16.01.1980
Efri deild: 18. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í B-deild Alþingistíðinda. (420)

17. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Guðmundur Bjarnason:

Herra forseti. Það frv., sem hér er til umr. og ber yfirskriftina: Frumvarp til laga um Húsnæðismálastofnun ríkisins, er fyrir margra hluta sakir athyglisvert, og tel ég að ýmsir þættir þess muni marka tímamót í sögu húsnæðismála hér á landi. En mörg atriði þess þarfnast einnig gaumgæfilegrar athugunar og endurskoðunar, og þegar hefur komið fram nokkur gagnrýni á frv. frá þeim hv. þm. sem hafa talað um málið á undan mér. Get ég tekið undir ýmislegt í málflutningi þeirra. Ég ætla að reyna að vera heldur stuttorðari en sumir aðrir ræðumenn, enda hefur ýmislegt þjakað mig meira en málgleði. Ég á ekki heldur von á því, að ég þreyti hv. alþm. með löngum ræðum yfirleitt.

Húsnæðismálin eru einn sá þáttur þjóðlífsins sem hvað mest áhrif hefur á hagi fólksins sem í landinu býr. Öll viljum við hafa þak yfir höfuðið, og ávallt hefur takmarkið verið að eignast það þak. Í framsöguræðu fyrir frv. þessu rakti hæstv. félmrh. sögu húsnæðismála hér á landi nokkuð aftur í tímann og gerði grein fyrir þætti opinberra aðila þar í frá upphafi. Mig langar hins vegar til að fara örfáum orðum um þá þróun, sem orðið hefur í húsnæðismálum á síðustu árum, og það ástand, sem skapast hefur að undanförnu, bæði vegna mikillar verðbólgu og vegna breyttrar vaxtastefnu.

Á undanförnum árum hefur verið reynt að aðlaga málefni Húsnæðismálastofnunarinnar stöðugt breyttum þjóðfélagsaðstæðum. Sambýlishættir hafa breyst, fjölskyldur orðið fámennari en áður var, en á hinn bóginn meira byggt af sambýlishúsum af ýmsum stærðum og gerðum, þótt einnig sé enn mikið byggt af einbýlishúsum. Byggingarmátinn hefur líka mikið breyst. Við byggjum stærri og vandaðri hús en áður var, en þá líka að sama skapi dýrari, jafnvel svo að stundum keyrir úr hófi fram. Þar þyrfti sannarlega að gæta meira aðhalds og sparsemi, og því betur hafa nú á seinni árum komið fram ýmsar tækninýjungar sem gera byggingarhætti einfaldari og fljótvirkari og þar með ódýrari. Auk þess má minna á stöðugt vaxandi framleiðslu og auknar vinsældir einingahúsa eða verksmiðjuframleiddra húsa, en öllum nýjungum á þessu sviði ber að gefa sérstakar gætur ef þær leiða til sparnaðar í húsnæðismálum þjóðarinnar.

Þá hafa húsnæðismálin meira og minna lent inn í almenna samninga um kaup og kjör, og má í því sambandi nefna sérstaklega stóra áfanga á sviði félagslegra íbúðabygginga. Lögum hefur verið breytt og þau lagfærð, lánsupphæðir hafa hækkað og reynt hefur verið að halda takti við þróun verðlagsmála, en því miður ekki tekist sem skyldi. Stöðugt hefur orðið erfiðara að komast yfir eigin húsnæði og stöðugt hafa kröfurnar um gerbreytt skipulag húsnæðismála og þá einkum lánamála orðið háværari. Hin breytta vaxtastefna, raunvaxtastefnan svonefnda, sem tekin var upp á síðasta ári, á sinn stóra þátt í þessum vaxandi vanda. Vandamálin eru auðvitað mest hjá þeim, sem eru að byggja eða kaupa í fyrsta sinn, og sérstaklega hjá unga fólkinu sem lítið eigið fé hefur átt til að leggja í stofnkostnaðinn. Virðist mér að nú sé svo komið hjá fjöldanum öllum af þessu fólki, að dæmið gangi alls ekki upp og það sjái nánast enga leið út úr ógöngunum. Þetta fólk hefur orðið að fjármagna stóran hluta íbúðarverðsins með öðru lánsfé en lánum Húsnæðismálastofnunarinnar. Þar hafa að sjálfsögðu komið inn í dæmið lán frá hinum ýmsu lífeyrissjóðum sem veitt hafa verið til nokkuð langs tíma. En allflestir hafa orðið að leita fanga víðar, þ.e. í hinu almenna bankakerfi, og þar eingöngu getað fengið til skamms tíma víxillán eða vaxtaaukalán, nú með 42.5% vöxtum, einnig til skamms tíma, tveggja, þriggja eða kannske fjögurra ára. Af þessu má ljóst vera að greiðslubyrðin hefur orðið allt of þung og valdið þar með ýmsum aukaverkunum, svo sem að fólk hefur lagt á sig mjög mikla vinnu, jafnvel svo að álagið hefur orðið of mikið og valdið heilsutjóni. En þó ekki hafi gengið svo langt hefur þessi mikla vinna skapað auknar tekjur sem síðan hafa leitt af sér hærri skatta, það síðan kallað á auknar kaupkröfur og hækkuð laun.

Þetta skipulag málanna er m.ö.o. einn sá þáttur sem miklu veldur um hraða verðbólguhjólsins. Því hefur krafan um breytt skipulag húsnæðismálanna orðið æ háværari og einkum beinst að tveimur aðalþáttum. Annar er sá, að lánin verði stórhækkuð, helst það mikið að ekki þurfi að leita til fleiri aðila hvað fjármögnun varðar, a.m.k. ekki svo að neinu nemi. Augljóst er hversu mikil hagræðing það yrði fyrir lántakandann að þurfa aðeins að eiga við einn aðila með nokkuð sjálfvirka afgreiðslu mála í stað alls þess tíma og fyrirhafnar sem núverandi kerfi leiðir af sér. Hinn þátturinn er sá, að lánskjörin geri öllu fólki með venjulegar launatekjur kleift að standa undir þeirri lántöku sem húsnæðiskaup eða bygging hefur óhjákvæmilega í för með sér. Eðlilegt verður að teljast að lán þessi séu verðtryggð, en með lágum vöxtum. Lánstíminn þarf því að vera verulega langur, svo að greiðslubyrðin verði viðráðanleg. Réttast væri að hún færi ekki fram úr ákveðnum hundraðshluta af launatekjum þeirrar fjölskyldu sem við yrði miðað. Einnig hljóta það að vera rök fyrir löngum lánstíma, að þau hús, sem við byggjum í dag, eiga að geta staðið í marga áratugi, jafnvel aldir, og því óeðlilegt að ætlast til þess, að þau séu greidd að fullu á 10–20 árum, eins og nú er gert. Þessi meginmarkmið höfum við framsóknarmenn haft á stefnuskrá, og í þeirri stjórnmálaumræðu, sem varð um allt land vegna kosninganna í des. s.l., voru húsnæðismálin ofarlega á baugi. Í frv. eru þessum þáttum að sjálfsögðu gerð veruleg skil, og mun ég nú vík ja nánar að því svo og ýmsum aths. sem ég hef fram að færa við frv.

Ef fyrst er litið á þá krafta frv., sem ég hef hér á undan nefnt aðalþætti, segir svo í 32. gr., með leyfi forseta: „Hámarkslánsfjárhæð má nema allt að 80% af áætluðum byggingarkostnaði þeirrar staðalíbúðar, sem gildir sem viðmiðun fyrir hlutaðeigandi umsækjanda, miðað við fjölskyldustærð, samkv. þeim reglum, sem húsnæðismálastjórn setur, og eiga allir umsækjendur í sama lánaflokki rétt til sama lánahlutfalls ár hvert.“

Hér er fjallað um stórhækkun lánanna frá því sem nú er og ráðgert að lána allt að 80% af byggingarkostnaði, en það er mark sem lengi hefur verið rætt um að stefna bæri að. Þó er þessi prósentutala nokkuð mismunandi eftir einstökum köflum frv. T.d. er gert ráð fyrir 90% lánshlutfalli við byggingar verkamannabústaða, sem telja má eðlilegt að sé nokkru hærra en lán til almennra íbúðabygginga. Hins vegar er aðeins ráðgert að lána 70% úr Byggingarsjóði verkamanna til byggingar leiguíbúða á vegum sveitarfélaga, en hlutaðeigandi sveitarfélag leggi fram 30% kostnaðar. Má jafnvel líta á að þetta hlutfall sé í raun 50%, ef inn í dæmið er tekið 20% framlag sveitarfélagsins við fjármögnun Byggingarsjóðs verkamanna, sbr. staflið c í 34. gr. frv. Þetta tel ég að þyrfti að skoða miklu nánar. Fjárhagsstaða sveitarfélaganna er örugglega ekki slík, að þessi ákvæði séu hvati til byggingar félagslegra íbúða. Einnig þarf að endurskoða stjórnunaraðild sveitarfélaganna í þessum þætti og mun ég víkja aðeins nánar að því síðar.

Þá eru prósentutölur lánshlutfalls misjafnar í nokkrum öðrum tilvikum, svo sem í 26. gr. þar sem gert er ráð fyrir 70% láni til orkusparandi breytinga á húsnæði, sem ég fæ ekki séð ástæðu til að eigi að vera annað en við aðrar breytingar eða viðbætur á húsnæði sem taldar eru lánshæfar. Sérstaklega vil ég þó fjalla um það lánshlutfall sem gert er ráð fyrir í 14. gr. frv. Það er lán til kaupa á eldra húsnæði. Það virðist ljóst að lánin geti aldrei numið hærri upphæð en 50% af kaupverðinu. Gert er ráð fyrir að áhvílandi lán séu 30% við lánsúthlutun, hvort sem svo er eða ekki. Vera kann að þetta dugi þegar frá líður og Byggingarsjóður hefur lánað allt að 80% byggingarkostnaðar út á verulegan hluta íbúðarhúsnæðis í landinu. En eins og ástandið er nú, t.d. á húsnæðismarkaði hér í Reykjavík í dag, er ljóst að þarna er gert ráð fyrir allt of háu hlutfalli áhvílandi lána. Þar á m.a. verðbólgan sinn þátt í.

Þá vil ég biðja um útskýringu á hvað átt er við með uppfærslu áhvílandi lána, en í 2. mgr. 14. gr. segir svo, með leyfi forseta:

„Umframfjárþörf skal reiknuð sem mismunur kaupverðs annars vegar og samanlagðar fjárhæðir áhvítandi lána uppfærðra og eigin fjár hins vegar.“

Í drögum að reglugerð um almenn veðlán Byggingarsjóðs ríkisins, sem fylgir frv. þessu, er í 5. gr. gert ráð fyrir að sjóðurinn þurfi 10 ár til aðlögunar 80% útlánamarkinu. Það er alveg ljóst að hér er um allt of langan tíma að ræða fyrir þá sem byggja eða kaupa í fyrsta sinn. Lán til frumbýlinga þarf að mínu mati að taka út úr þessari aðlögun og meðhöndla sérstaklega. Helst þyrftu þau að ná 80% marki nú þegar. En vera kann að hlutfall þessara lána í heildarútlánum sjóðsins sé svo hátt og útlánageta hans slík að þarna verði að hafa aðlögunartíma eitthvað lengri, e.t.v. 2–3 ár, en 10 ára markið er of langt. Þarna mætti einnig beita örðum aðferðum til aðstoðar, svo sem sérstakri meðferð vaxtafrádráttar við skattaútreikning eða sérstökum skattaafslætti. Má í því sambandi minna á sérstakan skattafrádrátt þeirra sem ganga í hjúskap. Eðlilegra verður þó að teljast að þetta sé leyst með húsnæðislöggjöfinni sjálfri, en þá verður líka 80% lánatakmarkið að nást hið allra fyrsta á þennan þátt útlánanna.

Hinn aðalþátturinn í endurskipulagningu húsnæðismálanna, þ.e. greiðslubyrði lánanna, er einnig tekinn til meðferðar í frv. þessu Í 30. gr. segir að lánin skulu vera að fullu verðtryggð samkv. lánskjaravísitölu Seðlabankans. Þá er og gert ráð fyrir því, að vextirnir séu 3.5%. Sama vaxatprósenta kemur fram í 58. gr., þar sem fjallað er um leiguíbúðir sveitarfélaga. Hins vegar er gert ráð fyrir 0.5% vöxtum af lánum til verkamannabústaða. Í vaxtareglum Seðlabanka Íslands, sem gilda frá 1. des. s.l., segir svo í 6. tölul., undir liðnum Útlán, með leyfi forseta:

„Lán með verðtryggingu miðað við lánskjaravísitölu. Skuldabréf gefin út eftir 1. júní 1979 tryggð með fasteignaveði eða veði í öðrum varanlegum fjármunum og með ákvæði um að höfuðstóll láns miðist að fullu við lánskjaravísitölu sem Seðlabankinn auglýsir mánaðarlega. Skuldabréf þessi skulu skráð á nafn og skal lánstími vera minnst 4 ár. Vextir eru eftirágreiddir og breytilegir samkv. ákvörðun Seðlabanka, nú 2%.“

Á sama tíma og til eru útlánareglur hjá almennum lánastofnunum, sem gera ráð fyrir fullri verðtryggingu og 2% vaxtakjörum, verður að teljast í hæsta máta óeðlilegt að hið opinbera húsnæðislánakerfi geri ráð fyrir nær helmingi hærri vöxtum. Slíkt hlýtur að nálgast það að verða talið vaxtaokur. Réttara verður að álíta að Húsnæðismálstofnunin eigi að miða við vaxtakjör Seðlabanka Íslands varðandi verðtryggð lán á hverjum tíma.

Þá er lánstími hinna ýmsu lánaflokka mjög misjafn, eða 11, 15,16, 21, og 32 ár. Tel ég eðlilegt og æskilegt að samræma þetta meira, en sérstaklega verður að endurskoða lánstíma aðalflokkanna með tilliti til lengingar lánstímans. Hér er gert ráð fyrir að lán til einstaklinga vegna nýbygginga séu til 21 árs, en það er styttur lánstími um 5 ár frá því sem er í núgildandi reglum. Það tel ég algerlega óviðunandi. Eðlilegra hefði verið að lengja lánstímann í 30–40 ár. En þar þarf að sjálfsögðu að taka tillit til uppbyggingar sjóðsins svo og nánari útreiknings á greiðslubyrði lánanna fyrir einstaklinga í hinum ýmsu starfsstéttum, en styttingu lánstímans frá því sem nú er tel ég ekki koma til greina.

Nú kann að vera að einhverjum finnist hér vera keimur af yfirboðum: hækkun lána, aðlögunartími styttur, vextir lækkaðir, lánstíminn lengdur, en svo tel ég þó ekki vera. Ég tel að allt séu þetta óhjákvæmilegar aðgerðir og sjálfsagðar. Með þessu drögum við úr þeirri spennu sem nú ríkir í húsnæðismálum, við hægjum hraðann og komum á meira jafnvægi. Með því drögum við einnig verulega úr hraða verðbólgunnar, ef rétt er á málum haldið. Og það verðum við að viðurkenna, að öll sú spenna og það kapphlaup, sem nú ríkir í húsnæðismálum, er stór liður í verðbólguvandanum. Farsæl lausn þessara mála er því einn veigamikill þáttur í lausn efnahagsvandans sem nú er við að etja.

En þá er líka komið að því að leysa fjármögnunarvanda þessa frv. Hv. 4. þm. Vestf. benti mjög rækilega á það gat sem þar er. Í aths. við frv. er m.a. gerð grein fyrir forsendum, sem notaðar eru við hina ýmsu útreikninga er hér fylgja með. Þar vakna þó ýmsar spurningar, sem ég finn ekki svör við, svo sem að hve miklu leyti fjármagn hinna almennu lífeyrissjóða er nýtt við ráðgerða uppbyggingu húsnæðismálakerfisins. Þegar tekist hefur að ná 80% útlánamarkinu verður að álíta að ekki sé lengur þörf á lánum frá lífeyrissjóðunum vegna húsnæðismála sem neinu nemur beint til einstaklinga eða lífeyrissjóðsfélaga, heldur ætti þá fjármagnið, sem þannig er lánað út í dag, að renna sem mest beint til Byggingarsjóðs ríkisins og stuðla með því að einu heilsteyptu útlánakerfi á þessu sviði. Þar fengju lífeyrissjóðirnir einnig verðtryggða ávöxtun síns fjár.

Þá finnst mér ástæða til að athuga nánar og færa til núgildis, til frekari glöggvunar, þá útreikninga sem telja að 21 árs lánstími með 3.5% vöxtum hafi samsvarað 67 þús. kr. meðalhúsaleigu á mánuði 1978. Ætli það væri ekki nokkuð há húsaleiga í dag, ef tekið er tillit til almennrar þróunar og verðbólgunnar sem því miður hefur orðið töluvert hærri en forsendur útreikninganna gera ráð fyrir? Og hverjar eru nú viðmiðunartekjurnar, sem þá hafa verið töluvert yfir 400 þús. kr. á mánuði? Ætli þær séu ekki jafnvel orðnar allmiklu hærri en raunveruleg laun eru í dag hjá þeim sem á þessum lánum þurfa hvað mest að halda. Þetta tel ég að þurfi að skoða miklu betur og fyrst og fremst gæta þess, að greiðslubyrði lánanna verði viðráðanleg og þannig upp byggð, að hún dragi úr spennunni sem nú ríkir.

Ýmislegt fleira er í þessu frv. sem taka þarf til athugunar, en of langt mál yrði upp að telja hér og gera verður frekari grein fyrir í n. Má þar nefna þætti eins og verkaskiptingu milli stjórnar stofnunarinnar annars vegar og framkvæmdastjórnar, þ.e. forstjóra og framkvæmdastjóra deilda, hins vegar, afgreiðslur og innheimtur lána hjá veðdeild Landsbanka Íslands eða öðrum almennum innlánsstofnunum, sbr. ákvæði 9. gr., samstarf og samskipti stofnunarinnar við aðra aðila, bæði hin ýmsu rn. svo og tæknimenn úti um land varðandi eftirlit, stöðu og úttekt hinna ýmsu verkefna. Allt lýtur þetta að því að varast að stofnunin þenjist út og verði of mikið bákn.

Þá má nefna aths. varðandi stjórnunaraðild Sambands ísl. sveitarfélaga svo og hinna ýmsu sveitarfélaga að málefnum er varða Byggingarsjóð verkamanna, svo og ýmis ákvæði sem athuga þarf í kaflanum um byggingu leiguíbúða á vegum sveitarfélaga. Sumt hef ég þegar nefnt, en annað, svo sem skipan og kosningu samráðsnefndar Byggingarsjóðs verkamanna og stjórnar verkamannabústaða, stærðir og gerðir íbúða, úthlutun þeirra eða ráðstöfun, kaupskyldu og söluheimildir, allt þetta verður að athuga nánar og ræða í nefndum. Við alla þessa þætti geri ég fyrirvara án þess að tíunda þá frekar í máli mínu nú.

Þá vil ég aðeins nefna til viðbótar tvo þætti, er ég tel að vanti í frv. þetta en ættu að falla inn í það. Annar er heimild handa félögum eða fyrirtækjum til lántöku vegna byggingar eða kaupa leiguíbúða í svipuðu formi og leiguíbúðir sveitarfélaga. Á þetta einkum við um ýmis fyrirtæki úti um land þar sem erfitt getur reynst að halda starfsfólki eins og þarf nema geta jafnframt svarað húsnæðisþörf þess. Fordæmi munu vera fyrir því, að slík lán séu veitt samkv. ákvæðum í eldri lögum.

Hitt atriðið, sem ég tel vanta, er ákvæði um byggingarsamvinnufélög. Sérstakur kafli var í eldri lögunum um þau, en hér er þeirra hvergi getið. Væri a.m.k. fróðlegt að vita forsendur þess. Eðlilegast tel ég að þeirra sé sérstaklega getið svo og þess réttar sem þeim ber að njóta gagnvart lögum þessum.

Herra forseti. Áður en ég lýk máli mínu vil ég fara nokkrum orðum um VI. kafla frv., þar sem fjallað er um skyldusparnað ungs fólks. Í núgildandi lögum er farið mjög illa með fé þess unga fólks sem þannig er skyldað til sparnaðar. Vísitala er aðeins reiknuð einu sinni á ári og fé þarf að hafa staðið a.m.k. eitt ár inni til að á það séu reiknaðar bætur. Fé, sem lagt er inn rétt eftir þennan árlega vísitöluútreikning, þarf því að standa inni í nær tvö ár áður en bætur reiknast. Þessar bætur eru síðan geymdar á sérstökum biðreikningi í stað þess að leggjast við höfuðstól og bera því hvorki vexti né verðtryggingu. Nú virðist sem 70. gr. frv. ráðgeri breytingar hvað þetta varðar, en þar segir, með leyfi forseta.

„Þegar sá, sem sparað hefur fé og lagt í sjóð samkv. 1. mgr. 69. gr., hefur náð 26 ára aldri — eða stofnað til hjúskapar verði það fyrr — kaupir eða byggir íbúð til eigin þarfa, skal hann eiga þess kost að fá endurgreitt sparifé sitt samkv. 1. mgr. með sömu vöxtum og gilda á hverjum tíma fyrir lán samkv. 1. tl. 10. gr. frá þeim tíma, er það var lagt inn, að viðbættum verðbótum samkv. lánskjaravísitölu Seðlabanka Íslands samkv. 39. gr. laga nr. 13 frá 10. apríl 1979.“

Lánskjaravísitala Seðlabanka Íslands er reiknuð mánaðarlega og ætti því að vera hægt að reikna út upphæð verðbót á hverjum tíma í stað einu sinni á ári. En hér þarf að kveða nánar á um málsmeðferð. Eiga verðbætur að leggjast við höfuðstól árlega og bera þar með vexti og vera verðtryggðar eins og skyldusparnaðurinn sjálfur eða eiga þær áfram að liggja á biðreikningi vaxta- og bótalausar eins og nú er? Þetta þarfnast nánari skýringa og skilgreiningar, og að sjálfsögðu þarf að athuga hvaða áhrif ný og sanngjörn meðferð þessara mála hefur á fjármagn Byggingarsjóðsins, hafi það ekki verið gert við þá útreikninga sem fyrir liggja við gerð frv. þessa.

Þó umfjöllun mín um frv. þetta kunni að virðast nokkuð gagnrýnin og bent sé á ýmsa þætti sem betur mættu fara, horfir að sjálfsögðu margt í því til framfara, bæði lagfæringar á eldri þáttum, svo og ýmis nýmæli. Eftir umfjöllun Alþ. á þessu frv. er ég þess fullviss að fyrir muni liggja ný löggjöf er marki tímamót í sögu húsnæðismála hér á landi, svo sem ég gat um í upphafi.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.