14.01.1980
Neðri deild: 16. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 291 í B-deild Alþingistíðinda. (369)

26. mál, óverðtryggð framleiðsla landbúnaðarvara

Iðnrh. (Bragi Sigurjónsson):

Herra forseti. Mér þykir rétt að segja fáein orð um þetta mál, sem hér hefur verið flutt, og vil þá fyrst geta þess, að það er að sjálfsögðu rétt, sem kom fram í máli hv. frsm., að liðið ár hefur á margan hátt verið landbúnaðinum mjög þungt í skauti, einkanlega, eins og hann sagði, um norðanvert landið, alveg sérstaklega norðaustanvert landið, og einmitt af þeim sökum tangar mig að láta hér í ljós nokkrar hugleiðingar varðandi það frv. sem hér hefur verið flutt.

Frsm. gat þess, sem allt er rétt, að áburðarnotkun varð óvenjumikil, a.m.k. um norðanvert landið, vegna þess hve voraði seint og horfur voru ískyggilegar með grassprettu. Þannig er mér kunnugt um að sums staðar á rösku meðalbúi varð áburðarnotkun allt að 400–600 þús. kr. meiri en í venjulegu árferði. Við þetta bættist, að bændur urðu víða að kaupa verulegan fóðurbæti í vor sem leið, og loks það, sem flm. nefndi síðast, að garðrækt gaf mjög litla raun norðanlands, svo að til stórra vandræða horfði hjá þeim bændum sem þá búgrein stunduðu. Enn gat flm. þess, að fallþungi hefði verið mun minni hjá bændum víðast um land en var næsta ár á undan. Ég endurtek, að allt þetta var satt og samkv. upplýsingum sem fyrir liggja.

En þá vík ég að því, sem mér finnst nokkur mótsögn í málafærslu þeirra, sem flytja þetta frv., og kom fram hjá hv. frsm. sem flutti mál sitt áðan, — og ég reikna með að líkar röksemdir verði hjá þeim sem tala fyrir öðru frv. sem hér liggur fyrir líks efnis, — en það er, að mér hefur alltaf fundist, skilningsmunur milli ýmissa hér í hv. þd. og raunar báðum þd. og t.d. mín persónulega, að þessar aukaútflutningsbætur, sem farið er fram á að Alþ. veiti, eru hugsaðar sem eins konar uppbót á sérstaklega gott árferði, þ.e.a.s. ætlast til að ríkissjóður bæti bændum upp sérstaklega gott framleiðsluár. Til að rökstyðja þetta benda menn á næsta ár sem kom á eftir og var sérstaklega óhagstætt. Þarna finnst mér vera tvískinnungur í málflutningi. Mér finnst eðlilegt eins og gert var á s.l. ári, en þá voru settar á laggirnar nefndir til að kanna, hve mikið og hvar bændur hefðu sérstaklega orðið fyrir áfalli, og var komið fram með tillögur um að bæta úr slíku, sem mér fannst alveg rétt að fram kæmu og úr yrði bætt. En ef yrði farin sú leið, sem hér er lagt til og í öðru frv., sem hér liggur fyrir er í raun og veru ekkert verið að taka mið af því, að sums staðar var árið bændum alls ekki óhagstætt. Það er verið að gera öllum að því leyti jafnt undir höfði, þeim sem ekki varð fyrir skakkafalli og þeim sem hefur orðið fyrir skakkafalli, og þeir sem hafa mesta framleiðsluna fengju mest út úr svona fyrirgreiðslu. Það er þetta sem ég vildi koma á framfæri, að mér finnst sá hugsunarháttur, sem liggur á bak við þetta, ekki réttur.

Mér finnst óeðlilegt að vera að fara að auka útflutningsbætur fram yfir það sem lög mæla fyrir. Að sjálfsögðu finnst mér rétt að leitað sé eftir lagfæringu á vanda þeirra sem verða fyrir skakkaföllum, en ekki á þennan hátt. Og mig langar að lokum að kasta því fram: Hvað hefðu hv. flm. gert í þessu tilfelli hefði framleiðslan á þessu umrædda ári ekki verið sérstaklega góð, útflutningsbæturnar dugað? Hvernig hefði þeirra málflutningur þá verið varðandi aukna fyrirgreiðslu til bænda? Ekki var þá hægt að rökstyðja það með því, að ekki væru útflutningsbæturnar eins og lög mæltu fyrir. Það er þessi röksemd sem ég vildi heyra frá þeim, um leið og ég bendi á að mér finnst óeðlilegt að verið sé að kalla á auknar útflutningsbætur fyrir sérstaklega hagstætt framleiðsluár og rökstyðja það með því að næsta ár á eftir hafi verið sérstaklega mikið harðæri. Harðæri, mismunandi eftir landshlutum, verður að létta eftir öðrum leiðum en uppbótum á offramleiðslu búvöru.