15.01.1980
Sameinað þing: 12. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í B-deild Alþingistíðinda. (419)

15. mál, málefni hreyfihamlaðra

Flm. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég vil lýsa ánægju minni yfir þeim undirtektum, sem þessi þáltill. hefur fengið, og alveg sérstaklega gleðjast yfir því, að sá hópur þm., sem hér hefur talað, skyldi taka til máls.

Það sýnir sig, að það er svo um flest slík mál, sem eru áhugamál margra, að það er þörf, ekki síst í okkar þjóðfélagi, að taka þau til meðferðar alltaf annað slagið til þess að vekja athygli á þeim góðu málum. Ég held að um málið í heild sé að verða hugarfarsbreyting hjá þjóðinni. Menn eru farnir að átta sig á því, að hreyfihamlað fólk er svo fjölmennt í okkar þjóðfélagi, að það er ákaflega þýðingarmikið fyrir þjóðfélagið að virkja starfskrafta þess, um leið og við gerum því kleift að njóta þeirra almennu mannréttinda sem það vissulega á rétt á.

Það væri hægt að halda hér langar ræður um ýmislegt sem kemur fyrir í þjóðfélaginu varðandi einmitt þetta fólk. Ég gæti t.d. sagt langa sögu um mann sem missti bæði hönd og fót fyrir 20 árum, baráttu hans og hans fjölskyldu — hann átti níu börn — fyrir því að halda uppi fjölskyldulífinu og vera megnugur þess að halda heimili. Ég gæti sagt frá þröngsýni manna, sem stjórna stórum bæjarfélögum, gagnvart því að taka eðlilegan þátt í kjörum þessa fólks, þessarar fjölskyldu. En ég get líka sagt frá því, að annað sveitarfélag og fleiri sveitarfélög hafa tekið fullt tillit til þessa og tekið þátt í framfærslu og aðstoð við slíkt fólk. Ég veit til þess, að í mörgum sveitarfélögum er nú forgangur að atvinnu virtur hvað það snertir sem hv. 8. landsk. þm. minntist réttilega á.

Aðalatriðið er það í þessu máli sem öðrum, að það þarf að reyna að þrýsta á það á réttan hátt, að raunhæfar aðgerðir verði hafnar. Í okkar þjóðfélagi í dag er hægt að gera margt til að aðstoða þetta fólk, ekki hvað síst til að komast um byggingar og að byggingum, ef réttur skilningur er fyrir hendi. Ég hef látið kanna þessi mál nokkuð í tveimur sveitarfélögum sem ég hef haft aðgang að, og þar er verið að gera núna áætlanir í beinum tengslum við þær umr. og við þær lagabreytingar sem gerðar voru í sambandi við húsnæðismálið, reynt að gera þar stórt átak til að auðvelda hreyfihömluðu fólki aðgang að byggingum.

Ég ætla að síðustu aðeins að taka undir það sem fram kom hjá hv. 8. landsk. þm. í sambandi við endurskoðun almannatryggingalaga. Á næstsíðasta þingi var afgreidd þáltill. sem ég ásamt fleiri framsóknarmönnum flutti hér á hv. Alþ. um allsherjarendurskoðun á almannatryggingalögunum. Í þeirri þáltill., sem samþ. var, voru ítarlega teknir fram allir helstu agnúar sem hafa verið til umræðu í þjóðfélaginu á almannatryggingum, fjölmörg atriði þar sem tryggingarnar ná ekki þeim tilgangi sem að er stefnt með lögunum. Við tókum þar skýrt fram margvísleg atriði sem við teljum að þyrfti að taka sérstaklega upp við þessa endurskoðun og leggja sérstaka áherslu á. Og ég vil af þessu tilefni endurtaka það, að ég vona að þessi endurskoðun, sem ég veit ekki annað en sé hafin, verði gerð í alvöru, svo að almannatryggingalöggjöfin hér á landi standi undir nafni. Ég skora á hv. alþm. að standa vörð um það, að þarna verði rösklega að unnið, jafnframt því sem við fylgjumst rækilega með því, að gert verði átak í málefnum hreyfihamlaðra.