16.01.1980
Efri deild: 18. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 371 í B-deild Alþingistíðinda. (427)

34. mál, brunatryggingar utan Reykjavíkur

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Frv. þetta er flutt að beiðni Stéttarsambands bænda, en á aðalfundi sambandsins 1.–3. sept. s.l. var samþ. að óska breytinga á gildandi lögum um brunatryggingar utan Reykjavíkur í þá átt að lögfest yrði skyldutrygging allra útihúsa í sveitum, sem nú eru undanþegin tryggingaskyldu. Með frv. þessu, ef að lögum verður, er komið að fullu til móts við þessar óskir Stéttarsambands bænda.

Það er ekki vonum fyrr, að slíkar óskir berast frá bændum. Nú er ekki skylt að tryggja gegn eldsvoða gripahús, hlöður né geymsluhús á sveitabæjum nema hús þessi séu áföst íbúðarhúsum og í óaðgreinanlegri brunahættu með þeim. Eflaust eru flestir bændur svo forsjálir að kaupa tryggingu þessara eigna þótt ekki sé það skylda. Hins vegar eru útihús mjög víða orðin það mikil og dýr mannvirki að ástæðulaust er með öllu að tefla í nokkra tvísýnu um tryggingu svo mikilla eigna.

Á það ber einnig að líta, að samkv. lögum um Viðlagatryggingu Íslands eru þær eignir einar tryggðar gegn hamfaratjóni sem eru brunatryggðar fyrir. Auk hinnar auknu tryggingaverndar gegn brunatjóni yrði því sú breyting við samþykkt þessa frv. að útihús öll yrðu framvegis tryggð viðlagatryggingu gegn hamfaratjónum.

Herra forseti. Að lokinni þessari umr. legg ég til að frv. verði vísað til hv. heilbr.- og trn. og 2. umr.