16.01.1980
Neðri deild: 18. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 380 í B-deild Alþingistíðinda. (434)

65. mál, greiðsla opinberra gjalda 1980

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Í framhaldi af orðum síðasta hv. ræðumanns um 3. gr. þessa frv. sem nú er til 1. umr., um greiðslu opinberra gjalda fyrri hluta ársins 1980, vil ég gera aths. við orðalag þar. Það er aðeins eitt orð sem ég tel að breyti miklu og kemur í veg fyrir að ég standi með frv. í heild ef það verður ekki lagfært, en það er um gjalddaga og dráttarvexti.

3. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Séu gjöld samkv. lögum þessum ekki greidd inna mánaðar frá gjalddaga skal greiða ríkissjóði dráttarvexti af því sem ógreitt er, talið frá og með gjalddaga“ — og svo heldur greinin áfram um dráttarvexti samkv. lögum nr. 10 frá 1951.

Ég hef sem sveitarstjórnarmaður orðið var við að þessu ákvæði laganna hefur verið framfylgt bókstaflega, þannig að það, sem ógreitt er af sköttum hjá fólki, hefur verið innheimt og dráttarvextir fallið á það, En í staðinn fyrir orðið „ógreitt“ hefði ég viljað að stæði „gjaldfallið“, svo að væri alveg ljóst og ekki túlkunaratriði að dráttarvextir hverju sinni verði reiknaðir af því sem gjaldfallið er hverju sinni en ekki af því sem ógreitt er af sköttum.

Nú er það svo, að íþyngjandi skattar ríkisins, bæði óbeinir og beinir verða oftast nær frekar en eyðslusemi fólks til þess að það stendur ekki í skilum. Vitandi að 4% lán skattheimtunnar er dýrasta lán, sem hægt er að taka, stendur fólk samt sem áður ekki í skilum. Það er ekki auðvelt fyrir fólk að standa skil á sköttum til hins opinbera í hvert skipti sem peningar eru notaðir, annað hvort beinum eða óbeinum sköttum. Stór hluti þeirrar vöru, sem íslenska þjóðin notar, er innfluttur og þar er skattheimtan gríðarlega mikil. Skattheimta er á hverju einasta stigi í samskiptum manna á milli í þjóðfélaginu. Ég held að mér sé óhætt að segja sem sveitarstjórnarmanni, að það mundi koma sér afskaplega illa fyrir Reykjavíkurborg ef allir stæðu í skilum. Það mundi hreinlega setja Reykjavíkurborg á hausinn, vegna þess að í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar er það orðinn fastur liður að bókfæra dráttarvexti. Í fjárhagsáætlun sem nú bíður endanlega afgreiðslu í borgarstjórn Reykjavíkur, eru dráttarvextir á annan milljarð sem tekjur. Ef Reykjavíkurborg allt í einu missti af þeirri tekjulind sem dráttarvextirnir eru yrði að draga saman sem því nemur í rekstri eða framkvæmdum á vegum Reykjavíkurborgar. Það er ekkert smáatriði sem hér er fjallað um. Ef á að leyfa með þessu orðalagi innheimtu dráttarvaxta af ógreiddum opinberum gjöldum, sem þó eru ekki fallin í gjalddaga, einungis af því að ein greiðsla er í vanskilum, álít ég að þessi lög yrðu enn ranglátari en þau verða með þeirri breytingu sem ég legg til.

Hér er um ósanngjarna innheimtu að ræða, svo ósanngjarna að mér er ógeðfellt að standa að þessu frv., jafnvel þó að orðalagsbreyting sú, sem ég benti á, verði samþykkt. Þjóðfélagið er farið að lifa á dráttarvöxtum. Ég hef alltaf skilið það svo, að fyrst kæmu vextir, svo kæmu dráttarvextir. En hér er beinlínis með lögum farið beint í dráttarvexti. Ég hef ekki haft tíma til að athuga þau lög sem vitnað er í, 13. gr. laga nr. 10 frá 1961, þar sem talað er um vexti annars vegar og dráttarvexti hins vegar. Ég þarf að athuga þau og mun gera það í n. Ef svo er sem ég held er verið að hlaupa yfir eitt stig vaxta og beint yfir í hæstu vexti ef menn standa ekki í skilum við Gjaldheimtuna.

Þetta er hugsunarháttur sem hefur ríkt hér árum saman. Það er eins og ríkið sé óseðjandi í innheimtufrekju sinni þegar það hvað eftir annað og á öllum stigum skattleggur vandann sjálfan. Það er vandi fólks sem er verið að skattleggja þarna. Það er vandi þjóðarinnar sem er verið að skattleggja þegar við erum að skattleggja erlendar olíuhækkanir. Í staðinn fyrir að láta krónuhækkunina eina erlendis koma beint á útsöluverð hér er bætt við tollum og sköttum — guð má vita hvað þeir heita allir, söluskattur, vörugjald o.s.frv. Hér er verið að skattleggja vanda fólksins ef það kemst í greiðsluþrot. Greiðsluþrot eru oftast nær vegna þess að á öllum stigum, ég endurtek: öllum stigum mannlegra samskipta er ríkið inni á milli með skattheimtu, annaðhvort óbeint eða beint. Ég vara við þessum hugsunarhætti enn einu sinni.