10.01.1980
Sameinað þing: 9. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 258 í B-deild Alþingistíðinda. (352)

Umræður utan dagskrár

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Hv. þm. Sverrir Hermannsson sér enga ástæðu til þess að menn fái að svara fsp. sem fram eru bornar.

Hv. 11. þm. Reykv. gerði tvær athugasemdir við mína embættisfærslu. Í fyrsta lagi ráðningu Óskars Hallgrímssonar sem deildarstjóra í félmrn. Sú ráðning byggist á lögum nr. 13 frá síðasta ári, svonefndum Ólafslögum. Þar er gert ráð fyrir sérstakri vinnumáladeild í félmrn. Nú er það svo, að þegar um er að ræða ráðningu á deildarstjórum í rn. þarf ráðh. ekki að spyrja einn eða neinn eða leita umsagnar um eitt eða neitt. Auðvitað gerir maður það samt, og enginn af þeim, sem ég talaði við, var í nokkrum minnsta vafa um að Óskar Hallgrímsson væri best til þess fallinn af þeim sem um þetta embætti sóttu (Gripið fram í: Var það fyrrv. alþýðubankastjóri?) Fyrrv. alþýðubankastjóri, já. Það er von að þið hlæið. Ég veit ekki betur en hann hafi verið sýknaður og hreinsaður af öllum þeim áburði sem á hann hefur verið borinn, og hingað til hélt ég að menn væru saklausir þegar dómarar væru búnir að fella yfir þeim sýknudóm. Ég fékk heimild hinnar svokölluðu bremsunefndar til þessarar ráðningar — hinnar fyrri nefndar, ekki þeirrar sem nú situr, heldur hinnar fyrri — og var hann ráðinn í þessa stöðu og hefði mátt vera fyrr.

Varðandi hitt embættið, skrifstofustjóra Tryggingastofnunar ríkisins, standa málin þannig, að stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs hefur lengi óskað eftir því — stjórn sjóðsins, ekki ég og ekki rn. — að fá að hafa starfsmann út af fyrir sig, en ekki eins og verið hefur, að starfið sé hluti af starfi skrifstofustjóra Tryggingastofnunar ríkisins. Nú hefur skrifstofustjórinn sótt um að vera leystur undan því starfi og taka við starfi fyrir Atvinnuleysistryggingasjóð og sinna því starfi alhliða og eingöngu, og hefur það verið samþ. af stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs. Það, sem hefur gerst síðan, er að þetta starf, sem nú er laust hjá Tryggingastofnun ríkisins, hefur verið auglýst laust til umsóknar. Það er allt og sumt. Um hitt hvort ég verð ráðh. eða hver verður félmrh. þegar það verður veitt, hverjir um það sækja og hver fær þetta starf, get ég engu svarað á þessari stundu.

Varðandi aðra spurningu, sem kom fram, vil ég segja það, að á meðan ég gegni ráðherraembætti mun ég ráða í þær stöður sem nauðsynlegt er að ráða í, aðrar ekki.

Mig langar svo að lokum til þess að beina fsp. til hv. 11. þm. Reykv. Á síðasta vori voru samþ. lög um aðstoð við þroskahefta og áttu lögin að taka gildi um síðustu áramót. Lögin gera ráð fyrir því, að deildarstjóri í félmrn. sjái um þau umfangsmiklu störf sem lögin gera ráð fyrir að þar séu unnin. Eftir langa bið hefur hin svokallaða bremsunefnd — sú sem nú situr - og einmitt nú í dag heimilað rn. að ráða í þessa stöðu. Eins og ég sagði áðan, er ráðh. ekki bundinn af því, þegar um er að ræða ráðningu deildarstjóra í rn., að leita umsagnar. Eigi að síður hef ég gert það um þá 15 aðila sem sóttu um þessa stöðu.

Það sýnist sitt hverjum, en mjög margir hafa mælt eindregið með Margréti Margeirsdóttur félagsráðgjafa. Það liggur mjög mikið á að allra mati — a.m.k. mati allra þeirra sem nálægt þessum málum koma — að ráða í þessa stöðu, og ég hafði hugsað mér að gera það strax í dag. En nú er þessi fundur orðinn það langur, að ég verð líklega að bíða með það þar til í fyrramálið. En nú vil ég spyrja hv. 11. þm. Reykv.: Telur hann að ég hafi heimild til þessarar ráðningar? Eða telur hann að ég hafi ekki heimild til hennar? Ég vona að Margrét verði af engum vænd um það að vera flokksgæðingur Alþfl.