15.01.1980
Sameinað þing: 11. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 317 í B-deild Alþingistíðinda. (392)

213. mál, sparnaður í fjármálakerfinu

Fyrirspyrjandi (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Ég fæ ekki skilið að hæstv. fjmrh. þyrfti að gefa þá yfirlýsingu, að ekki væri ljóst hvað við væri átt með þessari till. og hvaða stofnanir það væru fyrst og fremst sem um væri að ræða. Það er tekið alveg skýrt fram í tillgr. sjálfri, með leyfi forseta:

„Markmiðið er veruleg fækkun starfsmanna ríkisbanka, Framkvæmdastofnunar ríkisins og opinberra sjóða og samræmdar aðgerðir til sparnaðar og hagkvæmari rekstrar, þ. á m. sameining fjármálastofnana og skorður við óhóflegum byggingum.“

Það er auðvitað alveg ljóst, að átt er við fjármálakerfið, en ekki óteljandi stofnanir sem hæstv. ráðh. hér vék að og notaði tækifærið til þess að ná sér í einhvers konar ókeypis auglýsingu fyrir framtakssemi sína í fjmrh.stöðu. Það getur ekki verið að þetta hafi neitt misskilist. Það hefur hins vegar ekki verið ætlunin að svara fsp. beint.

Ég var ekkert að ásaka hæstv. núv. fjmrh. fyrir að hann hefði ekki aðhafst í þessum málum. Það var auðvitað fyrrv. ríkisstj. sem átti að sinna skyldu sinni og kalla nefndina saman. Þess minnast ábyggilega ráðh. í fyrrv. ríkisstj. og raunar fleiri þm., að í allan fyrravetur var verið að ganga á eftir því að fá tilnefningar og fá nefndina kallaða saman. Ég skal játa að ég hélt upphaflega að till. hefði af Alþingis hálfu eftir áramótin verið send forsrn., hún gat eins hafa verið send þangað, m.a. vegna þess að Framkvæmdastofnun heyrir undir forsrn., en þáv. forsrh. upplýsti mig um það mjög fljótlega að till. hefði verið send fjmrn. Þá var auðvitað margsinnis talað við fjmrn., ekki bara ráðh., heldur ráðuneytisstjóra og hvern af öðrum, um að fá ýtt á þetta mál. Maður hélt satt að segja að það væri einmitt verið að koma til liðs við fjmrh. og fjmrn. þegar þingheimur allur samþykkir að tilnefna menn til aðstoðar í sparnaði, því að haft hefur verið á orði hjá öllum ríkisstj. að nauðsyn bæri til að spara og ekki þá síst í fjármálakerfinu.

Enn gleggra kom tilgangur till. fram í þeirri grg. sem var með upphaflegu till. sem við hv. þm. Pétur Sigurðsson fluttum á sínum tíma, þar sem var lengri og ítarlegri grg. og rækilega rakið hver nauðsyn væri á því að stemma stigu við hinni gífurlegu úfþenslu í peningakerfinu og bankakerfinu. Þess vegna er það hreinn útúrsnúningur að koma hér upp og víkja alls ekki að málinu sjálfu, heldur vera að tala um einhverjar allt aðrar stofnanir, sem ekkert koma þessu máli við, ekki nokkurn skapaðan hlut, og það er nánast óvirðing — það er allt í lagi þó að það sé óvirðing við fyrirspyrjanda, en það er óvirðing við Alþ. — að svara út í hött með þeim hætti sem hæstv. ráðh. rétt áðan gerði.

En ég held að rétt sé að gleyma því. Aðalatriðið er að vekja athygli á þessu máli. Það verður ekki hjá því komist að vekja athygli á vanrækslusyndum fyrrv. ríkisstj. Hún hefur beinlínis brugðist í þessu eins og óteljandi mörgu öðru og ekki framkvæmt það sem Alþ. hafði lagt fyrir hana að gera. En þó var tilgangurinn miklu fremur að koma hreyfingu á málið í von um að annaðhvort núv. hæstv. fjmrh. ýtti á eða þá sá næsti eða þar næsti, ef skammt yrði um lífdaga þeirrar stjórnar sem tveir hv. þm. eru nú að reyna að mynda til 2–3 mánaða, því að ég mundi halda að Þjóðhagsstofnun yrði fljót að stúta henni, og þær eru þá farnar fimm. (Gripið fram í.) Ja, ekki viljandi. Hún mundi ekki gera það viljandi. Þá verða þarna einar fimm á rúmlega fimm árum eða svo. En ég vona að einhvern tíma komi að því að menn snúi bökum saman hér á þinginu og komi þessari nefnd á laggirnar og reyni að gera eitthvað með samstilltu átaki til að reyna að stemma stigu við þeirri þróun sem ég held, að flestir eða allir séu orðnir uggandi út af inn við beinið.