15.01.1980
Sameinað þing: 11. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 322 í B-deild Alþingistíðinda. (396)

57. mál, umboðsfulltrúar dóms- og kirkjumálaráðuneytisins

Dómsmrh. (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Sem svar við 1. fsp. hv. þm. Péturs Sigurðssonar er þetta að segja:

Fjárlög hafa ekki verið samþ. fyrir árið 1980, engar fjárveitingar hafa því verið afgreiddar fyrir það ár, en í nýsamþykktum lögum um bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði og heimildir til lántöku á árinu 1980 o.fl. er ríkisstj. heimilað að greiða samningsbundnar greiðslur þar til fjárlög hafa verið samþ., þ. á m. launagreiðslur til opinberra starfsmanna. Ekki eru í lögum fyrirmæli um starf umboðsfulltrúa, en ráðning umboðsfulltrúa var ákveðin með þeim hætti sem lög nr. 97/1974, um eftirlit með ráðningu starfsmanna o.fl., segja fyrir um. Ráðningarnefnd ríkisins samþykkti ráðninguna á fundi sínum 3. jan. s.l.

Í öðru lagi sem svar við 2. fsp. hv. þm.:

Umboðsfulltrúi er ráðinn samkv. sérkjarasamningi Lögfræðingafélags Íslands og aðalkjarasamningi Bandalags háskólamenntaðra manna.

Í þriðja lagi:

Launakjör eru 113. flokkur fyrrgreindra kjarasamninga. Önnur launakjör eru ekki. Fríðindi eru engin. Umboðsfulltrúi er ráðinn með gagnkvæmum þriggja mánaða uppsagnarfresti. Auk þess rennur ráðningarsamningur hans út sjálfkrafa innan árs frá ráðningardegi.

Um þessa ráðningu fór fram umr. utan dagskrár s.l. fimmtudag og um hana vil ég segja þetta:

Það var gagnrýnt að ég skyldi hafa ráðið flokksbróður minn til þessa starfs. Hins vegar hefur út af fyrir sig ekki verið sagt af nokkrum, að ég hygg, að troðið hafi verið á rétti annars, að gengið hafi verið fram hjá neinum öðrum sem hefði átt í sjálfu sér meiri rétt til starfans, heldur hefur það verið gagnrýnt að um flokksbræður og skoðanabræður er að ræða.

Í framhaldi af því, sem hv. þm. Pétur Sigurðsson sagði um starf umboðsmanns, segi ég þetta. Ég þekki það. Að ég hygg árið 1972 var flutt af þáv. hæstv. dómsmrh. vandað frv. um umboðsmann Alþingis. Slíkar hugmyndir hafa verið fluttar eftir það, en ekki náð fram að ganga. Það er rétt, að hinu nýja starfi er ætlað að ganga í sömu átt, að svo miklu leyti sem mögulegt er. En vitaskuld er það hv. Alþingis að taka um það ákvörðun hvort starf umboðsmanns Alþingis verður sett á fót. Mín von stendur til þess að þetta starf, svo þröngur stakkur sem því eðlilega er skorinn, geti þróast í sömu átt og hér hefur verið rætt um.

Að því er þessa embættisveitingu og aðrar almennt varðar er það svo, að það situr ríkisstj. í landinu með þeim réttindum og þeim skyldum sem slíku fylgja.

Auðvitað er öllum ljóst að aðstæður eru óvenjulegar. Allir hljóta að vera sammála um að því fyrr sem ástandið verður eðlilegt, þeim mun fyrr sem að baki ríkisstj. standi þingmeirihl., þeim mun betra. Menn þekkja við hvaða aðstæður þessi ríkisstj. var mynduð. Menn þekkja líka að hún nýtur ekki meiri hl. og hefur sagt af sér. Ég endurtek: Þess vegna er því betra sem stjórnmálaástandið verður fyrr eðlilegt, svo sem þingræðishefðir gera ráð fyrir.