15.01.1980
Sameinað þing: 12. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 343 í B-deild Alþingistíðinda. (415)

15. mál, málefni hreyfihamlaðra

Flm. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Á þskj. 15 hef ég leyft mér að flytja till. til þál. um málefni hreyfihamlaðra sem hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta gera úttekt og kostnaðaráætlun um nauðsynlegar endurbætur á opinberu húsnæði til að auðvelta hreyfihömluðum aðgang, og að settar verði nauðsynlegar reglugerðir til skipulegra aðgerða í þessu skyni.“

Ég tel ástæðu til að taka fram, að það er hægt að fagna þeim vaxandi áhuga og umræðum um þessi mál almennt sem hafa orðið til að opna augu fjölmargra fyrir því, hversu lítið hefur verið tekið tillit til þeirra mörgu í okkar þjóðfélagi sem hafa orðið fyrir áföllum og eru því hreyfihamlaðir. Vil ég sérstaklega vekja athygli á því, hversu samtök fatlaðra hafa staðið vel að því að krefjast réttar síns í þjóðfélaginu og sýna fram á þörfina fyrir að stjórnvöld og þjóðfélagið í heild geri ráðstafanir til þess að þetta fólk njóti almennra mannréttinda hér á landi.

Þörfin fyrir samhjálp er víða og mikil, um það verður ekki deilt. Og á síðasta Alþ. náðist víðtæk samstaða um heildarlöggjöf um málefni þroskaheftra sem mun vissulega marka tímamót ef rétt verður á haldið. Nauðsyn ber til að hvetja stjórnvöld til virks stuðnings við alla viðleitni til að skapa fötluðu fólki aðstöðu til að taka þátt í daglegu lífi og til að gera mögulegt að nýta starfskrafta þess og hæfileika fyrir þjóðfélagið við ýmis störf. Endurhæfing, starfsþjálfun og atvinnuskilyrði eru að sjálfsögðu þýðingarmikill þáttur í þessu öllu, en meira þarf til.

Það hefur komið fram, að það virðist hafa farið fram hjá flestum, er séð hafa um hönnun framkvæmda og byggingarstarfsemi í landinu, að taka tillit til hreyfihamlaðs fólks til að komast í og um flestar byggingar. Dæmin um þetta blasa svo til alls staðar við. Í nýjum byggingarlögum er þetta að vísu leiðrétt, þannig að gera má ráð fyrir að hér eftir verði fullt tillit tekið til þessa við hönnun og byggingu nýrra mannvirkja. Verður að sjá svo um að reglugerðir og byggingarsamþykktir taki af allan vafa um þetta atriði. Þó er það svo, að í dag virðist eftirlit að þessu leyti til vera mjög slakt. Arkitektar og byggingaraðilar virðast ekki enn vera búnir að skilja þetta mál til hlítar eða nauðsyn þess að farið sé eftir byggingalögum hvað þetta varðar. Enn eru dæmi þess, að verið er að byggja opinber hús með 60 cm hurðum, og enn eru dæmi þess, að verið er að byggja hús þar sem snyrtiaðstaða fyrir fatlað fólk er ekki fyrir hendi. Þetta eru dæmi um það, að hér er ekki enn rétt á málum haldið þrátt fyrir nýja löggjöf um þetta efni.

En brýnasta þörfin í dag að mínu mati er að framkvæma nauðsynlegar breytingar á eldri byggingum og þeim sem nú eru í smíðum, ekki síst opinberum byggingum, svo sem heilsugæslustöðvum, skólum, samkomuhúsum, söfnum, verslunum o.s.frv., til þess að auðvelda þessu fólki greiðan aðgang: Hér þarf til að koma reglugerð og áform um skipulegt átak til framkvæmda, sem tekið verði tillit til við gerð fjárlaga ríkisins og fjárhagsáætlana sveitarfélaga.

Sérstök nefnd fatlaðra, ferlinefnd fatlaðra, hefur unnið að þessu máli sérstaklega og hefur sent frá sér erindi til ýmissa aðila um þetta mál. Í einu slíku erindi segir ferlinefndin svo um þetta mál, með leyfi hæstv. forseta:

„Ferlinefnd fatlaðra leitar liðsinnis yðar til þess að auðvelda fötluðu og öldruðu fólki að komast leiðar sinnar. Þegar skammtíma- og varanleg hreyfihömlun gerir armstafi eða hjólastóla að nauðsynlegu hjálpartæki koma oft í ljós annmarkar á húsnæði og umhverfi, svo sem of þröngar dyr og of háir þröskuldar, of lítil salerni, stigar og tröppur, þar að auki oft án handriðs, of þröng lyfta og tröppur að lyftu, gangstétt og bílastæði með föstu slitlagi er ekki í námunda við útidyr. Ef breyta á gömlu húsnæði eða byggja nýtt, hvort heldur er um að ræða íbúðar-, atvinnu- eða þjónustuhúsnæði, er nauðsynlegt að muna eftir hreyfihömluðu fólki áður en framkvæmdir hefjast.

Við biðjum yður vinsamlegast að hafa vandamál hreyfihamlaðra í huga og treystum á liðveislu yðar.“ Þannig hafa þeir, sem fyrst og fremst fjalla um þetta atriði, þ.e. ferlinefnd fatlaðra, reynt að vekja athygli á málinu á víðtækan hátt í ýmsum stofnunum og hjá opinberum aðilum í okkar þjóðfélagi. Þess vegna er það ekki vansalaust, að þrátt fyrir þá athygli, sem þessir aðilar hafa vakið á þessu máli, skuli nú vera liðin líklega rúmlega tvö ár frá því að nýja reglugerðin var sett án þess að hafnar hafi verið skipulegar framkvæmdir á þessu sviði, svo augljóst sé. Og víða er það þannig, eins og flestir hv. alþm. hafa e.t.v. rekið sig á, að þar sem lyftur eru í opinberum húsum og húsum almennt að það eru þrjár eða fjórar tröppur að lyftunni, sem gerir fötluðu fólki, ekki síst fólki í hjólastólum, ókleift að komast að lyftunum.

Ég gæti nefnt hér dæmi um aðgerðaleysi stjórnvalda, sem ég kalla svo, í sambandi við eina opinbera byggingu hér í höfuðborginni, og á ég þar við Þjóðminjasafnið. Þegar þetta myndarlega hús var byggt var það þó það vel hannað, að í því er lyftuhús. En í það hefur aldrei verið sett lyfta. Vakið var máls á því í hv. fjvn. á s.l. ári, að þarna þyrfti að gera nauðsynlegar úrbætur og á hvern hátt fjvn. gæti stuðlað að því að svo yrði. Þá kom það í ljós, að til var lyfta á vegum Innkaupastofnunar ríkisins sem ekki var áform um að ráðstafa. Það var samstaða í fjvn. að óska eftir að samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir undir forsæti forstöðumanns, sem er hjá Innkaupastofnun ríkisins, léti gera athugun á því s.l. haust, hvort ekki væri hægt að setja þessa lyftu í Þjóðminjasafnið, til þess að hafnar væru þó a.m.k. raunhæfar aðgerðir, sem hægt væri að ráða við fjárhagslega. Því miður blasir sú staðreynd við í dag, að ekkert hefur verið gert í þessu máli. Ég verð að harma það og hef ákveðið að taka þetta mál upp aftur í fjvn., þar sem hér er augljóslega um möguleika að ræða til þess að leysa vandann að því er þessa byggingu varðar.

Og ég nefni húsið sem við stöndum í hér, Alþingishúsið. Það hefur oftar en einu sinni verið talað um það opinberlega, að gera ætti nauðsynlegar úrbætur á þessu húsi eða við þetta hús, þannig að hreyfihamlað fólk ætti hér greiðan aðgang.

Það væri hægt að tala hér langt mál um þessi atriði og draga fram mýmörg dæmi úr okkar þjóðfélagi sem sanna tvennt: Í fyrsta lagi hugsunarleysi sem hefur verið hér ríkjandi árum saman að þetta væri ekkert vandamál, og í öðru lagi hve staðið hefur verið rangt að verki við ýmsar opinberar byggingar og framkvæmdir hvað þetta varðar.

Með þessari þáltill. vil ég leggja áherslu á raunhæfar aðgerðir í þessum málum, fyrst og fremst að gera nú átak til að lagfæra eldri byggingar og ýmsa aðstöðu við byggingar, sem hægt er að gera í mörgum tilfellum án þess að miklar fjárhæðir þurfi til. Þarna þarf að gera skipulegt átak. Ríki og sveitarfélög þurfa að taka á þessu máli sameiginlega í mörgum tilfellum. Enn fremur vil ég leggja áherslu á það, að ef vel tekst til í sambandi við opinberar byggingar, opinbert húsnæði, þá mun það vissulega hafa áhrif til aðgerða í einkahúsum, á því er enginn vafi.

Það þarf t.d. að láta hanna hentugt hjálpartæki til þess að nota við tröppur og stiga, þar sem lyftuútbúnaði verður ekki við komið, og þannig mætti nefna mörg dæmi. Ég er viss um að þeir aðilar í ferlinefnd fatlaðra, sem hafa verið að berjast fyrir þessu máli, gætu bent á margar nýjungar og margar hugmyndir sem koma mætti í framkvæmd án þess að það kostaði stórfé.

Ég tel sjálfsagt að fela embætti húsameistara ríkisins að gera þá úttekt og kostnaðaráætlun sem þáltill. fjallar um. Þar er til opinber stofnun með sérmenntuðum mannafla sem hefur ekki, að því er séð verður, sérstaklega fastmótað verkefni, en er þó allfyrirferðarmikil í fjármálum ríkisins. Og það væri hægt að setja stofnunina tafarlaust í þetta verkefni. Ég vil skora á hæstv. ríkisstj. að hrinda þessu máli í framkvæmd, því að ég treysti því, að hv. alþm. séu mér sammála um að afgreiða þessa þáltill. greiðlega sem ályktun Alþingis.

Herra forseti. Ég legg svo til að þessu máli verði að umr. lokinni vísað til allshn.