15.01.1980
Sameinað þing: 11. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 310 í B-deild Alþingistíðinda. (384)

212. mál, beinar greiðslur til bænda

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Eins og kom fram hjá hæstv. ráðh. bárust bréf viðskiptabankanna í byrjun okt. Þessi bréf voru skrifuð að minni ósk. Það dróst nokkuð að svör bærust. Þegar eftir samþykkt umræddrar till. s.l. vor átti ég viðræður við bankamenn. Þeim var skrifað í beinu framhaldi af því og leitað eftir tillögum bankanna um framkvæmd á beinum greiðslum til bænda. Segja verður eins og er, að með beinum greiðslum væri farið út á ákaflega vafasama braut með tilliti til hagsmuna bænda. Ég veit að hv. þm. hafa ekki slíkt í huga. Það er rétt, að Alþ. hefur samþykkt svona fyrirmæli, og því ber að fara eftir þeim, en ég veit einnig að alþm. hafa ekki slíkt í hug. Ef í ljós kemur að með beinum greiðslum er stórlega aukið á vanda bænda er ég sannfærður um að hv. Alþ. er tilbúið að endurskoða ákvörðun sína. Þess vegna þarf að leiða hið sanna fram í þessu máli og leggja það fyrir svo að ljóst sé. Það var reynt að gera, var unnið að því s.l. sumar. Hæstv. ráðh. hefur nú lesið svör bankanna, svo það liggur nú að nokkru leyti fyrir.

Ég ætla ekki að fara að rekja þá erfiðleika sem eru á framkvæmd þessari. Augljóst er t.d. með rekstrarlánin, sem eru greidd út í mörgu lagi, að því fylgir mikill kostnaður fyrir bóndann að ganga frá nægilegum veðum í hvert sinn sem slík lán eru veitt. Þetta er eitt atriði sem komið hefur fram, og þetta veit ég að hv. þm. getur ekki haft í huga.

Sú leið sem helst virðist koma til greina, er að sláturleyfishafar, sem eru með birgðir og eiga auðveldara með að ganga frá slíkri veðsetningu, leggi slíkar greiðslur þegar inn á reikning viðkomandi bónda. Þeir eru margir og flestir stærstu sláturleyfishafarnir gera það þegar, þannig að víða er það svo framkvæmt. Þetta hygg ég að sé eina leiðin. Þá getur bóndinn tekið út fé sitt, þegar það er komið inn á reikning hans, og haft beinan aðgang að því.

En ég stend fyrst og fremst upp til að leggja áherslu á að þegar var hafið að skoða málið samkv. fyrirmælum Alþ. og þessi bréf eru í beinu framhaldi af því. Ég vil taka undir orð hv. 2. þm. Vesturl., að það eru hinar mestu dylgjur að bankarnir séu með einhver sjálfvirk neikvæð svör. Ég varð ekki var við það þegar ég ræddi við bankamenn