15.01.1980
Sameinað þing: 11. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 318 í B-deild Alþingistíðinda. (393)

213. mál, sparnaður í fjármálakerfinu

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég var einn af þeim þm. sem fluttu þá till. sem hér er til umr., með hv. þm. Eyjólfi Konráð Jónssyni. Ég held að rétt sé að það komi hér fram, að í fjh.- og viðskn. Ed. á næstsíðasta þingi, þinginu sem stóð síðasta vetur, var eindregin samstaða og einhugur um þessa till. og fastur ásetningur þeirra, sem í n. voru, að þetta mál næði fram að ganga. Þetta var tilraun n. þingsins, ein af fáum á því þingi, þar sem mjög var rætt af hæstv. dómsmrh. og öðrum þm. Alþfl. um nauðsyn þess að efla þingræðið í landinu, ein af fáum einhuga tilraunum nefnda þingsins til að taka til skoðunar þróun mikilvægra þátta í framkvæmdavaldsstofnunum þessa lands og þá miklu kerfisuppbyggingu og valdaupphleðslu sem þar hefur átt sér stað nánast án þess að þingið kæmi þar nokkuð við sögu. Það er satt að segja ömurlegt að það skuli verða örlög eins helsta þingræðiskratans í þeim hópi að koma hér og flytja það dæmigerða kerfissvar sem hæstv. fjmrh. flutti áðan, þar sem hann í raun og veru svaraði engu varðandi þessa fsp., en tíndi upp hverja gerviafsökunina á eftir annarri sem embættismenn hans í fjmrn. og fjárlaga- og hagsýslustofnun höfðu samið handa honum til að flytja þinginu. Það verður langt í að hér náist samstaða um að efla í raun og veru og styrkja þingræðið í landinu og styrkja nefndastörfin í þinginu gagnvart hinni miklu valdaþróun framkvæmdavaldsins ef meginkrosstrén í þeirri baráttu bregðast svo rækilega sem hæstv. fjmrh. sýndi þingheimi fram á áðan.

Það er alveg rétt, sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson sagði, að frekar ósmekklegt var að nota tímann til að auglýsa lítilfjörlegar breytingar sem koma þessu máli ekkert við. Stóra málið er, að á undanförnum árum og áratugum hefur hlaðist upp gífurlega mikið embættisbákn í ýmsum helstu fjármálastofnunum þessa lands. Það embættismannabákn hefur dregið til sín bæði leynt og ljóst mikið af því stefnumarkandi valdi í efnahagsmálum sem á að vera hjá þjóðkjörnum fulltrúum þessa lands. Menn hafa reynt það í stjórnarmyndunarviðræðum undanfarna daga og vikur hvernig er komið samskiptum þjóðkjörinna fulltrúa annars vegar og embættislegu stjórnsýslunnar í hagstofnunum landsins hins vegar, í Seðlabanka, Þjóðhagsstofnun, fjmrn. og annars staðar. Þess vegna er mjög brýnt að hinir þjóðkjörnu fulltrúar nái aftur í sínar hendur því valdi sem þeim ber samkv. stjórnskipun þessa lands. Ég tel veigamikinn þátt í þeirri þróun, að sú till., sem var flutt einróma af fjh.- og viðskn. Ed. á næstsíðasta þingi, nái fram að ganga. Ég skora á þá menn, sem eiga eftir að gegna embætti fjmrh., að þeir gerist ekki slík fórnarlömb kerfisþrælanna eins og hæstv. núv. fjmrh. upplýsti áðan.