16.01.1980
Neðri deild: 18. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 373 í B-deild Alþingistíðinda. (432)

65. mál, greiðsla opinberra gjalda 1980

Fjmrh. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Eins og hv. þdm. er kunnugt flutti ég skömmu fyrir jólin frv. til l. um breyt. á lögum nr. 40 frá 18. maí 1978, um tekjuskatt og eignarskatt. Frv. þetta er á þskj. 46. Hér er um að ræða tillögur um breytingar á lögum nr. 40 frá 1978, sem komu til framkvæmda í fyrsta sinn um s.l. áramót og munu verða notuð við álagningu skatta á árinu 1980. Frv. á þskj. 46 hafði verið í vinnslu í fjmrn. um nokkra hríð og þeirri vinnu var að mestu eða að öllu leyti lokið þegar núv. ríkisstj. tók við völdum.

Tilgangurinn með frv. var þríþættur. Í fyrsta lagi var um að ræða leiðréttingar á ýmsum atriðum í gildandi lögum, sem við nánari athugun kom í ljós að betur hefðu mátt fara. Í öðru lagi var um að ræða nokkrar efnisbreytingar á lögum nr. 40 frá 1978 til að skerpa ýmis atriði þeirrar lagasetningar. Og í þriðja lagi er í frv. á þskj. 46 lagt til að bætt verði úr þeim ágalla laga nr. 40/1978, að þar vantar öll ákvæði um innheimtu og um fyrirframgreiðslu skatta.

Ástæðan var einfaldlega sú, að þegar lög nr. 40/1978 voru á sínum tíma til meðferðar á Alþ. var gert ráð fyrir að jafnhliða því sem þau tækju gildi gengi í gildi staðgreiðsla skatta, og hafði sérstakt frv. verið flutt um staðgreiðsluna. Það frv. náði hins vegar ekki samþykki jafnhliða lögum nr. 40/1978. Því háttaði svo til, að þegar þau lög gengu í gildi um áramótin vantaði í þau öll ákvæði um innheimtu skatta, ekki aðeins um heimild til fjmrh. til að gefa fyrirmæli um fyrirframinnheimtu skatta, heldur öll innheimtuákvæði, hvaða nafni sem þau nefndust.

Eins og ég tók fram áðan var frv. til að bæta úr þessu, en með nokkrum öðrum atriðum einnig, tilbúið í fjmrn. þegar núv. ríkisstj. kom til valda. Um það frv. hafði að vísu ekki verið fjallað í neinum stjórnmálaflokki, hvorki í stjórnmálaflokki þáv. hæstv, fjmrh., í öðrum stjórnarflokkum né heldur af stjórnarandstöðunni, þannig að það var aðeins vinnslufrv. þeirra sem með málin höfðu farið. Hins vegar var hér um að ræða knýjandi úrlausnarefni, þar sem hin nýju lög áttu að ganga í gildi um áramótin og hafa nú gert það. Því tók ég þá ákvörðun að kynna þingflokkunum handritið að því frv., sem samið hafði verið í fjmrn., og óska eftir að fá að vita hvort þingflokkarnir gætu fallist á að afgreiða frv. í heild eða að hluta til og leggja síðan aðeins fram á Alþ. það sem ég teldi óhjákvæmilegt að afgreiða og líklegt að samþykki mundi hljóta. Þetta gerði ég með því að flytja frv. á þskj. 46, sem lagt var fram og rætt nokkru fyrir jól.

Ég óskaði þá eftir að athugun og vinnslu málsins yrði hraðað, m.a. með því að þær nefndir beggja d., sem um málið mundu fjalla, hv. fjh.- og viðskn., ynnu að málinu saman. Við þeim tilmælum mínum hafa n. orðið, og ég vil taka sérstaklega fram, að nm. allir og þá ekki síst formenn n. hafa unnið vel og gott starf við að athuga frv. Vil ég þakka þeim og öðrum nm. í fjh.- og viðskn. fyrir þá vinnu sem þeir hafa lagt fram í þessu sambandi. Hins vegar er alveg ljóst að ýmis efnisatriði í frv. á þskj. 46 eru nokkuð viðkvæm og vandmeðfarin og því eðlilegt að flokkarnir, sem komu fyrst að þessu máli skömmu fyrir jólin, þurfi nokkurt ráðrúm til að geta áttað sig á efni frv. sem um er deilt. Það var því og er hæpið að unnt hefði verið að afgreiða frv, með þeim hraða sem reynt var að stefna að.

Ljóst er þó að mönnum er skammtaður tími vegna þeirrar staðreyndar að þau lög, sem um er að ræða, lög nr. 40/1978, eru komin til framkvæmda og til þess að hægt sé að framkvæma þau þarf að gera tilteknar breytingar og viðbætur sem verða að liggja fyrir á ákveðnum tíma.

Hluti af þeirri ákvörðun, sem taka þarf í sambandi við það frv. sem lagt var fram fyrir jól, er að veita heimild til fyrirframinnheimtu opinberra gjalda með sama hætti og hún hefur verið á umliðnum árum og lögleiða með hvaða hætti skuli staðið að þeirri innheimtu og hvaða ábyrgð þeir beri sem innheimta af launum fólks í ríkissjóð. Það er almennur skilningur á því í þjóðfélaginu og á Alþ., að nauðsynlegt sé að geta viðhaft sömu vinnubrögð varðandi fyrirframinnheimtu og verið hafa á umliðnum árum til þess að allar skattgreiðslur einstaklinga og fyrirtækja falli ekki á síðari helming ársins.

Þar sem ekki eru nú í lögum nein ákvæði um innheimtu tekju- og eignarskatts er ljóst, eins og áður segir, að til vandræða horfir ekki aðeins í fjármálum ríkissjóðs, heldur einnig gagnvart einstaklingum og fyrirtækjum, ef ekki verður lögfest í tæka tíð heimild til fyrirframinnheimtu sem, eins og ég tók fram áðan, er aðeins einn þáttur af mörgum í frv. til l. um breyt. á lögum nr. 40/1978 á þskj. 46. Eigi fyrirframinnheimta að fara fram er nauðsynlegt að slík heimild liggi fyrir eigi síðar en í lok þessarar viku, þ.e.a.s. fyrir 19. janúar, þannig að ráðrúm gefist til að halda eftir fyrirframgreiðslu af febrúarlaunum gjaldenda. Takist þetta ekki verður ekki hægt að innheimta fyrirframgreidda tekju- og eignarskatta af febrúarlaunum, sem yrði að sjálfsögðu til þess að valda gjaldendum stórkostlegum erfiðleikum þar eð þeir yrðu þá að dreifa þeirri gjaldabyrði á síðari innheimtutímabil.

Skattafdráttur af launum er unninn með þrennum hætti. Varðandi starfsmenn ríkis, borgar og fáeinna stórfyrirtækja er öll slík vinnsla vélræn og fer þannig fram, að saman eru leidd í tölvu segulbönd er hafa að geyma upplýsingar um álagningu fyrra árs ásamt breytingum á henni og segulbönd með mánaðarlaunum starfsfólks. Yfirleitt hefst útkeyrsla á launum ríkisstarfsmanna strax upp úr 20. hvers mánaðar og fyrir þann tíma þurfa Skýrsluvélar ríkisins og Reykjavíkurborgar 2–3 daga til forritunarvinnu og undirbúnings. Vegna þessarar vinnslu þarf því að gefa starfsmönnum Skýrsluvéla ríkisins og Reykjavíkurborgar upp væntanlegt innheimtuhlutfall til að vinna eftir 16. eða 17. jan., og formleg heimild til fyrirframgreiðslunnar þarf að liggja fyrir, eins og áður var sagt, áður en endanleg launavinnsla hefst upp úr 20. janúar.

Ég vil enn fremur taka fram að sveitarfélög víðs vegar á landinu hafa á síðustu dögum mjög spurt eftir því í fjmrn., hvert fyrirframgreiðsluhlutfall skatta muni verða, töldu og sér nauðsynlegt að fá svör um það fyrir miðjan dag í gær, ef ekki ætti að taka þá áhættu að sveitarfélögin gætu ekki gert kröfur í febrúarlaun sem gjaldfalla samkv. venjum í þessu sambandi og eiga að greiðast af febrúarlaunum 1. febr. n.k.

Í Reykjavík fer kröfugerð í laun annarra launþega en þeirra, sem vinna hjá framangreindum aðilum, þannig fram, að Skýrsluvélar ríkisins og Reykjavíkurborgar skrifa út lista yfir kröfur í laun þeirra er hjá hverjum vinnuveitanda starfa og Gjaldheimtan í Reykjavík sendir lista þessa ásamt kröfu um, að haldið sé eftir af launum starfsmanna, til hvers launagreiðanda. Listar þessir hafa verið skrifaðir út um 20. jan. undanfarin ár og þurfa Skýrsluvélar einnig 2–3 daga til undirbúnings þeirri útskrift.

Í öðrum umdæmum landsins handvinna innheimtumenn lista yfir starfsmenn hjá einstökum launagreiðendum og kröfur í laun hvers og eins. Þetta er gert á grundvelli lista frá ríkisbókhaldi um fyrirframgreiðsluskyldu hvers og eins gjaldanda, en sá listi er unninn hjá Skýrsluvélum. Vegna erfiðleika, sem upp kunna að koma í samgöngum á þessum árstíma, þyrfti listi ríkisbókhalds að vera tilbúinn 14. jan. eða í allra síðasta lagi 15. jan. Innheimtumenn viðhafa nokkuð misjöfn vinnubrögð við gerð krafna upp úr lista þessum, en flestir munu þó hefja útsendingar kröfubréfa til launagreiðenda milli 18. og 22. janúar.

Þá má einnig benda á, eins og ég rakti áðan, að sveitarfélög eru nú í mjög bagalegri óvissu um hversu hátt hlutfall af útsvari fyrra árs þeim er heimilt að innheimta, en samkvæmt núgildandi ákvæðum er það hlutfall annaðhvort 60% eða þá hlutfall sem gildir um fyrirframinnheimtu ríkissjóðs. Ég vil aðeins taka það fram til skýringar, að að óbreyttum lögum og ef farið væri eftir þeim reglum, sem gilt hafa í þeim lögum sem féllu úr gildi um áramótin, er ekki heimilt að veita sveitarfélögum heimild til hærra fyrirframgreiðsluhlutfalls en ríkissjóður tekur.

Af framansögðu má ljóst vera að heimildin sjálf til fyrirframinnheimtunnar þarf í síðasta lagi að liggja fyrir 19. jan., og dugir sá frestur þó því aðeins að framkvæmdaaðilar hafi þegar hafið undirbúning á grundvelli þess að innheimta skuli tiltekið hlutfall af gjöldum fyrra árs og að þær vinnuforsendur breytist ekki af því er hlutfallið varðar. Ef þær vinnuforsendur breyttust yrði þar með öll vinna, sem sveitarfélög og aðrir aðilar hafa unnið að kröfugerð í þessu sambandi, til ónýtis og hætt væri við að ekki væri hægt að ganga til fyrirframinnheimtu 1. febr., eins og ég rakti áðan.

Þessa niðurstöðu fjmrn. hef ég tjáð formönnum fjh.og viðskn. beggja d., sem starfa nú að athugun á frv. um breyt. á lögum nr: 40/1978, eins og ég áðan sagði, og spurðist fyrir um hvort líklegt væri að hinu mikla starfi, sem nm. hafa unnið af miklum dugnaði, ég vil taka það enn og aftur fram, hefði miðað svo vel áfram að gera mætti ráð fyrir að hægt væri að afgreiða frv. á þskj. 46 á næstu tveimur dögum eða fyrir vikulok. Formenn n. hafa tjáð mér og eins aðrir nm., að ekki séu líkur á því að svo skjót afgreiðsla geti orðið á frv. í heild, þó að stefnt sé að því að ekki líði margir dagar af næstu viku án þess að niðurstaða fáist í málinu. Var þá ekki um annað að ræða, af ástæðum sem ég hef að framan lýst, en að búa sig undir að lögfesta heimild til fyrirframinnheimtu með bráðabirgðahætti, þ.e.a.s. í sérstakri lagasetningu, og kom þá tvennt til: Annað hvort að taka kaflann um innheimtu í frv. á þskj. 46 og fá hann lögfestan eða að lögfesta til bráðabirgða heimildir um fyrirframgreiðslu opinberra gjalda á fyrri hluta ársins 1980. Að höfðu samráði við nm. í fjh.- og viðskn. tók ég það ráð, og það ráð var tekið með þeirri vitund og vilja, að flytja frv. sem er á þskj. 96 um greiðslu opinberra gjalda fyrri hluta ársins 1980, en það er frv. það sem hér er nú til umræðu.

Meginefni þessa frv. er tvíþætt: Annars vegar, eins og kemur fram í 2. og 3. gr., að lögfesta ákvæði um hvernig innheimta skuli opinber gjöld fyrri hluta ársins 1980. Segir í 2. gr. frv., að kaupgreiðendum sé skylt að tilkynna viðkomandi innheimtumanni ríkissjóðs um þá launþega, er þeir greiða kaup, og skylt að halda eftir af kaupi þeirra til lúkningar fyrirframgreiðslu, og kaupgreiðandi, sem vanræki að halda eftir af kaupi launþega í þessu sambandi, beri sjálfskuldarábyrgð á greiðslu þess fjár.

Í 3. gr. er fjallað um dráttarvexti og lögtök á fyrirframgreiðslum og eru ákvæði bæði 2. og 3. gr. óbreytt frá þeim lögum sem voru framkvæmd hér á landi í þessu sambandi til s.l. áramóta.

Þá eru einnig ákvæðin í 5. gr. óbreytt frá því sem verið hefur, en þar er fjallað um að ráðh. geti með reglugerð kveðið nánar á um innheimtu samkv. lögunum, þ. á m. um lækkun fyrirframgreiðsluskyldu hafi tekjur gjaldanda lækkað að mun milli ára eða ef ástæður hans hafa með öðrum hætti breyst mjög.

2., 3. og 5. gr. eru sem sé óbreyttar frá þeirri framkvæmd sem var á s.l. ári og nokkrum árum þar á undan. Hitt meginefni frv. kemur fram í 1. gr. frv. og í 4. gr. þess.

Í 1. gr. er lagt til að fyrirframgreiðsluprósentan, upp í væntanleg þinggjöld hvers gjaldanda skuli vera 65% af þinggjöldum þeim sem honum bar að greiða á árinu 1979. Segir að fyrirframgreiðslan skuli falla í gjalddaga með fimm jöfnum fjárhæðum hinn 1. febrúar, 1. mars, 1. apríl, 1. maí og 1. júní árið 1980. Á s.l. ári nam fyrirframgreiðsluhlutfallið 75% af þinggjöldum ársins á undan, en í frv. er lagt til að á árinu 1980 nemi fyrirframgreiðsluhlutfallið 65% af þinggjöldum fyrra árs. Þarna er haft mið m.a. af þeirri tilhögun sem fjárlagafrv. það, sem liggur fyrir Alþingi, gerir ráð fyrir. Að þeim forsendum skoðuðum tel ég, að höfðu samráði við Þjóðhagsstofnun og fleiri aðila, að óhætt sé að gera tillögu um að fyrirframgreiðsluhlutfallið til ríkisins skuli nema 65% af þinggjöldum fyrra árs, með því móti muni innheimtast því sem næst það sem innheimta þarf á fyrri helmingi ársins, án þess að skattþegnum sé óeðlilega íþyngt né heldur óeðlileg áhætta tekin fyrir ríkissjóð. Verði hins vegar breytt frá þeim áformum, sem eru í núv. frv. til fjárl. um tekjuskattsheimtu, til verulegrar hækkunar mundi fyrirframgreiðslutalan hins vegar geta orðið til þess að skattbyrði á einstaklingum og fyrirtækjum þyngdist allnokkuð á síðara helmingi ársins.

Til þess að greiða fyrir því, að frv. fengi greiðan gang og hraðan í gegnum þingið, hafði ég samráð um það við fulltrúa þingflokkanna í gær og í fyrradag hvert fyrirframgreiðsluhlutfallið skyldi vera. Koma þá einkum til greina tvær tölur: 70% og 65%. Ég óskaði eftir að fá að vita hvort þingflokkarnir gætu tjáð afstöðu sína fyrir fram til þeirra hugmynda, þannig að lægi ljóst fyrir hvort ágreiningur mundi rísa um málið á Alþ. Ég fékk svör í gær frá einum þingflokki, sem tjáði sig reiðubúinn til að standa að samþykkt 65% fyrirframgreiðsluhlutfalls. Aðrir þingflokkar tjáðu sig ekki formlega, en ég hef ástæðu til að ætla að þm. geti yfirleitt á 65% fallist.

Seinni mgr. 1. gr. lýtur hins vegar að því, að með þeim lögum, sem tóku gildi um s.l. áramót, er gert ráð fyrir að hjón sem samsköttuð voru á árinu 1979 verði sérsköttuð á árinu 1980. Eins og nú standa sakir og eins og verður eftir samþykkt þessa frv., ef samþ. verður, er aðeins tekin fyrirframgreiðsla af tekjum þess hjóna sem skatturinn hefur verið lagður á hafi hjónin talið sameiginlega fram á s.l. ári. Þetta hefði getað orðið til þess, að þegar fyrirframgreiðslu hefði lokið á miðju ári hefði það hjóna, sem látið hefði verið borga fyrirframgreiðsluna í nafni þeirra beggja, verið búið að ljúka greiðslu á sínum skatti að fullu, en hitt hjónanna, sem skattlagt yrði samkv. ákvæðum gildandi laga, en hefði verið samskattað á s.l. ári, hefði þá átt eftir að greiða öll gjöld af tekjum sínum. Fyrir því er gerð till. um að 2. mgr. 1. gr. hljóði eins og í frv. segir, að af hjónum, sem samsköttuð voru á árinu 1979, skuli innheimta sameiginlega fyrirframgreiðslu miðað við skatta þá er á þau voru lagðir sameiginlega á árinu 1979 og beri hjónin samábyrgð á þeirri greiðslu. Skal fyrirframgreiðsla þessi ganga til greiðslu á þinggjöldum, er á hjónin hvort um sig kunna að verða lögð á árinu 1980, í sömu hlutföllum og verða milli heildarþinggjalda þeirra á árinu. Dráttarvextir, er á kunna að falla vegna vanskila á sameiginlegri fyrirframgreiðslu hjóna, skulu samkv. tillögu frv. skiptast eftir álagningu milli hjóna í sömu hlutföllum.

Með því að lögfesta þetta ákvæði eru tekin af öll tvímæli um hvernig halda eigi á fyrirframgreiðslumálum hjá hjónum sem voru samsköttuð á s.l. ári, og fyrirframgreiðslan miðast við þá framkvæmd skattalaga, en verða sérsköttuð með þeim lögum sem gengu í gildi um s.l. áramót.

Þegar það spurðist út í gær, að til stæði að leggja til að fyrirframgreiðsluprósentan yrði aðeins 65% á árinu 1980 varðandi þinggjöld til ríkisins samanborið við 75% á s.l. ári, höfðu öll sveitarfélögin tal af mér og fjmrn.mönnum og ýmsum þm. og kvörtuðu mjög undan því, að slík prósenta mundi ekki nægja þeim til þess að ná inn á fyrri helming ársins áætluðum tekjum sem þyrftu til þeirra að ganga.

En eins og kunnugt er hefur ekki verið gert ráð fyrir að lækka útsvarsheimtu á árinu 1980 með sama hætti og tillaga hefur verið gerð um að lækka tekjuskattsheimtu á því ári. Forsvarsmenn allra stærstu sveitarfélaganna hér í grenndinni báru sig mjög undan þessu og lýstu yfir, að ef ekki yrði gengið til móts við sveitarfélögin varðandi fyrirframgreiðsluprósentuna mundu þau eiga erfitt við að ráðast í nokkrar framkvæmdir á fyrri hluta árs 1980, sem sveitarfélög þessi hefðu þó gert ráð fyrir. Svo vill til, að ekki var heimilt í þeim lögum, sem úr gildi féllu um s.l. áramót að fyrirframinnheimta sveitarfélaga yrði hærri en næmi þeirri fyrirframinnheimtu sem ríkissjóður ætlaði sér að taka. Hins vegar varð ég þess áþreifanlega var í þinginu í gær, að mikill skilningur ríkti á málaleitan sveitarfélaganna, sem að mörgu leyti er eðlileg, og vildi ég reyna að finna leið til að ganga til móts við óskir sveitarfélaganna án þess þó að þurfa að hverfa frá þeirri tillögu, að fyrirframgreiðsluprósentan til ríkisins af þinggjöldum yrði ekki á næsta ári meiri en 65%. Niðurstaðan varð sú sem segir í 4. gr. og þar er lagt til, að þrátt fyrir að fyrirframgreiðsluprósentan til ríkisins á árinu 1980 verði aðeins 65% af þinggjöldum skuli sveitarstjórnum heimilt á því ári að innheimta fyrir fram til greiðslu upp í útsvar allt að 70% af útsvari fyrra árs.

Ég vil í þessu sambandi, með leyfi hæstv. forseta, lesa bréf frá Sambandi ísl. sveitarfélaga sem mér barst í morgun, dags. 16. jan., og hljóðar svo:

„Í sambandi við undirbúning að setningu laga um innheimtuákvæði opinberra gjalda og með hliðsjón af því, að Þjóðhagsstofnun áætlar að tekjuhækkun einstaklinga milli áranna 1978 og 1979 nemi 44–45%, fer Samband ísl. sveitarfélaga fram á að hlutfall fyrirframgreiðslu útsvara á árinu 1980 verði ákveðið eigi lægra en 70% af útsvari fyrra árs, en það jafngildir því að fjárhæð útsvara hækki um 40% milli áranna 1979 og 1980. Verði innheimtuhlutfallið ákveðið lægra mun það leiða til versnandi greiðslustöðu sveitarfélaganna fyrri hluta ársins og til hlutfallslegrar aukningar á skattbyrði gjaldenda síðari hluta ársins. Tekið skal fram, að engin vandkvæði verða séð á því að ákveða mishátt innheimtuhlutfall á fyrirframgreiðslu gjalda til ríkissjóðs annars vegar og sveitarsjóðs hins vegar, ef sérstakar ástæður þykja vera fyrir hendi. Þar sem innheimta er sameiginleg þarf þó lagaheimild til að ákveða meðaltalshlutfall.

Virðingarfyllst,

Jón G. Tómasson.“

Þetta bréf mun ég láta ganga til þeirrar n. sem fær frv. þetta til umfjöllunar.

Þá barst mér beiðni rétt áðan frá forsvarsmanni annars sveitarfélags, Kópavogskaupstaðar, þar sem var komið á framfæri eindreginni ósk og samþykkt kaupstaðarins um að sveitarfélög fengju á árinu 1980 að taka fyrir fram 75% af álögðum gjöldum fyrra árs og að áliti bæjarstjórnar Kópavogs væri nauðsynlegt að hafa slíkt innheimtuhlutfall fyrir það sveitarfélag miðað við reynslu fyrra árs af áætlun Þjóðhagsstofnunar.

Ég hef því gert þá till., eins og fram kemur í frv., að þó að fyrirframgreiðsla til ríkissjóðs nemi aðeins 65% af álögðum þinggjöldum fyrra árs verði sveitarfélögum heimilað að innheimta allt að 70% af sínum gjöldum frá fyrra ári fyrir fram.

Í niðurlagi 4. gr. frv. er gengið til móts við hvernig eigi að framkvæma þessa mismunandi fyrirframinnheimtu þar sem innheimta ríkisins og sveitarfélaga er sameiginleg, svo sem eins og í Reykjavík og nágrannasveitarfélögum, en þar segir, með leyfi forseta:

„Þar sem innheimta ríkis og sveitarfélaga er sameiginleg getur fjmrh. með reglugerð ákveðið fyrirframgreiðsluna innan þeirra marka, er um getur í 1. mgr. 1. gr. og 1. mgr. þessarar greinar, með hliðsjón af hlutfalli milli útsvara og þinggjalda í viðkomandi umdæmi árið 1979.“

Samkv. þessu yrði fyrirframgreiðsla Reykvíkinga, þar sem innheimt eru sameiginlega fyrirframgjöld til ríkis og sveitarfélags, eitthvað nálægt 68%.

Herra forseti. Ég held að ég hafi ekki fleiri orð um þetta mál því að ég hef þegar rætt það nokkuð ítarlega, bæði við formenn fjh.- og viðskn. beggja d. og enn fremur við nokkra þm. úr ýmsum flokkum. Ég legg mjög mikla áherslu, eins og ég sagði áðan, á nauðsyn þess, að úr þessu máli fáist skorið fyrir helgina, að það komi í ljós hvort líklegt sé að fulltrúar stjórnmálaflokkanna í fjh.og viðskn. þessarar hv. d. geti fallist á þá fyrirframgreiðsluprósentu sem tillaga er gerð um í frv., því að ef í ljós kemur að það sé unnt verður engin stöðvun á vinnu sveitarfélaga og annarra þeirra aðila sem kröfur gera í fyrirframgreiðslu opinberra gjalda. Ef hins vegar yrði einhver verulegur ágreiningur uppi um þetta mál gæti svo farið að sveitarfélögin og aðrir aðilar, sem gera ella kröfur til fyrirframgreiðslu í tengslum við n.k. áramót, missi af þeirri kröfugerð sinni og almenningur yrði þá að taka á sig nokkra skattþyngingu á síðari mánuðum ársins sem atleiðingu af því.

Ég hef óskað eftir því við formenn fjh. og viðskn., að þeir hafi sameiginlegan fund á eftir til að fjalla um þetta mál, og hef óskað eftir að þær reyni að ljúka umfjöllun sinni um málið í dag, þannig að hægt verði — með velvild forseta — að afgreiða þetta mál, ef samstaða næst um það, frá Nd. í dag og þá e.t.v. sem lög frá Alþingi á morgun.

Að svo mæltu legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.