14.01.1980
Efri deild: 17. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 266 í B-deild Alþingistíðinda. (361)

17. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Þegar þetta mál kom til 1. umr. í fyrsta sinn hér í hv. d. flutti hæstv. félmrh. ítarlega tveggja klukkustunda framsöguræðu sem mætti margt um segja. Meginhluti þeirrar ræðu kemur fram í grg. þessa frv. og útskýringum við það og mundu umr. um þetta frv. lengi standa hér í hv. d., ef aðrir þm. hefðu sama hátt á. Ég ætla hins vegar að reyna að takmarka mál mitt aðallega við annars vegar gagnrýni á það frv., sem hér liggur fyrir, vegna þess að því fer víðs fjarri að frv. sé jafnstórbrotinn áfangi í húsnæðismálum og hæstv. ráðh. vildi vera láta í framsöguræðu sinni. Frv. hefur á sér ýmsa mjög alvarlega og veigamikla galla, sem sumir eru þess eðlis að þeir fela í sér stór spor aftur á bak í skipan húsnæðismála í þessu landi. Hinn meginþátturinn í ræðu minni verður að gera grein fyrir ýmsum veigamiklum stefnumálum í húsnæðismálum, sem Alþb. setur fram. Þótt margt mætti því segja um þetta frv. mun ég reyna að ljúka máli mínu á viðunandi tíma, þannig að öðrum dm. gefist í dag tækifæri til þess að tjá sig einnig um þetta frv. Ég tel hins vegar að frv. þurfi mjög rækilegrar umfjöllunar í n., þannig að bæði þeir veigamiklu vankantar, sem á því eru, og þau fjölmörgu atriði, sem í það vantar, verði tekin til rækilegrar og nákvæmrar meðhöndlunar af þeirri n. þessarar hv. d. sem fær frv. til meðferðar.

Ég verð að segja það strax í upphafi, að mér finnst vinnubrögð hv. rn. varðandi meðferð þessa máls ekki í alla staði viðkunnanleg né í samræmi við þær þingræðisvenjur sem hér hafa verið viðhafðar. Mér er kunnugt um að félmrn. hefur, eftir að frv. var lagt fram á Alþ., sent það til umsagnar hagsmunasamtökum og stofnunum úti í bæ. Hingað til hefur verið venja, að það séu nefndir þingsins sem annist slíka meðferð mála eftir að mál hafa verið lögð fram í þinginu, en rn. séu ekki á þann hátt að taka fram fyrir hendur nefnda þingsins og taka að sér þau samskipti við hagsmunasamtök og stofnanir utan þings sem hingað til hefur verið talið eðlilegt að nefndir þingsins hefðu með höndum. Ég tel að það sé mjög varhugaverð braut, sem þarna er farið inn á af félmrn., að það sé að svipta nefndir þingsins þessu starfi og þeim rétti, sem þær hafa hingað til haft, að annast samskipti þingsins við hagsmunasamtök og stofnanir utan þings eftir að mál hafa komið hér til meðferðar.

Út af fyrir sig getur rn. sjálfsagt haft það sér til afsökunar, að það beri að flýta meðferð málsins. En bæði finnst mér þarna vera brotið gegn þeim grundvallarreglum, sem hafa ríkt í samskiptum löggjafarvalds og framkvæmdavalds, og feli það í sér mjög varhugaverða stefnu, ef fleiri rn. færu inn á þessa braut í öðrum málaflokkum, og enn fremur sé verið að skapa þarna óeðlilegan þrýsting á afgreiðslu málsins, — þrýsting sem gæti haft það í för með sér, að málið væri afgreitt hér án þess að það fengi þá gagnrýnu og ítarlegu málsmeðferð sem nauðsynleg er. Og þótt það kunni að vera markmið í sjálfu sér að hraða störfum, þá má ekki hraða þeim svo að vitleysurnar séu lögleiddar eingöngu hraðans vegna eða það sé verið að svipta samtök launafólks í landinu veigamiklum réttindum, sem þau hafa haft, eingöngu í nafni hraðans.

Þetta frv. felur í sér mjög veigamikla réttindasviptingu hjá samtökum launafólks í þessu landi. Mér fannst það ekki vera heiðarleg grg. fyrir þessu frv., að hæstv. ráðh. skyldi ekki fjalla ítarlegar um það en hann gerði, hvers vegna samtök launafólks séu í frv. svipt þeim veigamiklu réttindum sem frv. felur í sér að þau eru svipt, einkum og sér í lagi þegar það er haft í huga, að þetta frv. er lagt fram af ríkisstj. Við höfum sumir átt bágt með að trúa því eftir stóru orðin, sem höfð hafa verið í þeim flokki um réttindi launafólks í landinu og nauðsyn þess að efla þau, að þegar Alþfl. situr einn í ríkisstj. og getur lagt hér fram í nafni síns flokks og ríkisstj. frv. um húsnæðismál, þá skuli það frv. fela í sér veigamestu réttindasviptingu launafólks í þessum málum sem við höfum séð í langan tíma. Ég vil þess vegna strax í upphafi — vegna þeirra tilmæla sem hæstv. ráðh. bar fram við deildarþm., að hann vænti samstöðu um þetta frv. — lýsa því strax yfir, að sú samstaða skapast ekki nema ýmsir veigamiklir gallar á þessu frv. séu leiðréttir og samtök launafólks í landinu fái þau réttindi, sem þeim ber varðandi húsnæðismál, og frv. sé breytt í þá veru, að það skapi raunverulegan grundvöll fyrir víðtækar framfarir í þessum málaflokki.

T.d. er það allveruleg blekking, þegar raunveruleikinn er skoðaður, að þetta frv. feli í sér möguleika á stórátaki í byggingu félagslegs húsnæðis. Ef ákvæði frv. eru skoðuð í samhengi við fjárhagsstöðu sveitarfélaga, þá er alveg ljóst að frv. breytir nánast engu í þeim efnum eitt út af fyrir sig, þannig að það er mikil fölsun á inntaki frv. að halda því fram, að þetta frv. feli í sér einhverjar stórfelldar breytingar á sviði félagslegra húsnæðisbygginga.

Eins og ég sagði í upphafi, mætti hafa um þetta langt mál, enda talaði sjálfur hæstv. ráðh. hér í tvo tíma. En ég mun reyna að takmarka mál mitt annars vegar við þá meginágalla, sem ég tel vera á frv., og hins vegar nokkur meginatriði í framtíðarhúsnæðisstefnu sem Alþb. telur að löggjafarstarfsemi á þessu sviði þurfi að taka fyrst og fremst mið af. Ég vil þó áður geta þess nokkrum orðum og taka undir með hæstv. ráðh. um það, að við erum hér að fást við málaflokk sem hefur mjög víðtæk áhrif á okkur þjóðfélagsgerð, á lífskjör fólksins í landinu og þann jöfnuð sem við margir hverjir viljum leitast við að skapa í þessu landi, er mikilsvert tæki í baráttunni gegn meginefnahagsvanda okkar, verðbólgunni. Og það er ósköp eðlilegt að þingið taki sér góðan tíma til þess að skoða gaumgæfilega frv. sem hefur jafnvíðtæk áhrif á lífskjör almennings í landinu, framtíðarþjóðfélagsgerð íslensku þjóðarinnar, og er enn fremur veigamikill þáttur í baráttunni gegn verðbólgunni.

Í því sambandi er rétt að minna á það, eins og gert er í grg. þessa frv., að fyrir nokkuð mörgum árum gerði verkalýðshreyfingin samkomulag við ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar, sem sat hér 1971–1974, þáv. vinstri stjórn, um aðgerðir í húsnæðismálum. Þetta var á síðustu mánuðum valdaferils þeirrar ríkisstj. Það samkomulag sýnir hve ríka áherslu verkalýðshreyfingin hefur lagt á umbætur í húsnæðismálum sem veigamikinn þátt í kjarabaráttu verkalýðsstéttarinnar og baráttu hennar fyrir breyttu og betra þjóðfélagi. Hins vegar er nauðsynlegt að það komi hér einnig fram, að á öllum samfelldum valdaferli ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar — eða í fjögur ár — var ekki staðið við þetta samkomulag, þrátt fyrir það að þessi yfirlýsing væri ítrekuð og samþykki við hana ítrekað af þáv. ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar. Það sýnir í raun og veru hve mikilvægt mál er hér á ferðinni, að verkalýðshreyfingin skyldi í fjögur ár þurfa að standa í víðtækum átökum og þrýstingi gagnvart ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar til þess að reyna að koma þessum málum fram. Það var ekki fyrr en ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar, síðasta vinstri stjórn, settist að völdum, sem veruleg hreyfing komst á þetta mál. Og það verður að átelja hér og getur ekki legið í þagnargildi, að með svikum sínum við þetta samkomulag við verkalýðshreyfinguna kom ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar í veg fyrir að hér yrðu gerðar nægilega snemma víðtækar úrbætur í húsnæðismálum. Það er hins vegar saga sem mér finnst ekki ástæða til að gera að miklu umræðuefni hér, en það verður eflaust um langan tíma talinn veigamikill þáttur í dómi launafólks um ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar, hve illa hún stóð við það samkomulag sem gert hafði verið við verkalýðshreyfinguna um aðgerðir í húsnæðismálum.

Þegar frv. um víðtækar breytingar á húsnæðislánakerfinu er nú loks lagt fram, þá er rétt að vekja athygli á því, eins og hæstv. ráðh. gerði, að þar eru mörg ákvæði, sem standa til bóta, og þar er gerð tilraun, umfangsmesta tilraun til þessa, til að koma framtíðarskipan á fjármagnsþörf til húsnæðisbygginga. En þótt lýst sé yfir stuðningi við þá meginstefnu sem þar kemur fram, þá breytir það ekki því, að í þeirri útfærslu, sem hún fær í þessu frv., er hún í veigamiklum atriðum gölluð. Hins vegar væri ekki jafnmikil þörf á því að vekja rækilega athygli á þeim göllum, ef ekki hefði komið til mjög einhliða lof og víðtækur áróður hæstv. ráðh. og flokksbræðra hans fyrir nánast alhliða ágæti þessa frv., þannig að launafólki í þessu landi hefur verið gefið til kynna, bæði í framsöguræðu hæstv. ráðh. hér og eins í túlkun hans á þessu frv. í fjölmiðlum og annars staðar, að hér séu á ferðinni veigamikil tímamót fyrir hagsmuni launafólks í húsnæðismálum sem feli í raun og veru í sér eina allsherjarlausn á öllum þeim helstu vandamálum sem sett hafa svip sinn á þetta málefnasvið á undanförnum árum. Svo er því miður alls ekki.

Ég mun þá víkja máli mínu að tíu veigamiklum gagnrýnisatriðum, ágöllum sem ég tel að setji svip sinn á þetta frv. í þeim búningi sem það birtist hér.

Fyrsta atriðið í þessari gagnrýnisskrá, þeirri gallaskrá sem ég vil kalla svo, sem þetta frv. ber með sér, er að lánakjör munu á næstu árum versna að mun frá því sem nú er. Það er að vísu rétt, að slíkt kann að vera gert til þess að ná upp ávinningi í framtíðinni. En ég held að sú breyting, sem þarna er gerð til þess að gera lánskjör mun verri, bæði stytta lánstímann til muna og hækka vexti, geri það að verkum að lánskjör í húsnæðismálum muni verða allmiklu verri fyrir allan þorra lántakenda á næstu árum. Við erum þeirrar skoðunar, að það hefði átt að fara aðra leið í fjármögnunarvanda húsnæðismálanna heldur en að gera lánskjörin á allra næstu árum mun verri en þau hafa verið með þeim ákvæðum sem þetta frv. felur í sér, þannig að fyrsta atriðið í þessari gallaskrá eða gagnrýnisskrá á þetta frv. er að lánskjörin eru gerð mun verri.

Annað atriðið er það, að afleiðingin af ákvæðum frv. og fjárhagsstöðu sveitarfélaga á okkar tímum er sú, að þrátt fyrir að frv. yrði gert að lögum mundi verulega draga úr félagslegum íbúðarbyggingum. Vegna þess ákvæðis að skylda sveitarfélög til þess að leggja fram 20% af byggingarkostnaði íbúðanna er alveg ljóst, að sú upphæð er það há, að miðað við fjárhagserfiðleika sveitarfélaga er það algerlega borin von, að þau megni í nokkrum mæli að gera það stórátak í félagslegum íbúðabyggingum sem hæstv. ráðh. gaf til kynna. Þó að þetta frv. yrði gert að lögum, er það mitt mat, að það mundi litlu sem engu breyta varðandi sókn til aukinna félagslegra íbúðabygginga, einfaldlega vegna þess að það hefur verið þjarmað svo að fjárhagsstöðu sveitarfélaga á undanförnum árum að þau hafa ekkert bolmagn til að rísa undir því háa hlutfalli sem þeim er þarna gert að skyldu að standa undir áfram. Og þar sem hæstv. ráðh. fer einnig með málefni sveitarfélaga, hefðu verið hæg heimatökin í hans rn. að tengja saman aðgerðir varðandi fjárhagsvanda sveitarfélaga og þetta frv., til þess að niðurstaðan yrði á þann veg, að frv. og hliðarráðstafanir varðandi fjárhagsvanda sveitarfélaga leiddu í raun til þess, að hér yrði gert á næstu árum stórátak í byggingu félagsleg húsnæðis. Þvert á móti getur það orðið afleiðing þessa frv., að áfram dragi úr byggingu félagslegs húsnæðis. Í því sambandi má minna á að á árinu 1978 voru aðeins tvö sveitarfélög sem töldu sig hafa fjárhagslegt bolmagn til að hefja framkvæmdir við byggingu verkamannabústaða. Það er mikil blekking þess vegna, eins og ég sagði fyrr í minni ræðu, að túlka þetta frv. sem einhvern meiri háttar áfanga á þessum grundvelli. Meðan fjárhagur sveitarfélaga er jafnbágborinn og hann hefur verið er borin von að þau geti risið undir sínu framlagi, þannig að lögtaka þessa frv. mun ekki leiða til neinna stórra áfanga í byggingu félagslegs húsnæðis á næstu árum.

Þriðja atriðið í gagnrýni minni á þessu frv. er það, að frv. sjálft, reglugerð þess og sú grunnhugsun, sem kemur fram í undirbúningnum, felur í sér að áfram eru lagðar hindranir á lánveitingar til kaupa á eldra húsnæði og eðlilegrar endurnýjunar á þeim eldri húsakosti sem til er í landinu. Það er alveg ljóst, að byggingartími húsakosts landsmanna hefur verið með þeim hætti á undanförnum áratugum, að ef við ætlum að halda eðlilegri endurnýjun á þeim húsakosti og gefa nýjum fjölskyldum kost á því að eignast eldra húsnæði og ráða við eðlilega endurnýjun á því, þannig að þessi húsakostur endist landsmönnum lengur en 1–2 kynslóðir, þá þarf að stórauka lánveitingar til kaupa á eldra húsnæði og til endurnýjunar á eldra húsnæði. Það þarf að taka upp nýja fjölþætta lánaflokka, sem eru miðaðir við slík endurnýjunarlán og endurkaupalán á eldra húsnæði. Við undirbúning frv. var sett það mark, að vöxt lánveitinga til kaupa á eldra húsnæði skyldi miða við vöxt þjóðarframleiðslu. Slíkt er algerlega óeðlileg viðmiðun og nánast út í hött að mínum dómi, vegna þess að þjóðarframleiðsla getur farið niður og upp og hún er í raun og veru á engan hátt eðlileg stærð til þess að tengja lánveitingar til kaupa á eldra húsnæði við. Lánveitingar til kaupa á eldra húsnæði þurfa hins vegar að miðast fyrst og fremst við þann húsakost, sem í landinu er og hefur verið byggður upp með ærnum tilkostnaði á undanförnum 4–5 áratugum, og nauðsyn þess að gefa nýjum fjölskyldum kost á því að ganga inn í húsnæði af því tagi. Þess vegna er það ein af þeim breytingum, sem við teljum nauðsynlegt að gera á þessu frv., að rýmka mjög ákvæðin um lánveitingar til kaupa á eldra húsnæði og endurnýjun þess.

Fjórða gagnrýnisatriðið við þetta frv. felur í sér að ítök og áhrif verkalýðshreyfingarinnar á meðferð húsnæðismála eru skert til muna. Þau eru skert á þann hátt, að aðild verkalýðsfélaganna að stjórn þessara mála er afnumin. Hún er einfaldlega afnumin. Og verkalýðshreyfingin, sem hefur verið frumkvöðull að endurnýjun þessa málaflokks og hefur lagt og er ætlast til að haldi áfram að leggja verulegt fjármagn til þessara mála, er sett til hliðar. Henni er veitt að vísu minni háttar aðstaða til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, en raunveruleg valda- og áhrifastaða hennar, sem hefur verið í lögum til þessa, er afnumin. Og mér er kunnugt um það, að af hálfu heildarsamtaka verkalýðshreyfingarinnar verður þetta ekki þolað. Það verður ekki þolað, að bein aðild þeirrar fjöldahreyfingar, sem gerðist helsti frumkvöðullinn að nýrri stefnu í húsnæðismálum með því samkomulagi sem hún gerði fyrst við ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar 1974 og endurnýjað var við ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar, þeirrar hreyfingar sem hefur lagt til verulegan hluta þess fjármagns sem inn í þetta kerfi hefur gengið, að bein aðild hennar að stjórn þessara mála sé einfaldlega þurrkuð út. Ég á satt að segja mjög bágt með að skilja hvers vegna hæstv. félmrh. Alþfl. leggur slíkar till. hér fyrir, þótt í nefndinni, sem skipuð var á vegum flokka síðustu ríkisstj., hafi orðið vegna afstöðu fulltrúa Framsfl. að gera málamiðlun af þessu tagi innan nefndarinnar. Og ég get lýst því strax yfir, að við fulltrúar Alþb. munum beita okkur fyrir því, að verkalýðshreyfingin fái aftur í þessum lögum þá stjórnunaraðild að byggingu verkamannabústaða sem henni ber, og við væntum samstarfs við fulltrúa a.m.k. flokks hæstv. félmrh. við að gera þær breytingar á frv.

Fimmta gagnrýnisatriðið er fólgið í því, að stjórnunarbákn húsnæðismála er stóraukið í þessu frv. og algerlega að nauðsynjalausu. Þær breytingar, sem hér eru gerðar, minna óneitanlega nokkuð á það, að hæstv. ráðh. hafi þótt nauðsyn að fjölga jötunum fyrir flokksbræður sína, ef svo má orða, í stjórnkerfi húsnæðismála og hlaða þar hverri silkihúfu Alþfl. upp af annarri í þessu kerfi. Á sama tíma og talið er nauðsynlegt að nema burt stjórnunaraðild verkalýðshreyfingarinnar að húsnæðismálum þessa lands, þá er talið nauðsynlegt að auka embættismannabáknið á þessu sviði og búa til nýjar toppstöður í þessu kerfi og margfalda þá stjórnunarábyrgð sem þarna á í lög að leiða. Ég er algerlega andvígur því, að verið sé að hlaða nýjum forstjóra- og framkvæmdastjórasilkihúfum inn í Húsnæðismálastofnunina að nauðsynjalausu. Það hafa engin veigamikil rök verið færð fram, hvorki í grg. frv. né í framsöguræðu hæstv. ráðh., fyrir því, að það þurfi að auka stjórnunarbáknið í húsnæðismálum að þessu leyti. Þess vegna vænti ég þess, að ýmsir þeir fulltrúar annarra flokka í þessari hv. d., sem hafa nú gerst ákafir talsmenn baráttu gegn bákninu og þeirrar nauðsynjar að skera niður ónauðsynlegan stjórnunarkostnað hins opinbera, taki nú höndum saman við okkur hina um að nema burt þessi ákvæði í frv., sem fela í sér að eingöngu er verið að hlaða nýjum hægindastólum inn í Húsnæðismálastofnun algerlega að nauðsynjalausu. (Gripið fram í: Eigum við ekki bara að gera þetta um leið?) Ja, hv. þm. er nú nýbúinn að segja af sér í einni opinberri stofnun, þannig að það getur vel verið að það þyrfti að fjölga stólum þar.

Sjötta atriðið, sem ég vildi vekja athygli á í þessari athugasemdaskrá minni við þetta frv. er að þrátt fyrir það að þetta frv. gengur nokkuð til móts við fyrri loforð, sem gefin voru verkalýðshreyfingunni um það markmið að félagslegar íbúðabyggingar yrðu þriðjungur af heildarbyggingum ár hvert, þá er það markmið sett óþarflega langt fram í tímann. Ég tel nauðsynlegt að frv. verði breytt á þann veg, að það markmið náist fyrr, það náist sem sagt í síðasta lagi á 2–3 árum, en ekki á þeim tíma sem gert er ráð fyrir í frv.

Sjöunda gagnrýnisatriði mitt er það, að þróun leiguíbúðahúsnæðis er skorinn allt of þröngur stakkur í þessu frv., ef við ætlum að auðvelda nýrri kynstóð ungs fólks að fá þak yfir höfuðið, — ung fólks sem margt hvert hefur annað viðhorf til íbúðarhúsnæðis en fyrri kynslóðir, þ.e. að það sé lífsnauðsynlegt fyrir hverja kynslóð að eiga eigið húsnæði. Margir þeir, sem eru ungir nú að árum og eru að stofna heimili, eru þeirrar skoðunar, að leiguhúsnæði, tímabundið húsnæði geti haft jafngóða kosti og að binda sér mikla bagga með því að gerast sjálfur eigandi að húsnæði. Í nágrannalöndum okkar, t.d. á Norðurlöndum, sem við viljum taka mið af í félagslegu tilliti á fjölmörgum sviðum, hefur þróun leiguhúsnæðis tekið allt aðra stefnu en hér á landi. Ég held að það sé nauðsynlegt að þessu frv. verði breytt á þann veg, að úrræði til að koma upp leiguíbúðum verði gerð miklu rýmri og stórfelldari en hér er gert ráð fyrir og að kostur verði á að byggja margar tegundir af leiguhúsnæði, sem henti ýmsum fjölskyldugerðum, og jafnvel verði opnaðir möguleikar í frv. á svokölluðum kaupleigusamningum, þar sem íbúar leiguhúsnæðis um langan tíma geti smátt og smátt með leigugreiðslum gerst eigendur húsnæðisins, ef þeir vilja. Menn þurfa þá ekki að gera það upp við sig strax í byrjun, hvort þeir ætli að leigja í viðkomandi húsnæði eða eignast það, m.ö.o. skapaðir aðlögunarmöguleikar fyrir einstaklinginn og fjölskyldurnar í þessum efnum, en frv. sé ekki jafnalfarið og það er nú úr garði gert miðað við það að knýja sem flesta til að eignast eigið húsnæði, heldur sé fjölmörgum fjölskyldum, sérstaklega yngra fólks sem hefur annað gildísmat gagnvart húsnæðiseign en fyrri kynslóðir, gefinn kostur á því að koma sér upp húsnæði fyrir fjölskyldu sína innan ramma víðtæks leiguíbúðakerfis, þar sem fleiri en ein tegund af leiguhúsnæði er í boði.

Áttunda atriðið tengist þessu nokkuð, felur í sér að frv. þurfi að búa yfir meiri sveigjanleika til þess að fleiri tegundir félagslegs húsnæðis nái að þróast en hér hafa tíðkast. Félagslega húsnæðið hefur hingað til verið, a.m.k. hér á aðalþéttbýlissvæðinu, aðallega í formi íbúða í fjölbýlishúsum. Það er hins vegar ljóst, að slíkar íbúðir henta ekki fjölskyldu á öllum ferli hennar. Það þarf þess vegna að koma upp fleiri tegundum af félagslegu húsnæði: raðhúsum, einbýlishúsum og einnig íbúðum fyrir aldraða, þannig að menn hafi möguleika til þess í ríkara mæli en gert er ráð fyrir í þessu frv. — þótt vissulega séu stigin viss skref í þá átt og því beri að fagna — bæði einstaklingar og fjölskyldur, að færa sig til innan mismunandi tegunda af félagslegu húsnæði, eins og hentar stærð fjölskyldunnar hverju sinni, eftir því hvar á æviferli sínum hún er stödd.

Níunda atriðið, sem ég vil nefna hér sem gagnrýnisvert í þessu frv., er að samkv. þessu frv. er dregið úr möguleikum á því að hraða útrýmingu heilsuspillandi íbúðarhúsnæðis. Þótt vissulega hafi verið unnið mikið að því á undanförnum áratugum hér á landi að útrýma heilsuspillandi húsnæði, þá er mikið verk óunnið í þeim efnum enn. Það er því ekki tímabært að draga svo mjög úr fyrirgreiðslu ríkisins við sveitarfélögin á þessu sviði eins og gert er í þessu frv. Ég tel þess vegna nauðsynlegt, ef á að vera hægt að halda áfram í jafnríkum mæli og gert hefur verið til þessa, að frv. verði breytt á þann veg að áfram skapist jafnmiklir möguleikar og verið hafa til þessa að vinna að útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis, bæði í þéttbýli og ekki síður í dreifbýlinu.

Tíunda atriðið í þessari skrá og það síðasta – og ég vil taka það fram, að ég hef eingöngu haldið mig við meginatriði í gagnrýni á frv. — tíunda atriðið er það, sem ráðh. vék aðeins að í framsöguræðu sinni, að í frv. skortir hámark á greiðslubyrði láglaunafólks. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt, miðað við þá kjara- og efnahagsþróun, sem hér hefur orðið á undanförnum árum, að í þetta frv. séu sett ákvæði um hámark þeirrar greiðslubyrðar láglaunafólks, sem til greina getur komið, þannig að tryggt sé að húsnæðislánakerfið leggi ekki láglaunafjölskyldum á herðar óeðlilegar greiðslubyrðar miðað við þær tekjusveiflur eða efnahagssveiflur sem geta orðið í okkar hagkerfi. Það sé nauðsynlegt að bæta inn í frv. nýjum ákvæðum sem tryggja að greiðslubyrði láglaunafólks vegna kostnaðar við húsnæði geti aldrei farið upp fyrir ákveðið mark.

Þessi atriði, sem ég hef hér nefnt, eru aðeins veigamestu gagnrýnisatriðin sem mér þykir nauðsynlegt strax við 1. umr. að vekja athygli á. Ég vil ítreka það, sem ég sagði áðan, að ef ekki hefðu verið haldnar einhliða lofræður um þetta frv., bæði innan þings og utan, þá hefði mátt vekja athygli á ýmsum þessum atriðum í meðferð n. á frv. En vegna þeirra umr., sem hæstv. ráðh. hefur beitt sér fyrir í tengslum við þetta frv. úti á hinum almenna vettvangi, held ég að sé nauðsynlegt strax við 1. umr. í þessari hv. d., að þm. sé gerð grein fyrir því, að það er víðs fjarri að hægt sé að skapa víðtæka samstöðu um þetta frv. í óbreyttri mynd. Frv. er það gallað í veigamiklum atriðum, að á því þarf að gera víðtækar breytingar svo að það rísi undir þeim stóru lýsingarorðum um þáttaskil í húsnæðismálum sem hæstv. ráðh. hefur látið sér um munn fara um þetta frv.

Þær athugasemdir, sem ég hef hér sett fram, mótast af þeirri meginstefnu eða nokkrum þeim atriðum í meginstefnu í húsnæðismálum sem við fulltrúar Alþb. teljum nauðsynlegt að menn hafi í huga þegar verið er að móta hér löggjöf í húsnæðismálum til frambúðar. Ég vil að lokum víkja að þessum grundvallaratriðum nokkrum orðum, svo að ljósara megi vera hver er sú grundvallarhugsun, hver er sú meginstefna, sem við viljum hér leggja til grundvallar, og hvernig við teljum að hana beri að framkvæma í einstökum atriðum.

Í raun og veru getum við sagt að það séu átta atriði, sem setja einkum svip sinn á þessi viðhorf. Það fyrsta þeirra er það, að nauðsynlegt sé að stefnan í húsnæðismálum miðist við að draga úr þeim félagslega mismun og þeim stéttamismun sem ríkt hefur í þessu landi, en stefnan í húsnæðismálum sé ekki, eins og stundum hefur borið við áður, notuð til þess, oftast nær óafvitandi, en stundum hins vegar með vilja, að auka og festa í sessi þann stéttamismun sem hefur ríkt í landinu, — þess vegna sé nauðsynlegt að stefnan í húsnæðismálum sé svo sveigjanleg að hún skapi margvíslega möguleika til að draga úr þeim félagslega mismun í tegundum húsnæðis, eignarhaldi og hverfaskiptingu sem á undanförnum árum og áratugum hefur því miður aukið mjög á hina félagslegu stéttaskiptingu sem ríkt hefur í þessu landi.

Annað grundvallaratriðið er að innan húsnæðislánakerfisins verði skapaðir möguleikar til fjölbreytilegra lána, jafnt endurnýjunarlána vegna eldra húsnæðis og nýbyggingarlána.

Þriðja grundvallaratriðið er að einstaklingum og fjölskyldum sé auðveldað að flytjast á milli ólíkra tegunda íbúðarhúsnæðis, sem byggt hefur verið upp á félagslegum grundvelli, en menn séu ekki nauðbeygðir bókstaflega vegna löggjafarinnar í húsnæðismálum til þess að taka á sig þær margvíslegu byrðar, fórnir og óhagræði sem fylgir því fyrir fjölskyldurnar að standa í byggingu húsnæðis yfir sjálfa sig, oft á tíðum á því æviskeiði fjölskyldunnar þegar nauðsynlegt er að foreldrar sinni börnum sínum hvað mest eða samskiptaþörfin innan fjölskyldunnar er einna ríkust. Því miður hefur húsnæðislöggjöf okkar verið á þann veg, að hún hefur verið veigamikill þáttur í að brjóta upp það eðlilega fjölskyldulíf sem við teljum nauðsynlegt að allir eigi kost á að lifa hér í þessu landi. Löggjöfin í húsnæðismálum hefur verið byggð upp á þann veg, að á einhverju viðkvæmasta skeiði í lífi fjölskyldnanna, þegar nauðsynlegt er að foreldrar séu með börnum sínum og taki virkan þátt í uppeldi þeirra, hefur löggjafinn knúið foreldrana til þess að halda út á vinnumarkaðinn eða leggja á sig margvíslegar aðrar fórnir til þess að geta eignast eigið húsnæði. Og það er ekki viðunandi til frambúðar, að húsnæðiskerfið í landinu knýi fólk til þess að taka á sig þessar byrðar á mjög viðkvæmum tíma í æviferli fjölskyldnanna.

Fjórða grundvallaratriðið er að sveitarfélögunum sé tryggður aðgangur að fjármagni til að auka dagvistrými, húsnæði fyrir þroskahefta og öryrkja og til að byggja húsnæði fyrir aldraða, svo að skortur á slíku dvalar- og þjónustuhúsnæði komi ekki í veg fyrir íbúaendurnýjun, t.d. í ýmsum eldri hverfum, sem hér hefur fjölgað mjög á síðustu áratugum. Það er að vísu rétt, að í frv. eru heimildarákvæði í kjölfar lagabreytinga sem voru gerðar hér á síðasta þingi, sem stuðla að möguleikum á þessu sviði, en það þarf að kveða miklu skýrar og nákvæmar á um þessi réttindi í frv. til þess að tryggt sé að bæði dagvistarrými og húsnæði fyrir aldraða tengist öðrum aðgerðum í húsnæðismálum í landinu.

Fimmta grundvallaratriðið, sem við viljum leggja höfuðáherslu á og skortir allnokkuð á að sé sinnt í þessu frv., einkum og sér í lagi ef frv. á að koma algerlega í staðinn fyrir núgildandi löggjöf í húsnæðismálum, er það, að ítarlega sé fjallað um aukna hlutdeild félagslegra framkvæmdaaðila í húsnæðismálum, þannig að þeim byggingarsamvinnufélögum, sveitarfélögum og öðrum félagslegum samtökum, sem hafa á undanförnum árum unnið stórvirki í endurbótum í húsnæðismálum landsmanna sé skapaður eðlilegur — ég vil segja: forgangsréttur í húsnæðismálakerfi þessa lands.

Sjötta atriðið tengist kannske einkum og sér í tangi Reykjavíkursvæðinu eða höfuðborgarsvæðinu og felur í sér að auðvelda þá þéttingu byggðar sem óhjákvæmilegt er að eigi sér stað í einhverjum mæli, þótt sjálfsagt megi deilda um einstakar lóðir og einstaka borgarhluta í því sambandi. Eins og menn muna frá síðustu mánuðum, er væntanlega víðtæk samstaða um það, að með tilliti til nýrra viðhorfa í orkumálum og þeirrar veigamiklu grunnfjárfestingar, sem hér hefur þegar átt sér stað í gatnakerfi, holræsakerfi og öðrum undirstöðuþáttum borgarlífs, sé mjög mikilvægt að húsnæðislánalöggjöfin auðveldi þá eðlilegu þéttingu byggðar sem hér verður að eiga sér stað.

Sjöunda atriðið, sem við teljum einnig að þurfi að hafa hliðsjón af, er að með húsnæðislánakerfinu sé stuðlað að eðlilegum framkvæmdaáætlunum í húsnæðismálum sem skapi grundvöll fyrir stöðuga og fjölbreytta atvinnu, en umfram allt jafna atvinnu í byggingariðnaðinum í landinu. Ég held að það sé mjög óeðlilegur þáttur í okkar efnahagslífi og hafi skapað margvíslega erfiðleika, bæði í kjaramálum og efnahagsmálum, að á sviði byggingariðnaðarins hafa átt sér stað stórar og miklar sveiflur, og þess vegna sé nauðsynlegt að húsnæðislánakerfið sé við það miðað að skapa grundvöll fyrir jafna atvinnu á þessu sviði ár frá ári og skapa félagslegum framkvæmdaaðilum og sveitarfélögum möguleika til að vinna að langtímaáætlunum á þessu sviði. Þessi þáttur tengist sérstaklega þeirri áherslu sem ég lagði áðan á að frv. gengi alls ekki nægilega langt í þá átt að skapa grundvöll fyrir víðtækar lánveitingar til kaupa á eldra húsnæði og eðlilegrar endurnýjunarstarfsemi á eldra húsnæði, og mun ég koma nánar að því hér rétt á eftir.

Áttunda og síðasta atriðið er það, að samtökum launafólks sé tryggður réttur, beinn stjórnunarréttur á því sviði húsnæðismála sem sérstaklega er tengt félagslegum íbúðabyggingum, og þar tel ég að raunhæfast sé að virkja bæði til stjórnunar og fjárhagslegrar ábyrgðar annars vegar sveitarfélögin og hins vegar samtök launafólks. Ég tel lýðræðislegast og eðlilegast að þetta séu helstu áhrifaaðilar á þessu sviði, því að það hefur í senn í för með sér, að þeir aðilar, sem bera beinasta ábyrgð gagnvart launafólki og íbúum sveitarfélaganna, eru þar kallaðir til beinnar ábyrgðar, og gefur einnig möguleika til nauðsynlegs sveigjanleika eftir mismunandi aðstæðum í einstökum sveitarfélögum. Ég held þess vegna að það þurfi að breyta þessu frv. í þá átt að veita verkalýðshreyfingunni og sveitarfélögunum raunverulegan áhrifarétt um þróun félagslegs íbúðarhúsnæðis.

Ég vék að því áðan, að þetta frv. gengi hvergi nærri nægilega langt í þá átt að tryggja nauðsynlega aukningu lánveitinga til kaupa á eldra húsnæði. Eins og ég sagði er það þáttur sem mjög nauðsynlegt er að við tökum til meðferðar, þegar við erum að marka stefnu í húsnæðismálum tvo síðustu áratugi þessarar aldar. Miðað við flestar aðrar borgir hefur Reykjavík byggst upp á mjög skömmum tíma og fram til þessa hefur hlutur svokallaðra gamalla húsa í Reykjavík verið fremur lítill samanborið við ýmsar aðrar borgir. En það er alveg ljóst, að á þessum áratug og þeim næsta hlýtur hann að stórvaxa. Ekki hafa verið gerðar neinar skipulegar rannsóknir á endurnýjun húsa hér á landi. En með vissri varkárni mætti þó t.d. styðjast við athuganir sem hafa verið gerðar í öðrum löndum, t.d. í Noregi. Þessar athuganir sýna að á 40–50 ára fresti þarf að endurnýja eða endurbæta venjuleg íbúðarhús að verulegu leyti jafnvel þótt viðkomandi húsi hafi verið haldið við á venjulegan hátt. Og að jafnaði má reikna með að kostnaður við slíka endurnýjun verði nálægt 50% af byggingarkostnaði nýs húss af sömu gerð. Með hliðsjón af slíkum rannsóknum er hægt að kalla þau hús, sem náð hafa 40 ára aldri, gömul hús, og það er ljóst, að hlutur slíkra húsa af heildarhúsakosti Reykvíkinga fer sívaxandi og í þessum húsakosti liggur þar að auki mjög drjúgur hluti af heildarfjárfestingu landsmanna á undanförnum áratugum. Það er þess vegna mjög mikilvægt, ekki bara fyrir einstaklingana sjálfa, heldur fyrir þjóðarbúið í heild, að þessari dýrmætu fjárfestingu sé haldið við á eðlilegan hátt.

Lánveitingar á þessu sviði þurfa þess vegna bæði að taka mið af því, að veitt séu lán til þess að endurnýja húsgrindina með reglubundnu millibili, en með því er átt við undirstöðu hússins, útveggi, burðarvirki, gólf, þak og annað slíkt, sem að kostnaði nemur um það bil helmingi af byggingarverði hússins, en þar að auki og oftar þarf að veita lán til að endurnýja aðra hluta hússins sem meira mæðir á og endast mun skemur, eins og þakklæðningu, veggklæðningu, lagnir, innréttingar o.s.frv. Ég tel þess vegna að þeir, sem unnið hafa að undirbúningi þessa frv. — og félmrn. með því að leggja þetta frv. hér fram, hafi ekki tekið nægilegt tillit til sívaxandi hlutfalls eldri húsa í húsakosti landsmanna og þeirrar staðreyndar, að framtíðarlánastefna í húsnæðismálum þarf að taka mið af þessu sívaxandi hlutfalli eldra húsnæðis í heildarhúsnæðislánakerfinu, ef húsnæðislánakerfið á ekki bara að vera miðað við nýbyggingar, heldur miðað við það að auðvelda einstaklingum og fjölskyldum að velja um að búa í eldra húsnæði eða nýbyggingum.

Ég vil í þessu sambandi setja fram nokkrar hugmyndir um það, hvernig byggja mætti upp þrenns konar lánaflokka til endurnýjunar eldra húsnæðis. Þar væru í fyrsta lagi framkvæmdalán til sveitarfélaganna til þess að standa straum af skipulagðri endurnýjun á hverju hverfinu á eftir öðru í samræmi við sérstakt endurnýjunar- og varðveisluskipulag sem gert væri í sérhverju bæjarfélagi. Sveitarfélögin gætu t.d. stofnað sérstakan lánasjóð í þessu skyni sem semdi við verktakafyrirtæki — en þau gætu t.d. verið samvinnufélög iðnaðarmanna sem sérhæfðu sig í endurnýjun eldra húsnæðis — og gerði meiri háttar verksamning við þau um slíka skiplagða endurnýjun á hellum íbúðahverfum, húsráðendur yrðu síðan formlegir lántakendur í samræmi við óskir þeirra um að hagnýta sér endurnýjunarframkvæmdir í viðkomandi hverfum, en aðeins sveitarfélags- og verktakasamningur af þess hálfu tryggði að fjármagnið færi í raunverulega endurnýjun á húsakosti landsmanna.

Önnur tegund lána gæti verið endurnýjunarlán til einstaklinga sem vildu annast eða skipuleggja endurnýjunina sjálfir, og þau lán yrðu veitt eftir að framkvæmdum væri lokið, t.d. í samræmi við vottorð byggingarfulltrúa í viðkomandi sveitarfélagi.

Í þriðja lánaflokknum yrðu síðan lán til kaupa á eldra húsnæði í svipuðu formi og nú gerist, en slík lán þyrftu hins vegar að verða mjög aukið hlutfall, eins og ég hef þegar tekið fram í ræðu minni, af lánveitingum til húsnæðismála á næstu árum. Verulegur þáttur í slíkri breyttri lánastefnu varðandi endurnýjunarlán væri að gera sveitarfélögin að virkum skipulags-, og eftirlits- og framkvæmdaaðilum í endurnýjunaráætluninni og stuðla þannig að beinna sambandi milli stjórnenda sveitarfélaga og íbúanna varðandi viðhald og endurnýjun húsakostsins í viðkomandi byggðarlögum. Þess vegna gæti hér farið saman annars vegar lánveitingar, sem stuðluðu að því að tryggja til langframa varðveislu þeirrar miklu fjárfestingar sem landsmenn hafa á undanförnum áratugum lagt í húsakost sinn, og hins vegar nýr og veigamikill samskiptaþáttur stjórnenda sveitarfélaganna og íbúanna sem þar búa. Sjálfsagt koma til greina ýmsar aðrar leiðir í þessu efni, en ég held að nauðsynlegt sé að sú n., sem fær þetta frv. til meðferðar, fjalli ítarlega um það, hvort og á hvern hátt sé hægt að tryggja betur lánveitingar til endurnýjunar á eldra húsnæði og kaupa á því.

Ég hef einnig í þessari ræðu vikið nokkuð að nauðsyn þess að auka fjölbreytni í gerð leiguhúsnæðis á næstu árum í samræmi við breytt gildismat nýrrar kynslóðar og þau félagslegu réttindi að menn geti tryggt sér húsnæði án þess að vera nauðbeygðir til þess að gang undir það ok sem sumir telja vera samfara því að byggja sjálfir yfir sig. Í því sambandi má nefna ýmsar leiðir. Ég vil varðandi slíkar leiguíbúðir vekja athygli á fimm leiðum, sem mundu fela í sér að breyta þó nokkuð þeirri skipan sem verið hefur á byggingu leiguíbúða hér á undanförnum árum, en þó kannske umfram allt hafa í för með sér breytt viðhorf einstaklinga í þessu þjóðfélagi gagnvart leiguhúsnæði. Við vitum að leiguhúsnæði, t.d. byggt á vegum sveitarfélaga, hefur hjá fjölmörgum haft á sér neikvæðan blæ — óeðlilega neikvæðan blæ. Sumir hafa jafnvel talið það niðurlægjandi að búa í slíku húsnæði, enda hefur bygging þess oft og tíðum verið með þeim hætti, að tekjulægra fólki hefur verið raðað saman í ákveðin og afmörkuð hverfi. Þannig hefur stéttamunurinn í landinu jafnvel verið magnaður upp með aðgerðum í húsnæðismálum. Ég tel mjög nauðsynlegt að breyta þarna um til þess að gera leiguhúsnæði ekki jafnneikvæðan þátt í húsakosti landsmanna og verið hefur til þessa. Í því sambandi má nefna t.d. fimm leiðir. Í fyrsta lagi, að sveitarfélög geti byggt leiguíbúðir, eina eða fleiri, í húsnæði sem að öðru leyti er í einkaeign, en horfið verði frá því að halda sér alfarið við það, sem gert hefur verið til þessa, að byggja sérstök leigjendahús. Í öðru lagi, að leiguhúsnæði verði ekki eingöngu litlar eða ódýrar blokkaríbúðir, heldur verði einnig gefinn kostur á fleiri tegundum, svo sem tvíbýlis og þríbýlishúsum, raðhúsum og íbúðum í minni blokkum. Í þriðja lagi, að leiguíbúðir verði ekki aðeins ætlaðar láglaunafólki, heldur verði öðrum tekjuhópum einnig gefinn kostur á því að ganga inn í slíkt leiguíbúðakerfi til þess að komast hjá því að eyrnamerkja leiguhúsnæði jafnafgerandi og gert hefur verið í ákveðnum tekjuskiptingar- og stéttaskiptingarhlutföllum í þessu landi. Í fjórða lagi, að komið verði á fót kaupleigusamningum sem skapi möguleika á því, að langvarandi leiga veiti jafnt og þétt aukana eignarhlutdeild í viðkomandi húsnæði, þannig að leigjendur geti með góðri umgengni og langvarandi leigu á húsnæði skapað sér möguleika til að eignast það í rás tímans. Og í síðasta lagi, að lán til kaupa á eldri íbúðum verði einnig veitt sveitarfélögunum í því skyni að fjölga tegundum leiguhúsnæðis, að sveitarfélögin hafi möguleika til þess að nota lán til kaupa á eldra húsnæði til þess að auka fjölbreytni þess leiguhúsnæðis sem til er á vegum þeirra.

Þetta eru aðeins nokkur af þeim atriðum sem nefna má í þessu sambandi, og eins og ég sagði síðan er ekki ætlun mín að taka hér meiri tíma — og hef nú kannske þegar tekið stærri hluta af þessum umræðutíma en ég ætlaði mér — vegna þess að ég held að það sé nauðsynlegt að við þessa umr. komi fram fleiri raddir en frá mér um það mál sem hér liggur fyrir. Ég vil þó geta þess til viðbótar og leggja á það sérstaka áherslu, á móti því sem áður hefur verið sagt, að með frv. þarf einnig að skapa grundvöll fyrir aukinni og fjölbreyttari hlutdeild félagslegra byggingaraðila á sviði húsnæðismála, bæði með því að stuðla að myndun framleiðslusamvinnufélaga iðnaðarmanna í byggingariðnaði og veita byggingarsamvinnufélögum forgang að framkvæmdum og lánveitingum, ef þau geta sýnt fram á að það hafi í för með sér verulega lækkun byggingarkostnaðar. Enn fremur finnst mér koma til álita að með frv. verði sveitarfélögum auðveldað að gerast beinn aðili að slíkum verktakafyrirtækjum til þess að tryggja eftirlit og ítök sveitarfélagsins í húsnæðismálum íbúanna á hverjum stað.

Þessi atriði hafa vonandi varpað nokkru ljósi á það, að þótt þetta frv. fell í sér í ýmis jákvæð spor í átt að framtíðaruppbyggingu húsnæðislánakerfisins í landinu, þá er víðs fjarri að frv. marki þau afgerandi tímamót eða hafi í för með sér þær alhliða endurbætur sem hæstv. félmrh. lét að liggja í sinni framsöguræðu. Alþb. er eindregið þeirrar skoðunar, að í meðferð þingsins þurfi að reyna á það til fullnustu, hvort samstaða næst um að breyta frv. á þann veg, að það verði enn stærra og enn veigameira spor í þá átt að breyta um húsnæðislánakerfi í landinu og að sú breyting á húsnæðislánakerfinu stuðli að raunverulega auknum jöfnuði í þessu landi, stuðli að því að veita einstaklingum og fjölskyldum sem flesta möguleika til að koma yfir sig húsnæði og komi í veg fyrir að fjölskyldur séu á ákveðnu skeiði ævi sinnar knúnar til að færa óeðlilegar fórnir, sem koma oft og tíðum niður á uppeldi barna og eðlilegu fjölskyldulífi, vegna þess einfaldlega að aðrir möguleikar eru ekki fyrir hendi. Við teljum því að þetta frv. þurfi ítarlegrar skoðunar í þeirri n., sem fær það til umr., og væntum samstöðu annarra þm. við breytingar á því, bæði þær, sem horfa til verulegra bóta á þessu frv., og eins hinar, sem ég hef vikið að og fela í sér að sníða af því ýmsa alvarlega vankanta og galla sem á frv. eru í þeirri mynd sem það hefur hér verið lagt fram.