14.01.1980
Neðri deild: 16. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 287 í B-deild Alþingistíðinda. (365)

25. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég vil vekja athygli é því, að frv. til laga um Húsnæðismálastofnun ríkisins, stjfrv., 17. mál Ed., er nú komið til meðferðar Alþingis, og hefur hæstv. félmrh. þegar mælt fyrir frv. í Ed., þar sem það er nú til 1. umr. Sá lagabálkur er heildarlöggjöf um húsnæðismál og hefur verið lagður fram eftir nokkurra ára endurskoðun margra nefnda sem hafa starfað við þá endurskoðun. Þetta er því mikill lagabálkur og um margt til bóta, eins og þörf er á, þótt margt þurfi að athuga betur í meðferð Alþingis. Ég verð því að lýsa undrun minni yfir því, að hv. 10. landsk. þm., flm. þessa frv., sem er jafnframt samflokksþm. hæstv. félmrh. og hefur að sjálfsögðu haft möguleika til að kynna sér stjfrv., skuli flytja þetta frv., þar sem í stjfrv. sjálfu eru mjög greinileg ákvæði um sérstök íbúðalán til handa öldruðum og öryrkjum og annarra er skerta hafa starfsgetu, bæði að því er varðar lán til einstaklinga svo og til félagslegra íbúða. Ég tel því miklu eðlilegra og í alla staði þinglegra, fyrst við eigum hér á hv. Alþ. að fjalla um heildarlöggjöf um húsnæðismál, sem við viljum sjálfsagt öll stuðla að að verði svo ítarleg að hún nái yfir alla þá málaflokka, sem við höfum áhuga á, og nái til þess fólks sem við höfum áhuga á að njóti félagslegrar aðstoðar og réttinda, — að þá sé miklu eðlilegra að koma fram með sérstakar brtt. við heildarfrv. sjálft í stað þess að flutt séu sérstök frv. eins og hér liggur fyrir. Aðra málsmeðferð tel ég óþarfa og raunar til þess að tefja heildarlöggjöfina. Ég vil því leyfa mér að skora á hv. 10. landsk. þm. að draga þetta frv. til baka, en flytja brtt. við heildarfrv., ef þm. vill láta ganga lengra en þar kemur fram.

Ég taldi rétt að vekja athygli á þessu, því að eftir að hafa athugað mjög rækilega þskj. 17 í Ed., frv. um Húsnæðismálastofnun ríkisins, sé ég ekki betur en í því frv., ef það er betur skilgreint, séu ákvæði sem fullnægja því sem hv. flm. taldi upp áðan. Ég vil taka það fram, að ég er hv. þm. algjörlega sammála um að það þurfi sérstaklega að tryggja réttindi þessa fólks. En ég tel að slíkt sé miklu betur gert með því að stuðla að því, að ákvæði um það komist í þá heildarlöggjöf sem við þdm. eigum eftir að fjalla um.