15.01.1980
Sameinað þing: 11. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 302 í B-deild Alþingistíðinda. (377)

211. mál, þjónusta strandstöðvarinnar í Hornafirði

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 37 hef ég leyft mér að bera fram svo hljóðandi fsp. til hæstv. samgrh.:

„Eru fyrirhugaðar breytingar á þjónustu strandstöðvarinnar á Höfn í Hornafirði (Hornafjarðarradíó)?

Ef svo er: Í hverju eru þær breytingar þá fólgnar og hvaða afleiðingar gætu þær haft fyrir öryggi og þjónustu á þessu svæði?

Fsp. er fram borin vegna þess að heimamenn hafa fyrir satt að ráðgert sé að loka þessari stöð frá miðnætti til 8 á morgnana, þá verði lokað fyrir alla þjónustu jafnvel lengur eða frá 10 á kvöldin og stytting þjónustu um helgar sé einnig ráðgerð. Í þess stað yrði um þjónustu frá Gufunesradíói að ræða frá þessum tíma, þ.e. að hlustun og sending færi fram með fjarstýringu. Samkv. upplýsingum frá yfirmanni stöðvarinnar á Höfn er þjónusta þar nú þessi, með leyfi hæstv. forseta:

Þjónustan er, eins og á öllum öðrum strandstöðvum Pósts og síma, öll neyðar-, öryggis-, háska- og almenn þjónusta við báta, skip og bíla.

Neyðarþjónusta er nr. eitt í þessu og er undir hinum venjulegu kringumstæðum er bátar, skip eða bílar, jafnvel einstaklingar á landi, eru í neyð.

Öryggisþjónustan: Veðurspá lesin fimm sinnum á sólarhring mánuðina okt.-apríl og fjórum sinnum allt árið, tilkynningarskylda íslenskra skipa, forgangur um læknisaðstoð ef svo ber undir.

Í þriðja lagi háskaþjónusta: Lesnar tilkynningar um reka og annað sem gæti verið hættulegt sjófarendum. Hjá Hornafjarðarradíói er mikið um að gefnar séu upplýsingar um Hornafjarðarós sem eins og menn vita er einn sá varasamasti hér á landi.

Almenn þjónusta: Samtöl, skeytamóttaka, skilaboð, upplýsingar um skip og báta o.fl., símavarsla í næsta nágrenni Hafnar eftir lokun símstöðva, þ.e. Lón, Mýrar, Suðursveit og Öræfi. Jafnframt fer skeytamóttaka frá Höfn um loftskeytastöðina.

Jafnframt skal benda á ýmsa aðra mikilvæga þjónustu sem ekki er hægt að flokka undir beina þjónustu Pósts og síma.

Verði breyting á opnunartíma strandstöðvarinnar má glöggt sjá af þessu, að margt muni færast til verri vegar, og því von að heimamenn, sýslunefnd, hreppsnefndir á svæðinu og hin ýmsu félagasamtök beri ugg í brjósti varðandi þetta, enda hafa þeir aðilar sent frá sér áskorun til stjórnvalda um þetta mál, sem ég vil leyfa mér að lesa upp, með leyfi forseta:

„Vegna fyrirhugaðrar breytingar, er hafa mun í för með sér verulega skerðingu á þjónustu Hornafjarðarradíós, skorum við undirrituð á yfirstjórn póst- og símamála í landinu að gera hér engar breytingar á, enda reynslan mjög góð miðað við núverandi ástand.

Á það skal bent, að lokun Hornafjarðarradíós að næturlagi mun mjög draga úr öryggi og þjónustu við báta og löggæslu svo og einnig torvelda íbúum vestustu hreppa Austur-Skaftafellssýslu að ná til læknis, einnig fólki austur til Djúpavogs. Þjónusta um Gufunesradíó getur aldrei komið að fullu í stað þjónustu hér, m.a. vegna eftirtalinna atriða:

1. Möguleika á bilun í rafkerfi, rafmagnsleysi þegar veður eru hvað verst, en þá einmitt er einna oftast þörf á neyðarþjónustu.

2. Vegna þekkingar starfsmanna við Hornafjarðarradíó á aðstæðum og hvernig á að bregðast við vandanum hverju sinni.

Að endingu virðist skorta rök fyrir þessum aðgerðum, en fækkun starfsmanna eða starfsmanns við Hornafjarðarradíó mundi mjög líklega kalla á starfsmannaaukningu hjá Gufunesradíói.“

Undir þetta eru svo undirskriftir sýslumannsins á Höfn í Hornafirði, oddvita hreppanna í Austur-Skaftafellssýslu og fjölmargra félagasamtaka sem mál þetta snertir að einhverju leyti.

Nauðsyn er á því að fá staðfestingu hæstv. ráðh. á því, hvort þessar breytingar eru fyrirhugaðar og hver séu þá rökin og hvað yfirstjórn þessara mála segir varðandi öryggi og þjónustu ef af breytingum verður frá því sem nú er.