í greininni, með leyfi hæstv. forseta: „Þetta skúringarstarf þarf víða að vinna. Báknið verður að taka í gegn og gera þarf hvort tveggja í senn, gera það heilbrigðara og opnara, og að þessu verður að vinna af öllum mætti.“ Lokakafli þessarar greinar ber hins vegar heitið: „Ögrun gamla tímans.“ Og þar segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Það er auðvitað ögrun þegar ríkisstjórn, sem hefur beðist lausnar og stjórnar einungis sem bráðabirgðastjórn, heldur áfram að útdeila gæðingum sínum bitlingum. Ráðh. átti hins vegar ekki að veita þetta embætti. Það átti ný stjórn að gerá, hver sem hún verður og hvernig sem hún er saman sett.“

Nú hefur það gerst, eftir að hæstv. dómsmrh. hefur beðist lausnar, að hann hefur tekið sér fyrir hendur að gera nákvæmlega það sama sem hann svo harðlega gagnrýndi þáverandi hæstv. forsrh. fyrir, og kannske enn frekar, vegna þess að samkvæmt öllum mælikvörðum á það, hvað sé gæðingur eða hvað sé flokksgæðingur, þá er hv. fyrrv. þm. Finnur Torfi Stefánsson tvímælalaust miklu meiri flokksgæðingur og gæðingur en sá einstaklingur sem skipaður var í embætti húsameistara ríkisins.

Í tilefni af þessari embættisveitingu og í ljósi þeirrar miklu sögu, sem hér hefur orðið í þjóðmálum á undanförnum tveimur árum, baráttu hæstv. dómsmrh. gegn spillingunni og stefnuskrá Alþfl. í þeim efnum, en kannske einkum og sér í lagi með tilliti til þess, að við getum átt von á því að hæstv. ráðherrar haldi áfram þessari iðju sem þeir sjálfir töldu óþolandi og ögrun frá gömlum tíma, þ.e. að útdeila embættum sitjandi í bráðabirgðaríkisstjórn eftir að hafa beðist lausnar, þá hef ég kvatt mér hér hljóðs til þess að gefa hæstv. ráðh. tækifæri til þess að skýra fyrir þingheimi þau hamskipti, sem nú hafa orðið á honum, og til þess að fá yfirlýsingar um það frá hæstv. ráðh., hvers vegna hann hefur nú gengið á bak sinna fyrri yfirlýsinga, hvort hæstv. ráðherrar Alþfl. ætli að halda áfram að útdeila embættum til gæðinga sinna, eins og auglýsing hæstv. félmrh. gefur fyllilega tilefni til að ætla, því það vita allir, sem þekkja sögu Tryggingastofnunarinnar, að hún hefur löngum verið Alþýðuflokksráðherrum hjartfólgin. En þær spurningar, sem ég vil bera fram til hæstv. dómsmrh., eru þessar:

1. Hvers vegna hefur hæstv. ráðh. nú framkvæmt embættisathöfn sem hann áður taldi „hneyksli“ skv. eigin orðum?

2. Hvers vegna „ögrar“ hann nú þjóðinni og þinginu, svo að notuð séu hans eigin orð, með því að halda áfram „að útdeila gæðingum sínum bitlingum“ eftir að ríkisstj. hefur beðist lausnar?

3. Ef ný ríkisstj. átti 1978 að veita embætti húsameistara ríkisins, en ekki bráðabirgðaríkisstjórn sem þá sat, hvers vegna hefur bráðabirgðaríkisstjórn Alþfl. nú rétt til þess að veita það embætti sem hér er til umræðu?

4. Fyrst það var „óþolandi“ og ríkisstjórn sem hafði beðið ósigur — og Alþfl. og ríkisstjórn hans beið tvímælalaust ósigur í síðustu kosningum — var ekki fær til þess að dómi hæstv. dómsmrh. að veita embætti húsameistara ríkisins 1978, hvers vegna hefur hann nú, í nákvæmlega sömu sporum og Geir Hallgrímsson þá, tekið að sér útdeila nýföllnum þm. Alþfl. embætti eftir að ráðh. hefur beðist lausnar?

5. Hvað hafði Finnur Torfi Stefánsson fram yfir aðra umsækjendur annað en það að vera flokksgæðingur hæstv. ráðh. og þurfa á embætti að halda sem nýfallinn þm. Alþfl.?

6. Hvers vegna var umsókn Finns Torfa Stefánssonar tekin gild, en hún barst ráðuneytinu ekki fyrr en 19. des., eða fimm dögum eftir að umsóknarfrestur rann út? (Gripið fram í: Þeir hafa gleymt að rífa af dagatalinu.) Það getur vel verið.

7. Ætlar ríkisstj. Alþfl. að skipa í fleiri embætti meðan hún situr sem bráðabirgðastjórn og halda áfram að framkvæma það sem fulltrúar þessa baráttuflokks gegn spillingunni töldu hneyksli hjá öðrum flokkum?

Ég vil í því sambandi vekja athygli á því, að daginn eftir að ríkisstj. baðst lausnar var annar flokksgæðingur Alþfl., Óskar Hallgrímsson, skipaður í embætti af hæstv. félmrh. Eins og ég hef þegar vikið að er greinilegt, að stefnt er að því að skipa nýjan skrifstofustjóra í Tryggingastofnuninni sem jafnframt, samkv. þeirri auglýsingu sem birt var í dagblöðunum í dag, á að gegna starfi aðstoðarforstjóra stofnunarinnar. Það embætti hefur ekki verið til, en nú virðist sem félmrh. telji að nýskipaður forstjóri stofnunarinnar, fyrrv. ráðh. Alþfl. og þm., þurfi sérstaklega á aðstoðarforstjóra að halda. Þeir, sem þekkja til hjá Tryggingastofnun, vita að innan stofnunarinnar var gerð tilfærsla fyrir nokkru, þar sem búið var til nýtt embætti yfirmanns Atvinnuleysistryggingasjóðs og núv. skrifstofustjóri settur í það embætti án þess að það væri auglýst, til þess að losa þetta embætti skrifstofustjóra Tryggingastofnunarinnar. Sagt er, án þess að ég skuli neitt segja um hvað hæft er í því, að aðstoðarmaður hæstv. félmrh., Georg Tryggvason, sæki í það embætti skrifstofustjóra Tryggingastofnunarinnar sem hér er verið að auglýsa, þannig að hér er á ferðinni greinilega tilraun ríkisstj., sem beðist hefur lausnar, til þess að reyna ekki aðeins að skipa menn í embætti, heldur breyta skipan embætta innan jafnveigamikillar stofnunar og Tryggingastofnunarinnar í þágu flokkspólitískra hagsmuna.

Í síðasta lagi vil ég svo spyrja hæstv. dómsmrh. hvers vegna dómsmrh. hefur nú með þessum verknaði, sem hann greinilega fordæmdi áður, gengið inn í það gamla samtryggingarkerfi stjórnmálaflokkanna sem hann hafði sem stærst orð um áður. Ég held að ekkert eitt hafi verið eins mikið tákn þessa gamla samtryggingarkerfis hér áður fyrr og einmitt aðgerðir ráðh. — og það ráðh. sem sagt hafa af sér — til þess að tryggja föllnum þm. úr eigin flokki feit embætti. Það er vissulega harmsaga, sem við, sem horfðum á baráttuna gegn spillingunni áður fyrr, getum vitnað um, að þessi hæstv. ráðh. skuli á þennan hátt hafa gerst liðsauki spillingaraflanna í þessu landi.