15.01.1980
Sameinað þing: 11. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 314 í B-deild Alþingistíðinda. (389)

213. mál, sparnaður í fjármálakerfinu

Fyrirspyrjandi (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Hinn 21. des. 1978 var samþ. einróma hér í Sþ. eftirfarandi þáltill.:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að beita sér fyrir sparnaði í fjármálakerfinu. Stjórninni til aðstoðar við framkvæmdina tilnefna þingflokkarnir fimm menn í nefnd, stjórnarflokkarnir hver um sig einn mann, en stjórnarandstaðan tvo. Nefndin skiptir með sér verkum.

Markmiðið er veruleg fækkun starfsmanna ríkisbanka, Framkvæmdastofnunar ríkisins og opinberra sjóða og samræmdar aðgerðir til sparnaðar og hagkvæmari rekstrar, þ. á m. sameining fjármálastofnana og skorður við óhóflegum byggingum.“

Þessi till. var í fyrra flutt af öllum fjh.- og viðskn.mönnum í Ed. Þar varð samkomulag um að reyna að koma slíkri till. fram. Í grg. sem fylgdi till. segir, með leyfi forseta:

„Naumast verður um það deilt, að ofvöxtur hefur hlaupið í fjármálakerfið. Samhliða hefur það orðið sífellt vanmáttugra að leysa þau verkefni, sem peningastofnunum eru ætluð í nútímaþjóðfélagi. Tilraunir, sem gerðar hafa verið til endurbóta, hafa einna helst orðið til að flækja mál sífellt meir og torvelda úrlausnir. Stóraukið starfslið hefur síst orðið til bóta. Ljóst ætti að vera, að sjálft mun kerfið ekki snúast gegn þessari framvindu. Óhjákvæmilegt er því, að Alþ. taki í taumana. Því er till. þessi nú flutt.“

Rétt og skylt er að geta þess, að till. sama efnis með nokkuð öðru orðalagi hafði verið flutt á þinginu á undan. Það var í tíð ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar, en þá var hún flutt af mér og hv. þm. Pétri Sigurðssyni, svo að till. beindist auðvitað ekki að neinni ríkisstj. eða neinum ákveðnum mönnum, heldur var þetta tilraun sem menn vildu gera til að sameinast um að veita viðnám, svo að það orðalag sé nú notað sem frægt varð á sínum tíma, gegn útþenslu kerfisins. Um þetta sameinuðust allir flokkar og allir fulltrúar í fjh.- og viðskn. og Alþ. í fyrra.

Þarna var raunar tilboð af hálfu þáv. stjórnarandstöðu, sem upphaflega hafði staðið fyrir þessum tillöguflutningi, að leggja sitt lið til þess að kljást við kerfið og þá útþenslu, sem í þjóðfélaginu er, og leggja til tvo af fimm mönnum í nefnd sem yrði til aðstoðar ríkisstj. Það var sem sagt boðin fram slík aðstoð.

Í tilefni af því, að þessi till. var samþ. fyrir meira en ári, hef ég leyft mér að óska eftirfarandi upplýsinga:

„1. Hvað hefur ríkisstj. gert til að beita sér fyrir sparnaði í fjármálakerfinu?

2. Hver hefur orðið árangur af starfi nefndar þeirrar, sem þingflokkarnir skipuðu samkv. ályktun Alþingis frá 21. des. 1978 til aðstoðar ríkisstj.?

3. Hefur einhverjum þeim markmiðum verið náð, sem nefnd eru í 2. mgr. þál., og þá hverjum?

4. Hver var fjöldi starfsmanna í fjármálakerfinu við samþykkt þál. og hver er hann nú?