15.01.1980
Sameinað þing: 11. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 328 í B-deild Alþingistíðinda. (401)

57. mál, umboðsfulltrúar dóms- og kirkjumálaráðuneytisins

Fyrirspyrjandi (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Þrátt fyrir aðvörun, sem mér barst á borð mitt í bundnu máli og hljóðar svo, með leyfi forseta:

Auðvitað hann er að plata

eins og framast getur,

en úlfalda úr alikrata

eigi ger þú, Pétur —

ætla ég nú samt að bæta örfáum orðum við það sem ég sagði áðan.

Að sjálfsögðu er allt rétt sem hv. þm. Ólafur Jóhannesson sagði um þetta mál í sinni ræðu, og auðvitað bar mér að segja frá því, að það hefði verið forsrh. sem flutti málið. Það er kannske nokkur fljótfærni í því hjá mér að geta ekki um það, en hann gegndi dómsmrh.-embættinu líka og var forsrh. og kirkjumálaráðh. Auðvitað er það alveg rétt hjá honum, að þetta tilheyrir forsrh.embættinu. Undir orð hans um frv. sjálft og málið tek ég heils hugar, en vil aðeins láta það koma fram, að ég biðst afsökunar á því að þetta skyldi ekki koma fram.

En hv. þm. Ólaf Ragnar Grímsson bið ég ekki afsökunar, vegna þess að ég held enn þá við það, að þetta upphlaup hans sé ekki annað en sýndarmennska. Og það er sama sýndarmennskan og kom fram á ljósmynd, sem hann hefur að sjálfsögðu pantað og birtist í Þjóðviljanum fyrir skömmu, af fundi farandverkamanna. Þar trónaði þessi háskólaprófessor fremstur á myndinni, á miðri mynd, og það skilja auðvitað afskaplega fáir, hvað hann var þangað að gera, þegar haft er í huga að þangað var aðeins boðið farandverkafólki og svo forustumönnum úr þeim launþegasamtökum sem málið varðar. En þessi hv. þm. hefur líklega misskilið fundarboðið og haldið að þeir stjórnmálamenn, sem tilheyra farandriddurum stjórnmálanna, ættu að mæta þarna líka. Það er mikill misskilningur.

Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans, en þau eru ekki alveg öll komin fram enn þá. Ég tel enga goðgá þótt fram komi hér í Sþ. svör við því sem ég bað um að svarað yrði, en það er í 3. lið, um byrjunarlaun. Hæstv. ráðh. og flokksbræður hans eru meðal fremstu baráttumanna fyrir láglaunafólk í þessu landi, og ég vil gjarnan að það fái að sjá hvernig þeir búa í launum að þessum skjólstæðingi sínum, sem á að gæta hagsmuna þess, og að það komi fram hér í krónutölu í svari ráðh. hvað þessi maður fær í byrjunarlaun. Að sjálfsögðu fylgir embætti hans margs konar annar kostnaður. Það er sett undir hann skrifstofa, sjálfsagt ritari, og vinnutíminn er sjálfsagt ekki langur. Hann er sjálfsagt ekki jafnlangur og hjá togarasjómönnum eða verkafólki við höfnina í Reykjavík. En það væri fróðlegt að vita um það um leið, hvað langur vinnutími fylgir þeim launum sem þessum nýja umba dómsmrh. eru boðin.