15.01.1980
Sameinað þing: 11. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 323 í B-deild Alþingistíðinda. (397)

57. mál, umboðsfulltrúar dóms- og kirkjumálaráðuneytisins

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég þarf aðeins að koma á framfæri ofurlítilli leiðréttingu.

Það var rétt, sem kom fram í máli manna um flutning þáltill. um stofnun embættis umboðsmanns Alþingis, og samkv. þeirri till. skyldi láta semja frv. um það efni og leggja fyrir næsta Alþ. á eftir. Það gerði ég, eins og reyndar kom fram í máli hv. fyrirspyrjanda, Péturs Sigurðssonar. En ein meginvilla kom fram hjá honum og að auki hjá hæstv. dómsmrh. Ég lagði það frv. vitaskuld ekki fram sem dómsmrh., heldur sem forsrh. Málefni Alþingis heyra undir forsrh., en ekki dómsmrh. Það skeði svo að uppstytta varð 1974, eins og menn muna, og ný stjórn kom til valda. Hæstv. þáv. forsrh. endurflutti ekki það frv. sem ég hafði flutt á sínum tíma, en aftur á móti tóku tveir þm. það upp.

Mjög nauðsynlegt er að menn geri sér grein fyrir þessu, þó að mönnum sýnist það kannske ekki mikið atriði, vegna þess að það, sem ég tel hættulegt við stofnun starfs umboðsfulltrúa í dómsmrn., væri ef það yrði til þess að tefja fyrir stofnun embættis umboðsmanns Alþingis.

Hæstv. dómsmrh. lét að því liggja, að hann vonaðist til að það starf, sem hann hefur sett á stofn, gæti orðið vísir að stofnun embættis umboðsmanns Alþingis. Þessu tvennu má ómögulega rugla saman. Þarna er um gersamlega ólík og ósambærileg fyrirbæri að ræða. Stofnunin umboðsmaður Alþingis, sem á sér hliðstæðu á Norðurlöndum, er embætti sem sjálf þjóðþingin hafa sett á stofn. Umboðsmaðurinn á að vera trúnaðarmaður þjóðþinganna gagnvart stjórnsýslunni, er gerður sem allra óháðastur í starfi og algerlega óháður stjórnsýslunni, sem er auðvitað sjálfsagt mál, vegna þess að hann á að hafa eftirlit með henni. Einstaklingar, sem telja að brotinn sé á sér réttur að einhverju leyti af hálfu stjórnsýslumanna, geta leitað til þessa umboðsmanns. Það er auðvitað reginmunur á því að sett sé upp starf upplýsingafulltrúa í rn., sem út af fyrir sig getur verið ágætt. Heitið skiptir ekki máli í þessu sambandi, en mér fyndist öllu réttara að kalla hann það en ekki umboðsfulltrúa.

Auðvitað getur embættið átt fullan rétt á sér. Ég veit og skil að það getur létt ráðh. verkin, því að óhjákvæmilegt er að í þeim stóra hópi, sem vill alltaf ná tali af ráðh., séu fáeinir þráhyggjumenn sem kannske væri freisting að geta vísað til aðstoðarmanns eða upplýsingafulltrúa. En hvað um það, eins og ég segi getur embættið átt rétt á sér. En slíkur maður, sem er embættismaður innan stjórnsýslunnar, lýtur einhverju tilteknu rn., getur aldrei nálgast stöðu umboðsmanns þjóðþings. Það er reginmisskilningur sem þarna kemur fram.

Ég hef ekkert við það að athuga að sett sé upp þetta starf í dómsmrn. Auðvitað hefur ráðh. rétt til að ráða sér aðstoðarmann og hefði alveg eins getað valið þá leiðina. En ég er á móti að því sér ruglað saman við embætti umboðsmanns Alþingis.

Ég er alveg sömu skoðunar og áður fyrr, að ég tel mjög nauðsynlegt að stofna embætti umboðsmanns Alþingis. Þess gerist æ meiri þörf eftir því sem stjórnsýslan verður flóknari og það verður erfiðara fyrir einstaklinginn að rata í því völundarhúsi og honum gengur erfiðlega að ná ímynduðum eða raunverulegum rétti sínum. Þess vegna er mjög nauðsynlegt að sett sé á fót slíkt embætti, og að mínum dómi mega menn ekki horfa í kostnað við slíkt. Ég álít að horfa mundi til mikils réttaröryggis hér á landi alveg eins og á Norðurlöndunum, ef það væri gert, þar sem þessi stofnun hefur orðið ákaflega mikilsvirt og þýðingarmikil og orðið til þess að leiðrétta ýmsan misskilning, sem á sér stað, og jafnvel kannske til þess að lyfta vissum skuggum af hinu margumtalaða kerfi. Ég vil því að endingu undirstrika það, að þrátt fyrir stofnun þessa starfs í dómsmrn. má Alþ. ekki á neinn hátt láta undir höfuð leggjast að vinna að því að sett verði á stofn embætti umboðsmanns þjóðþingsins. Ég er sannfærður um að þó að kannske sé erfitt að meta það til beinharðra peninga muni það borga sig.