15.01.1980
Sameinað þing: 11. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 325 í B-deild Alþingistíðinda. (399)

57. mál, umboðsfulltrúar dóms- og kirkjumálaráðuneytisins

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég vil í upphafi og í beinu framhaldi af ræðu hv. þm. Friðriks Sophussonar óska nánari skýringa frá hæstv. ráðh. á þeim. heimildum eða því heimildarleysi, sem hér er borið á hann gagnvart þessari stöðuveitingu, með sérstöku tilliti til þess, að hæstv. ráðh. upplýsti áðan að ráðningarnefnd hefði samþ. þessa stöðu 3. jan. eða um það bil viku eftir að hæstv. ráðh. gekk sjálfur frá ráðningunni. M.ö.o.: hæstv. ráðh. gefur út opinbera tilkynningu og embættisbréf viku áður en ráðningarnefnd samþykkir að setja slíka stöðu á fót. Ég vil enn fremur ítreka það, að þessi aðferð hæstv. ráðh. er í algerri andstöðu við þau sjónarmið sem hann og aðrir flokksbræður hans héldu fram hér árið 1978, þegar til umr. kom ráðning blaðafulltrúa ríkisstj., þannig að hér er ekki bara brotið einu sinni heldur margoft gegn fyrri yfirlýsingum. Öll stóru orðin um fjvn. Alþingis og fjárveitinganefndarvaldið, sem hér voru viðhöfð þegar ráðið var í stöðu blaðafulltrúa ríkisstj., hljóma nú allundarlega þegar þessi ráðning er höfð í huga. Alþ. á kröfu á því, að hæstv. ráðh. skýri nánar samskipti sín við ráðningarnefndina.

Það er misskilningur hjá hv. þm. Pétri Sigurðssyni, að ég hafi með því að kveðja mér hljóðs utan dagskrár viljað ganga sérstaklega á rétt hans fsp., og hefði látið það koma skýrt fram, ef hæstv. forseti hefði leyft áframhaldandi umr. á sínum tíma. Tilefni þess, að ég kvaddi mér hljóðs, var fyrst og fremst það, að mér fannst reynslan og blaðafréttir benda til þess, að sú bráðabirgðaríkisstjórn, sem nú sæti, ætlaði sér, meðan hún sæti sem bráðabirgðastjórn, að gerast allumsvifamikill í embættaveitingum. Það var fyrst og fremst til þess að gripa strax í þá tauma sem ég kvaddi mér hljóðs vegna embættisveitingar hæstv. dómsmrh. og hæstv. félmrh. Málflutningur minn snerti á engan hátt launakjör Finns Torfa Stefánssonar eða annað sem kom inn á fsp. hv. þm. Péturs Sigurðssonar. Mér fannst að þingið gæti ekki setið hér dag eftir dag aðgerðalaust og horft upp á það, að núverandi bráðabirgðaríkisstjórn, sérstaklega eftir hástemmdar fyrri yfirlýsingar forustumanna Alþfl., ætlaði nú að ganga á það lagið að halda áfram viðtækum embættisskipunum, enda kom það á daginn, þegar hæstv. félmrh. kom hér í stólinn, að hann lýsti yfir að hann mundi bara halda áfram að skipa í embætti eins og hann gæti meðan hann sæti sem bráðabirgðaráðherra. Þar fengu menn hina nýju siðgæðisyfirlýsingu Alþfl.

Hæstv. félmrh. hefur ekki heldur látið sitja við orðin tóm, vegna þess að í blöðum í dag er birt frétt um að hann hafi með skipun formanns flugráðs tryggt Flugleiðum meiri hluta í flugráði. Það er satt að segja merkileg embættisathöfn hjá bráðabirgðaráðherra að tryggja stærsta hagsmunaaðilanum í flugmálum meiri hluta í flugráði með því að skipa framkvæmdastjóra flug- og tæknideildar Flugleiða formann flugráðs. Þannig má nefna fjölmörg önnur dæmi um hugsanlegar embættaveitingar og raunverulegar embættaveitingar þessarar bráðabirgðaríkisstj. Það hlýtur að vera krafa Alþingis, að þeir ráðh., sem hér eru, lýsi því skilyrðislaust yfir að þeir ætli að hætta þessari iðju.

Þær afsakanir, sem hæstv. dómsmrh. hafði hér uppi fyrir því að skipa Finn Torfa Stefánsson í það embætti sem er hér til umr., voru harla léttvægar, vegna þess að þar rakst hvað á annars horn í þeim efnum og ekkert samræmi í þeim málflutningi. T.d. nefndi ráðh. það, að hann hefði gert þá undantekningu að gera hér ráðningarsamning til eins árs, þetta væri bara embættisgerningur sem gilti í eitt ár. Hins vegar sló hann sér á brjóst og sagði að hann hefði ekki veitt prófessorsembætti, þó að allir sem til þekkja, viti að það er nánast hefð að ganga þannig frá málum, að í upphafi sé eingöngu ráðið til eins árs. Það er ekki nokkurt samræmi í afstöðu hæstv. ráðh. í því að neita um og hæla sér af að setja ekki í prófessorsembætti á sama tíma og hann skipar til eins árs í þetta umrædda embætti.

Enn fremur verð ég að segja það, að skilgreiningar hæstv. ráðh. á því, hvað sé pólitískur gæðingur, stangast allrækilega á við þær skilgreiningar sem hann notaði áður. Sú skilgreining, sem hann beitti fyrir sig hér í vörninni, fól það í sér að pólitískur gæðingur væri sá sem misnotaði aðstöðu sína, eftir að hann fengi embætti, til þess að hygla flokksbræðrum sínum í embættisverkum. Þetta er algerlega ný skilgreining. Hér er alls ekki sú sama skilgreining og hæstv. ráðh. notaði sjálfur þegar hann fjallaði um veitingu húsameistaraembættis ríkisins hjá Geir Hallgrímssyni á sínum tíma, enda ætlar hæstv. ráðh. vart að telja mönnum trú um að húsameistari ríkisins teikni fallegri hús fyrir ríkisstjórn Sjálfstfl. en fyrir ríkisstjórnir annarra flokka.

Nei, staðreyndin er sú, að þetta hugtak er hér notað í sömu merkingu og áður, að menn taka flokksbróður fram yfir aðra umsækjendur, og það er eingöngu það sem verið er hér að tala um.

Það er alger misskilningur hjá hæstv. ráðh., sem hann sagði áðan, að það hefði enginn dregið í efa að hann hefði valið rétta manninn. Ég dreg það t.d. fyllilega í efa. Vegna þess að hæstv. ráðh. lýsti því yfir í ræðu sinni fyrir helgina, að hann hefði sjálfur kveðið upp hæfnisdóm yfir þessum umsækjendum, þá vil ég mælast til þess, að hæstv. ráðh. skýri þingheimi frá því, hvaða hæfileika Finnur Torfi Stefánsson hefur umfram t.d. Björn Baldursson, Pál Skúlason og Þorstein A. Jónsson, sem sóttu um þessa stöðu.

Ræðutími minn er sjálfsagt úti. Ég reikna með að bjöllusláttur forseta gefi það til kynna. En ég vil aðeins að lokum taka undir með hv. þm. Ólafi Jóhannessyni og þeim sjónarmiðum sem koma fram í grein eftir Steingrím Gaut Kristjánsson í Morgunblaðinu 10. jan., að allur málflutningur hæstv. ráðh. um það, að þessi embættisveiting sé skref í þá átt að koma upp umboðsmanni Alþingis, er algerlega út í hött og eingöngu til þess fallin að verja slæman málstað með því að taka sér gott mál í hendur. Embætti umboðsmanns Alþingis er allt annarrar tegundar, eins og hv. þm. Ólafur Jóhannesson rökstuddi rækilega og það má alls ekki blanda því saman við þá fulltrúastöðu í rn. sem nú hefur verið sett hér á laggirnar. Þar að auki á það ekkert skylt við það sjónarmið Finns Torfa Stefánssonar, sem hann lýsti yfir í útvarpi þjóðarinnar þegar hann tók við þessu embætti, að hann liti svo á að eðlilegt væri að flokkspólitísk sjónarmið réðu þessari ráðningu. Þessi nýi starfsmaður rn. er þeirrar skoðunar samkv. eigin yfirlýsingum, að eðlilegt sé að flokkspólitísk sjónarmið ráði ráðningu hans í þetta starf.

Herra forseti. Það er margt fleira sem mætti segja um þetta mál. Það er nú einu sinni þannig, að í smáu málunum koma stundum í ljós hin stóru sinnaskipti. Það er einmitt það sem við erum að horfa hér upp á, ekki bara dag eftir dag, heldur oft á dag, í þeim hamskiptum sem ráðherrar Alþfl. taka hér hver á fætur öðrum og hæstv. fjmrh. tók hér fyrr í dag, að hinn fagri skjöldur er nú orðinn ærið flekkaður. Ég verð að segja það, að sá hljóðláti málflutningur, sem hæstv. dómsmrh. hafði bæði hér í dag og einnig fyrir helgi sér til varnar, minnir mig á frásögn í frægu kvæði eftir Einar Benediktsson, þar sem fjallað er um valdsmann nokkurn úr Reykjavík sem í upphafi kvæðisins lýsir yfir og gerir að sínu kjörorði:

Nú tek ég sjálfur í streng, þess skal minnst.

Ég uppræti hneykslið hvar sem það finnst.“

En í lok kvæðisins er farið fyrir þessum valdsmanni eins og nú er komið fyrir hæstv. dómsmrh.:

„Í minnum er höfðingja heimreiðin enn.

Þeir hurfu í messulok allir senn.

Og það voru hljóðir, hógværir menn,

sem héldu til Reykjavíkur.“