15.01.1980
Sameinað þing: 11. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 330 í B-deild Alþingistíðinda. (404)

57. mál, umboðsfulltrúar dóms- og kirkjumálaráðuneytisins

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Það mun hafa verið fyrir rúmu ári að þáv. ríkisstj. réð blaðafulltrúa. Hún hafði þá ekki heimild til þess í fjárl. og sú ráðning hafði ekki komið fyrir ráðningarnefnd, en sú ríkisstj. gerði þó till. um það í fjárlagafrv. að þessi staða yrði samþykkt. Hæstv. núv. dómsmrh. og hæstv. núv. fjmrh. komu þá hér í ræðustól og gagnrýndu það efnislega mjög harðlega, að Alþ. og fjvn. hefðu ekki getað fjallað um þessi mál. Það var kjarninn í þeirra gagnrýni.

Aftur á móti með þessa stöðu er það ekki einasta að ekki er til fyrir henni heimild í lögum, um greiðstu launa og kostnaðar við hana er engin till. í hvorugu fjárlagafrv. sem fyrir hv. fjvn. liggur. Það er hvergi neitt til um þessa ráðningu annað en ákvörðun ríkisstj. og það, að mér skilst, að ráðningarnefnd hafi fallist á að ríkisstj. væri búin að ráða í þessa stöðu. Mér finnst engin furða þótt hv. alþm. séu allgáttaðir yfir þessum breyttu viðhorfum hjá hæstv. ráðh., bæði hæstv. dómsmrh. og fjmrh., í þessum stöðuveitingamálum.

Ég vil — af því að ég ætla ekki að gera þetta mál að stórmáli af minni hálfu — aðeins benda á þau miklu sinnaskipti sem þarna hafa orðið, og undirstrika það, sem ég sagði þá, að ég tel með öllu óhæft að þannig sé að ráðningum ríkisstarfsmanna staðið. Ef svo væri, þá hefði Alþ., sem hefur fjárveitingavaldið, enga stjórn á því, hvernig ríkisbáknið þenst út.

En ég ætla að vekja athygli á einu. Ef hæstv. fjmrh. er hér einhvers staðar staddur, þá ætlaði ég að spyrja hann að því, hvort hann teldi sig hafa heimild til þess að greiða laun og kostnað við þessa stöðu. Í lögunum, þar sem Alþ. veitir ráðh. bráðabirgðaheimildir til greiðslu úr ríkissjóði á yfirstandandi ári, a.m.k. fyrsta einn og hálfa mánuðinn, stendur: „Ráðh. er heimilt að greiða til bráðabirgða í samræmi við ákvæði fjárlaga fyrir árið 1979, að teknu tilliti til almennrar verðlagsþróunar, öll venjuleg rekstrargjöld og önnur gjöld er talist geta til venjulegra fastra greiðslna ríkisins.“

Að minni hyggju er þannig að orði kveðið í þessum heimildarlögum, að það er alveg ótvírætt að fara skal eftir fjárl. 1979. Og það er ekki einungis að engar heimildir eru þar til greiðslu á launum eða kostnaði við þetta starf, heldur er ekki einu sinni till. um það í hvorugu því frv. til fjárl. sem liggja fyrir hv. fjvn.