17.12.1979
Neðri deild: 3. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 25 í B-deild Alþingistíðinda. (41)

8. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Fjmrh. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Frv. þetta er 8. mál þessarar hv. d. og á þskj. 8 og er frv til l. um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Samkvæmt lögum nr. 112 frá 1978 var lagður sérstakur skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði á árinu sem nú er að líða. Markmið þessarar skattlagningar var m.a. að reyna að sporna við gegndarlausri fjárfestingu í skrifstofu- og verslunarhúsnæði og reyna þess í stað að beina fjárfestingunni á arðbærari brautir.

Sjónarmið þau, sem bjuggu að baki lögum nr. 112 frá 1978, eru enn í fullu gildi. Lögin eru hins vegar tímabundin og eiga að falla úr gildi nú um áramót. Í fjárlagafrv. því fyrir árið 1980, sem nú liggur fyrir þinginu, er gert ráð fyrir að framhald verði á skattlagningu þessari. Ég vil taka það fram, að í fjárlagafrv. fyrrv. ríkisstj., sem lagt var fram á Alþingi í haust, var einnig gert ráð fyrir að þessi skattur yrði framlengdur. Af þessum sökum er frv. það flutt sem hér liggur fyrir, en það er efnislega nær óbreytt frá lögum nr. 113 frá 1978. Nokkrar minni háttar orðalagsbreytingar hafa þó verið gerðar með því markmiði að gera ákvæði þess skýrari, en efnisbreytingar á málinu eru engar. Um þessar orðalagsbreytingar er það að segja, að bæði koma þær ljóslega fram við samanburð á frv. og gildandi lögum og eins verður að sjálfsögðu gerð nákvæmari grein fyrir þeim í þeirri n. sem væntanlega fær þetta mál.

Samkv. skattskrá fyrir árið 1979 nam álagning skatts á skrifstofu- og verslunarhúsnæði 1030 millj. kr. Áætlað er að álagning þess skatts á árinu 1980, verði frv. að lögum, nemi 1500 millj. kr. á því ári.

Að lokinni 1. umr. um frv. þetta legg ég svo til að því verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn. Ég legg mikla áherslu á að frv. þarf endilega að afgreiða fyrir ármót, þ.e.a.s. á þeim stutta tíma sem eftir lifir af starfstíma Alþingis fyrir jól.