16.01.1980
Efri deild: 18. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 369 í B-deild Alþingistíðinda. (425)

33. mál, lyfjadreifing

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Frv. það til l. um lyfjadreifingu, sem hér er til 1. umr., var lagt fram sem stjfrv. á 100. löggjafarþingi s.l. vetur, en hlaut þá ekki fullnaðarafgreiðslu. Var tæplega til þess ætlast, því að það kom nokkuð seint fram. Kemur það því öðru sinni og óbreytt til meðferðar þingsins nú á vegum núv. ríkisstj. Ég vænti þess, að það fái skjóta og greiða afgreiðslu að þessu sinni.

Kveikjan að samningu þessa frv. var ákvæði í samstarfsyfirlýsingu fyrrv. ríkisstj., þar sem sagði að stefnt skyldi að því að tengja lyfjaverslunina í landinu betur við heilbrigðisþjónustuna og setja hana undir félagslega stjórn.

Að baki þessari stefnumörkun lágu þau almennu sjónarmið, að verslun með lyf og meðferð lyfja eru óumdeilanlega veigamikill þáttur í allri heilsugæslu. Lyf eru auk þess vandmeðfarin og hættulegur varningur og ber yfirvöldum skylda til að vaka yfir meðferð þeirra. Því markmiði að koma á nánari tengslum milli heilbrigðisþjónustu og lyfjaverslunar er í frv. náð með þeim hætti, að landinu er skipt í sérstök lyfsöluhéruð sem svara til og tengjast læknishéruðunum eins og þeim er skipað með lögum nr. 57 frá 1978, um heilbrigðisþjónustu. Er raunar að því stefnt, að í hvert sinn sem byggð er ný heilsugæslustöð skuli það athugað sérstaklega, hvort þar sé einnig unnt að staðsetja lyfjabúð, hvort heldur hún er þegar til á staðnum eða fyrirhuguð. Með þessum hætti ætti að vera allvel séð fyrir þeirri samtengingu þessara tveggja þátta heilbrigðisþjónustunnar sem að er stefnt.

Hvað hitt atriðið í samstarfsyfirlýsingunni varðar, að lyfjaverslunin skuli sett undirfélagslega stjórn, þá er það nú ekki skilið sem bein þjóðnýtingarfyrirætlun. Það var ekki skilið þannig, heldur á þann veg að opinbert eftirlit og aðhald með lyfjadreifingunni skuli vera öflugt og virkt. Hér kemur auðvitað m.a. það til, að ríkissjóður er langstærsti lyfjagreiðandi landsins og að lyf kosta samfélagið verulegar fjárhæðir, bæði í gegnum tryggingakerfið og lyfjanotkun á sjúkrahúsum. Í fjárl. s.l. árs eru greiðslur Tryggingastofnunar ríkisins vegna lyfjakaupa áætlaðar 2 milljarðar 370 millj. kr. Sú fjárhæð mun þó stórlega vanáætluð. Er því nauðsynlegt að allir þættir lyfjadreifingarinnar séu undir öflugu eftirliti heilbrigðisyfirvalda jafnt af fjárhags- og öryggissjónarmiðum. Í raun hefur slíku eftirliti þegar verið komið á í veigamiklum atriðum, þótt rekstur lyfjabúða og lyfjaheildsala sé að mestu í einkaeign. Engin erlend sérlyf má selja hér á landi nema sérstök opinber nefnd, lyfjanefnd, fallist á skráningu þeirra og ráðh. staðfesti þá ákvörðun. Innkaupsverð lyfjanna er staðfest við skráningu þeirra og má engar breytingar gera á því, nema heilbr.- og trmrn. samþykki það að fengnum tillögum Lyfjaeftirlits ríkisins. Lyfjaverðlagsnefnd hefur eftirlit með framleiðsluverði innlendra lyfja og gerir til ráðh. till. um vinnugjaldskrár. Hún ákveður því grundvöll heildsölu- og smásöluálagningar svo og grundvöll vinnu- og afhendingargjalda lyfja. Loks annast Lyfjaeftirlit ríkisins, sem er sjálfstæð stofnun undir yfirstjórn heilbr.- og trmrn., eftirlit með verðlagi lyfja, bæði í heildsölu og smásölu. Má því ljóst vera að opinbert eftirlit með verðlagi á lyfjum er fjölþætt og virkt. Lyfjaeftirlitið hefur auk þess með höndum faglært eftirlit með lyfjabúðum, lyfjaheildsölum og öðrum stofnunum sem geyma lyf eða dreifa þeim. Rekstur lyfjabúða og innflutningsfyrirtækja er svo að sjálfsögðu háður opinberum starfsleyfum.

Í þessu efni hefur því ekki þótt ástæða til enn frekara aðhalds og eftirlits. Hitt skiptir máli, að Lyfjaverslun ríkisins er með frv. tryggður réttur til innkaupa á öllum erlendum sérlyfjum beint frá framleiðendum á skráðu innkaupsverði. Í einhverjum tilvikum hefur gætt þeirrar tilhneigingar af hálfu einkaumboðsaðila að takmarka eða torvelda þennan milliliðalausa innflutning Lyfjaverslunar ríkisins. Rík ástæða er til þess að taka af allan vafa í því efni og tryggja óheftan rétt Lyfjaverslunar til innflutnings á bestu kjörum.

Eins og kunnugt er er Lyfjaverslun ríkisins hvort tveggja í senn lyfjagerð og lyfjaheildsala, og gegnir hún mjög mikilvægu hlutverki einkum að því er varðar þjónustu við sjúkrahús landsins. Í framsögu minni með frv. þessu í fyrravetur lét ég þess getið, að í frv. til l. um Lyfjastofnun ríkisins, sem flutt var hér á Alþ. vorið 1973, hafi verið stefnt að ríkisrekstri alls lyfjainnflutnings og heildsölu lyfja í landinu. Mér þótti líklegt að einhverjir hv. þm. kynnu að sakna slíkrar stefnumörkunar í þessu frv. Nú skal ég ekkert fullyrða um það, hvort hér á Alþ. sé nú til staðar sá pólitíski vilji til svo róttækra breytinga sem skorti árið 1973. Heldur þykir mér það þó ósennilegt. Hitt skiptir meiru, að ýmsar þær forsendur, sem byggt var á í því frv., eru ekki til lengur, a.m.k. ekki í sama mæli og þá. Ýmsir ágallar frá þeim tíma, er vörðuðu t.d. birgðahald, verðlagningu, ábyrgð innflytjenda og eftirlit með dreifingunni, hafa þegar verið færðir til betri vegar. Standa því að mínu mati full rök til þess að fara nú hægar í sakirnar en þá var fyrirhugað.

Í framsöguræðu minni með frv. þessu í fyrravetur rakti ég stuttlega þróun lyfjaverslunar hér á landi frá því er skipuleg lyfjasala hófst hér með stofnun landlæknisembættis árið 1760. Auk þess fjallaði ég þá ítarlega um efni einstakra greina og kafla frv. Læt ég tímans vegna við það sitja að vísa til þeirrar umfjöllunar, en hún er aðgengileg öllum hv. þm. í Alþ. Þó þykir mér rétt að drepa lauslega á helstu breytingar frá gildandi lögum sem felast í frv. þessu.

Fyrst er þá að geta þeirrar skiptingar landsins í lyfsöluhéruð og aðlögun þeirra að læknishéruðunum sem ég gerði grein fyrir áðan. Þar er um að ræða algert nýmæli í lyfjadreifingarmálum hér á landi.

Í öðru lagi vil ég nefna þau ákvæði í IX. kafla sem fjalla um tilhögun lyfjadreifingar á sjúkrahúsum. Einnig þau eru nýmæli hér á landi og til ótvíræðra bóta ef að lögum verða.

Í þriðja lagi nefni ég þær breytingar, að lyfjasala færist að mestu leyti úr höndum lækna til lyfjabúða eða undirstofnana þeirra, og breytingar, sem lúta að umboðsmennsku fyrir erlenda lyfjaframleiðendur, en þessi fyrirmæli eru í VI. og VII. kafla frv. Þetta eru mikilvæg nýmæli sem grundvallast á því sjónarmiði, að forðast beri svo sem frekast er kostur að saman fari ráðgjöf eða fyrirmæli um val og notkun lyfja annars vegar og hagsmunir af sölu þeirra hins vegar. Einstaklingurinn verður að geta treyst því fullkomlega, er hann felur trúnað sinn lyfjafræðingi eða lækni, að sú ráðgjöf, sem hann fær, sé óumdeilanlega óháð öllum hagsmunum eða fjárhagstengslum.

Í fjórða lagi vil ég geta nýmæla í X. kafla sem lúta að dreifingu dýralyfja. Þar er lagt til að felldar verði niður heimildir almennra verslana til sölu á slíkum lyfjum, en hún verði þess í stað alfarið í höndum lyfjaverslana og dýralækna. Eru lyfjabúðir skyldaðar til að hafa jöfnum höndum öll algengustu dýralyfin á boðstólum. Ég held að þessi breyting sé mjög til bóta, enda vandfundin rök fyrir því, að dýralyf séu frekar en mannalyf undanþegin faglegu eftirliti.

Þá nefni ég í fimmta lagi ákvæði um undirstofnanir lyfjabúða, þ.e. lyfjaútibú og lyfjaforða, sem fjallað er um í VI. kafla frv. Er með þeim ákvæðum stefnt að því að þétta sem allra best og eftir því sem rekstrarlegar forsendur frekast leyfa það þjónustunet sem lyfjaverslunin myndar, tryggja sem jafnastan og greiðastan aðgang allra landsmanna að þessum mikilvæga þætti heilsugæslunnar. Heimild Háskóla Íslands til starfrækslu lyfjaverslunar í tengslum við sín rannsóknar- og kennslustörf er nýmæli.

Í sjötta lagi vil ég tilnefna þá heimild sem lyfsölusjóði er fengin til að kaupa lyfjaverslanir af starfandi lyfsölum og reka þær. Með henni er lyfsölum opnuð leið til þess að losna undan þeirri fjárhagslegu ábyrgð og áhættu, sem fylgir rekstri lyfjabúða, án þess að glata um leið tilkalli til faglegrar forstöðu eða þeirra faglærðu starfa yfirleitt sem sérmenntun þeirra stendur til.

Fleiri nýmæli mætti nefna í þessu frv., en ég læt þó staðar numið hér og vísa, eins og áður segir, um þau atriði til framsöguræðu minnar í fyrravetur.

Ég vil að lokum ítreka þá ósk mína, að hv. alþm. verði mér sammála um að hér verði í raun lögð til sú skipan á tengslum lyfjadreifingarinnar og heilbrigðisþjónustunnar í landinu og sú faglega stjórnun hennar sem best samrýmist aðstæðum í þjóðfélagi okkar í dag.

Herra forseti. Ég legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. heilbr.- og trn., og vona að það komi þaðan fljótlega aftur til 2. umr.