15.01.1980
Sameinað þing: 11. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 324 í B-deild Alþingistíðinda. (398)

57. mál, umboðsfulltrúar dóms- og kirkjumálaráðuneytisins

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Vegna orða hæstv. ráðh. áðan um, að sú stöðuveiting, sem verið er að ræða, eigi sér stoð í lögum nr. 97/1974, vil ég gera grein fyrir því út á hvað þau lög ganga og eru þau þó flestum þm. kunn. Þessi lög heita, með leyfi forseta: „Lög um eftirlit með ráðningu starfsmanna og húsnæðismálum ríkisstofnana“. Segir svo í 1. gr., með leyfi forseta:

„Óheimilt er að fjölga föstum starfsmönnum í þjónustu ríkisins eða ríkisstofnana, nema að fengnu samþykki ráðningarnefndar ríkisins, sbr. 6. gr. Ákvæði þessarar greinar gilda þó ekki um þær stöður, sem stofnað er til með lögum“.

Og í síðari mgr. 6. gr. segir:

„Nú óskar rn. eftir fjölgun fastra starfsmanna við rn. eða ríkisstofnun á þess vegum án þess að fé hafi verið veitt til þess á fjárlögum eða heimild til launagreiðslu sé fyrir hendi, og skal þá rn. senda beiðnina til ráðningarnefndar til úrskurðar.“

Og í 7. gr., in fine:

„Synji ráðningarnefnd erindi um fjölgun starfsmanna samkv. 1. og 6. gr., getur ráðh. sá, sem hlut á að máli, borið ágreininginn undir ríkisstj., sem tekur endanlega ákvörðun um málið.“

Ég hef aðeins spurst fyrir um þetta mál. Mér hefur verið sagt að bremsunefndin, þ.e. þessi ráðningarnefnd, telji að hún hafi tekið við skipun ríkisstj. í þessu máli, það hafi ekki haft neinn tilgang fyrir hana að ræða um málið, heldur hafi þetta nánast verið formsatriði, skráningaratriði, og hún hafi tekið þannig við fyrirmælum ríkisstj. Það mun hins vegar vera um deilt, hvort ven ja sé að fara svona að þegar þing stendur yfir. Mér skilst að ýmsir hv. þm. hafi aths. við slík vinnubrögð og telji að teita eigi til fjvn. þegar þing situr.

Þetta vildi ég láta koma fram. Ég get sagt það annars um þetta mál, að ég er sammála því sem hér hefur komið fram um nauðsyn þess að stofnað sé til sjálfstæðs og óháðs embættis um umboðsmann eða ármann Alþingis, eins og sumir hafa viljað kalla þetta, og get tekið undir öll þau orð.

Ég vil annars óska hæstv. ráðh. til hamingju með að segja stríð á hendur þeim sem stöðugt rægja stjórnmálamenn og brigsla þeim um siðferðisskort. Hæstv. dómsmrh. hefur nú sýnt bæði dirfsku og dug í hinu nýja hlutverki sínu sem fulltrúi kerfisins og verndari möppudýranna í kerfinu. Til að sýna svart á hvítu að hann láti ekki undan kröfum ýmissa siðferðispostula réð hæstv. ráðh. fallinn flokksbróður sinn í starf sem engin lagaheimild var fyrir. Enn fremur hefur hæstv. ráðh. með þeirri ráðningu staðfest þá siðlegu lýðræðisþróun, að ráðh. í starfsstjórn geti stofnað til og veitt stöðu sem Alþ. hefur ekki séð ástæðu til að festa í lög né veita fjármagn til. Við þessa sögulegu viðburði hlýtur þ jóðin að hugsa til gamals orðtaks: „Batnandi manni er best að lifa.“