15.01.1980
Sameinað þing: 11. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 320 í B-deild Alþingistíðinda. (395)

57. mál, umboðsfulltrúar dóms- og kirkjumálaráðuneytisins

Fyrirspyrjandi (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Ég vona að mér fyrirgefist þótt ég noti nokkrar mínútur til að minnast ak ær umr. sem hér urðu utan dagskrár s.l. fimmtudag. Ég vil sérstaklega taka undir orð hv. þm. Sverris Hermannssonar er hann gagnrýndi forseta fyrir að leyfa umr. utan dagskrár um sama efni og er í löglega framlagðri fsp., sem þegar hafði verið ákveðið af forseta sjálfum að taka á dagskrá í dag. Þá finnst mér eiginlega sérstaklega gagnrýnisvert að hæstv. forseti skyldi leggja trúnað á orð síns gamla flokksbróður, hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar, um efnisatriði þeirra spurninga sem hann hafði í hyggju að leggja fyrir hæstv. dómsmrh., því að hæstv. forseti átti auðvitað að vita að sýndarmennska hjá þessum þm. er ofar öllu öðru og þingvenjur og þingsköp næsta lítils virði, ef hann getur vakið nokkra athygli á sjálfum sér. (KP: Það kemur engum á óvart.) Það kemur engum á óvart, hv. þm. Karvel Pálmason, nei.

Hæstv. dómsmrh. misskildi hv. þm. ekki neitt og hefur sjálfsagt talið mjög gott ef hægt væri að ljúka við að svara og hafa að baki nokkrar af þeim spurningum, sem hafa vaknað hjá þm. vegna þessa máls, og sjálfsagt einnig að hafa að baki umr. á mjög fámennum fundi í Sþ., — fámennum vegna óvæntrar uppákomu þessarar fsp. og utan venjulegs fundartíma. En vegna þeirra orða, sem féllu á þessum fundi í máli hæstv. ráðh., þess efnis að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hafi stolið frá mér glæpnum, eins og hann orðaði það, með óþinglegri fsp. sinni, vil ég segja við hæstv. ráðh., að ég hef engan glæp framið í þessu máli. Hins vegar munu svör ráðh. hér á eftir og umr., sem fram munu fara, kannske leiða í ljós hvort hæstv. ráðh. hefur brotið velsæmismörk, sem hann hefur manna tengst gengið í að telja aðra verða að hlíta, og hvort reynslan sé þá ekki orðin sú, að hann sem siðvæðingarhershöfðingi krata hafi alla tíð verið að kasta grjóti úr glerhúsi.

Ég hef lagt fram þessa fsp., sem er á þskj. 87 og er nú til umr., vegna ráðningar hins nýja umboðsfulltrúa dómsog kirkjumálarn. Það, sem kannske frekast stendur að baki fsp. minni, eru þær auglýsingar sem hafa birst eftir á frá rn. og reyndar viðtöl bæði við hinn nýráðna umboðsfulltrúa ráðh. eða rn. og ráðh. sjálfan um í hverju verk fulltrúans sé fólgið og að hverju sé stefnt með því. Í auglýsingu rn. 3. jan. segir svo, með leyfi forseta:

„Tekið hefur til starfa umboðsfulltrúi dóms- og kirkjumálarn. Verkefni hans verður að sinna fyrirspurnum og erindum fólks, sem telur á hlut sinn gengið í samskiptum við stofnanir ríkisins, og veita leiðbeiningar í því sambandi. Fyrst um sinn mun starf umboðsfulltrúa einkum lúta að dómgæslu, löggæslu og fangelsismálum.“ Auglýsingin ber auðvitað ljóslega með sér að það er stefnt miklu hærra með stofnun embættisins og ráðningu þessa embættismanns en að hann eigi aðeins að vera til að upplýsa fólk sem í rn. kemur. Nýlega var í fréttum talið upp hvað margir hefðu komið, að ég held um 40 að tölu, sem enginn veit hverra erindi voru, enda sjálfsagt einkamál viðkomandi aðila og umboðsfulltrúans. Hins vegar hefur tekist fram til þessa að ná til ráðh. ef einhverjir eru að leita sér að nýrri atvinnu eða leita upplýsinga eða eitthvað þess háttar, og kratar þurftu ekki endilega að fá sérstakan fulltrúa til að veita slíkar upplýsingar. — En þá er auðvitað ljóst, og þá kem ég aftur að því sem ég sagði áðan, að í viðtölum bæði við hinn nýráðna embættismann og ráðh. sjálfan kemur fram að stefnt er að því, og þeir hafa ekkert farið dult með það, að setja á stofn það embætti sem hefur gengið undir nafninu umboðsmaður og þá viðkomandi þjóðþinga, t.d. á Norðurlöndunum. Ég tek þetta atriði sérstaklega til meðferðar og legg m.a. fsp. mína fram vegna þess að svo er á málinu haldið, vegna þess að ég flutti þáltill. á Alþ. tvisvar um undirbúning löggjafar um embætti umboðsmanns Alþingis, fyrst á þinginu 1970–1971 og síðan 1971–1972. Hinn 16. mars 1972 samþykkti Alþ. þáltill. sem var á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta undirbúa löggjöf um stofnun embættis umboðsmanns Alþingis. Skal hliðsjón höfð af sambærilegri löggjöf annarra þjóðþinga á Norðurlöndum. Frv. þess efnis skal lagt fyrir næsta reglulegt Alþingi.“

Með þáltill. fylgdi mjög ítarleg grg., sem m.a. vitnaði til þess sem hafði farið fram í málinu hér á landi fram til þessa, a.m.k. alls sem ég gat fest hendur á. Það voru m. a. tímaritsgreinar og það voru erindi, sem m.a. hv. þm. Ólafur Jóhannesson hafði flutt á fundi Orators, félags lögfræðinema, og enn fremur vitnaði ég til grg. sem hafði fylgt þáltill. sem var um skipan nefndar til að athuga þetta mál og Kristján Thorlacius hafði flutt tvisvar eða þrisvar á þingi er hann sat hér sem varaþm. fyrir Framsfl.

Eftir að till. mín var samþ. fól þáv. hæstv. dómsmrh., Ólafur Jóhannesson, Sigurði Gizurarsyni að semja frv., sem var lagt fyrir Alþ. í marslok 1973 og tekið til umr. á næsta þingi. Þáv. dómsmrh. flutti mjög ítarlega framsöguræðu með frv. Hann komst m.a. svo að orði, með leyfi forseta:

„Vissulega eru aðstæður hér hjá okkur að ýmsu leyti aðrar en hjá fjölmennari þjóðum og jafnvel hjá okkar nágrannaþjóðum. En ég er ekki í vafa um, að stofnun umboðsmannaembættis mundi á ýmsan hátt leiða til bættrar stjórnsýslu og horfa til réttaröryggis fyrir þegnana. Fyrir slíkt er mikið gefandi. Hinu er ekki að leyna, sem Alþ. verður einnig að hafa í huga og meta, að hér er um stofnun nýs embættis að ræða, sem hafa mun í för með sér verulegan kostnað. Ég tel því mjög eðlilegt, að Alþ. gefi sér góðan tíma til að athuga þetta mál.“ Lengra var þetta, þó að ég vitni ekki lengur í hans mál.

Frv. var að lokinni umr. vísað til allshn. d. og hún skilaði áliti nokkru síðar, eða í maí 1974, og mælti einróma með samþykkt þess með nokkrum smávægilegum breytingum. Síðan gerðist ekkert meira í málinu fyrr en ég flutti frv. ásamt hv. þm. Sverri Hermannssyni á þinginu 1976–1977, en þá urðu úrslit hin sömu, að það dagaði uppi, komst til n. og síðan ekki söguna meir. Var sama ástæða gefin fyrir að málið fékk ekki framgang að við hefðum ekki efni á að setja á stofn þetta nýja, en þó þýðingarmikla embætti, sem allir voru sammála um að væri til gagns fyrir þjóðina.

Hins vegar virðist mér með hliðsjón af því, sem ég hef þegar sagt, að hæstv. dómsmrh. sé að reyna að læða embættinu inn án þess að við höfum frekar efni á því að koma málinu fram nú en áður. Þótt ég sé á allan hátt fylgjandi því, að embætti umboðsmanns Alþ. verði sett á stofn, vil ég ekki að sú leið sé farin að fara með það inn bakdyramegin, ef ég mætti orða það þannig. Enn fremur er embættið, eins og það er sett á stofn af hæstv. ráðh., hvergi í líkingu við það sem ætlað var með frv.-flutningnum, hvorki í samræmi við samhljóða frv. sem ég flutti né í samræmi við samhljóða frv. sem ég flutti ásamt hv. þm. Sverri Hermannssyni. Þar er meginmál, má segja, að strax kemur fram í 1. gr. frv. að kjör umboðsmanns Alþingis eigi að fara fram í Sþ. Síðan er auðvitað getið um hvert verksvið hans eigi að vera o.s.frv. og skyldur og réttindi. Má því segja að langt sé frá því að sú embættisstofnun, sem hæstv. dómsmrh. hefur nú beitt sér fyrir, geti á nokkurn hátt jafnast á við það sem með því frv. var ætlað að gera.

Það hafa komið upp miklar efasemdir um hvort hæstv. ráðh. hafi nokkra heimild til að stofna til þessa embættis. Með hliðsjón af því, sem kom fram áðan hjá hæstv. fjmrh., að eitt af aðalverkum hans í stjórnartíð hans sem fjmrh. hafi verið að vinna að því, að ekki verði stofnuð fleiri embætti, og að draga saman í fjármálakerfinu ýmiss konar kostnað og sem sagt að stuðla að sparnaði og hagsýni á öllum sviðum, þá virðist manni þessi ákvörðun í rn. hæstv. dómsmrh. koma eins og skollinn úr sauðarleggnum.

Fsp. mín er í þrem liðum og hljóðar svo, með leyfi forseta:

1. Er fjárveiting fyrir hendi til greiðslu launa og annars kostnaðar við hið nýja embætti umboðsfulltrúans? Eru fyrirmæli þar um lögum? Ef ekki, hver heimilar ráðh. að setja þetta nýja embætti á stofn?

2. Er umboðsfulltrúi ráðinn samkv. samningi félags innan BSRB, BHM, ASÍ, eða er hann ráðinn samkv. sérsamningi?

3. Hver eru byrjunarlaun hans, önnur launakjör og fríðindi? Er umboðsfulltrúinn æviráðinn eða til skemmri tíma, t.d. næstu reglulegu alþingiskosninga?

Eitthvað mun hafa komið fram, sem telst til svara, í tvítali þeirra félaganna hæstv. ráðh. og hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar, en að sjálfsögðu óska ég eftir að það komi fram við umr. um löglega fram lagða fsp. svör við öllum þeim spurningum sem ég hef borið fram.