16.01.1980
Neðri deild: 19. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 382 í B-deild Alþingistíðinda. (439)

39. mál, óverðtryggður útflutningur búvara

Flm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Á þskj. 39 hef ég ásamt átta öðrum þm. leyft mér að flytja frv. til l. um greiðslu bóta á óverðtryggðan útflutning búvara. Meðflm. mínir eru hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, Þórarinn Sigurjónsson, Ragnar Arnalds, Alexander Stefánsson, Páll Pétursson, Skúli Alexandersson, Ólafur Þ. Þórðarson og Halldór Ásgrímsson. 1. gr. frv. er þannig með leyfi forseta:

„Greiða skal úr ríkissjóði 3 milljarða kr. til að bæta bændum að nokkru óverðtryggðan útflutning landbúnaðarafurða á verðlagsárinu 1978 — 1979 og til að greiða fyrir sölu á þeim búvörubirgðum, sem voru óseldar við upphaf yfirstandandi verðlagsárs. Framangreind fjárhæð verði greidd á fyrsta ársfjórðungi ársins 1980.

Heimilt er ríkisstj. að taka lán til þess að standa straum af þessum greiðslum, sem síðan verði endurgreitt með framlögum á fjárl. næstu þrjú ár.

Landbrn. setur reglur um greiðslur þessara bóta til bænda að fengnum till. frá stjórn Stéttarsambands bænda og skal Framleiðsluráð landbúnaðarins annast greiðslurnar.“

Ljóst er að bændur hafa orðið fyrir mjög tilfinnanlegri tekjuskerðingu vegna ótryggðs útflutnings búvara á síðasta verðlagsári og vegna óseldra birgða við upphaf þessa verðlagsárs sem hófst 1. sept. s.l., sem engin útflutningstrygging er til fyrir. Framleiðsluráð landbúnaðarins neyddist til að innheimta verðjöfnunargjald á síðasta verðlagsári, bæði af kjöti og mjólk, til að geta jafnað á milli framleiðenda. Gjald þetta reyndist nokkru lægra en áður hafði verið reiknað með, þar sem útflutningur varð minni á verðlagsárinu en stefnt var að. M.a. hafði farmannaverkfallið í fyrravor áhrif á það. Þess vegna urðu birgðir meiri af sumum vörutegundum í lok verðlagsársins en gert hafði verið ráð fyrir.

Verðjöfnunargjaldið varð sem hér segir: Fyrir hvert kg dilkakjöts 165 kr., fyrir hvert kg af fullorðnu 87.50 kr. og fyrir hvern mjólkurlítra allt árið 10 kr. Til þess að ná fullu verði til framleiðenda fyrir þær búvörur, sem út voru fluttar á verðlagsárinu, skorti 3 milljarða 487 millj., sem jafnað var á milli með þessum hætti. En í lok verðlagsársins voru, eins og áður sagði, verulegar birgðir af vörum sem ekki verður komist hjá að flytja út. T.d. voru til 1227 tonn af ostum, verulega meira magn en á sama tíma á árinu áður, 375 tonn af kjöti af fullorðnu — og í haust var slátrað um 34 þús. fleira af fullorðnu en árið áður og er því til nú um 1000 tonnum meira af kjöti af fullorðnu en var í fyrra, sem ekki er markaður til fyrir hér innanlands. Rúm 900 tonn voru til af dilkakjöti og verulegt magn af hrossakjöti. Í haust og vetur hefur verið slátrað óvenjumiklu af hrossum og er því til mikið hrossakjöt, sem er ekki séð hvernig verður afsett. Ef flutt hefði verið út það magn af búvörum á síðasta verðlagsári hefði skort um 5.5 milljarða á útflutningstryggingarfé. Þetta lá ljóst fyrir á síðasta vori, þegar þessi vandamál voru rædd hér í hv. d. og till. bornar fram til lausnar á því máli, en málalok eru svo eftirminnileg að óþarft ætti að vera að rifja þau upp nú.

Til viðbótar þeirri tekjuskerðingu, sem leiddi af þessari gjaldtöku, koma svo erfiðleikar bænda vegna harðindanna í fyrravor og sumar, aukinn fóðurkostnaður, aukin áburðarkaup, mjög mikil vanhöld, mikil skerðing á bústofni vegna lélegra og lítilla heyja, um norðanvert landið þó sérstaklega, og svo langtum minni afurðir. T.d. var fallþungi verulega minni en í meðalári á landinu öllu, allt frá 1/2 kg upp í 4 kg að meðaltali á nokkuð mörgum býlum. Af þessum völdum var t.d. tekjutapið hjá þeim bændum, sem leggja inn afurðir sínar hjá Kaupfélagi Norður-Þingeyinga á Kópaskeri, um 2 millj. á hvert býli að meðaltali.

Ég hef fengið grg. frá einum oddvita sem sýnir hvernig þetta kemur út. Hann tekur sitt bú, það er tvíbýli þar sem voru 574 dilkar, og hjá þessu búi er afurðatapið tæpar 3 millj., eða 2 millj. 992 þús. kr. En vanhaldatjón búsins var 67 lömb og 21 fullorðin kind, eða rúmlega 2.6 millj. kr., þannig að á þessu eina býli var tekjuskerðingin af þessu tvennu rúmlega 5 millj. 600 þús. kr.

Þá er tekið í þessari athugun hvernig það kemur út í öllum hreppnum, bæði vanhöld og minni þyngd, og kemur í ljós að hvort tveggja, tekjutapið af þessum tveimur ástæðum, er 3.3 millj. kr. Ekki fer því á milli mála að efnahagsvandi bænda er mjög alvarlegur og því þýðingarmikið að gerðar séu nú þegar ráðstafanir til að draga úr tekjuskerðingunni með því að samþykkja frv. það sem hér er til umræðu.

Hv. alþm. ættu að leiða hugann að því í þessu sambandi, að síðasta ár var kaldasta ár sem komið hefur á þessari öld. Í slíku árferði áður fyrr hefði orðið fellir, enda má fullyrða að það sé með meiri háttar afrekum að bændur skyldu komast í gegnum þá erfiðleika, sem mættu þeim á síðasta ári, á þann hátt sem gert var og áföllin skyldu ekki verða miklu meiri en raun bar vitni. Hins vegar liggur það nú fyrir, að mjög margir bændur urðu tekjulitlir og jafnvel tekjulausir, og má fullyrða að ef einhver önnur stétt hefði orðið fyrir slíku tekjutapi hefðu stjórnvöld verið búin að gera ráðstafanir til að hlaupa undir bagga á einhvern hátt.

Lög Bjargráðasjóðs gera ráð fyrir að sá sjóður annist greiðslur til bænda ef svo mikið afurðatjón á sér stað sem nú hefur orðið víða. En Bjargráðasjóður hefur enga fjármuni til þess, og skortir enn mikið á að hann geti sinnt öðrum tjónum sem orðið hafa á s.l. ári. En það er ekki sæmandi að þessi mál séu ekki tekin til meðferðar hér á hinu háa Alþingi og gerðar ráðstafanir til að bæta þarna úr með einhverjum hætti, a.m.k. hjá þeim sem hafa orðið fyrir mestu afurðatjóni og tekjuskerðingu.

Hæstv. landbrh. lét þau orð falla hér í hv. d. s.l. mánudag, að hann teldi þau lánakjör góð sem boðin eru í Bjargráðasjóði í sambandi við fóðurkaup á s.l. vetri og vori, þ.e. vaxtalaus lán með fullri verðtryggingu. Ég geri ekki ráð fyrir að hæstv. ráðh. fái marga bændur til að taka undir þessi orð. Ég tel að flestir bændur muni líta svo á, að þessi skoðun hæstv. ráðh., að telja megi það góð kjör hjá Bjargráðasjóði að lána bændum, sem orðið hafa fyrir miklum áföllum með framleiðslu sína, lán með fullri verðtryggingu, þó vaxtalaus séu, gefi til kynna að hæstv. ráðh. hafi ekki haft fyrir því að kynna sér þessi mál til hlítar. Bjargráðasjóður er að verulegu leyti tryggingasjóður. Bændur greiða í sjóðinn iðgjöld, 0.35% af allri sinni framleiðslu. Hefur hæstv. ráðh. kynnt sér hvernig staðið er að því að aðstoða aðra þegna í þessu þjóðfélagi þegar þeir missa sínar tekjur? Hvernig er með útgerðarmenn þegar aflabrestur verður? Hvers konar aðstoð fá þeir úr Aflatryggingasjóði? Eru það lán, hvað þá lán með fullri verðtryggingu? Hvernig er með launafólk sem missir atvinnu? Er því boðið lán, hvað þá lán með fullri verðtryggingu? En ef bændur verða tekjulausir eða tekjulitlir telur hæstv. landbrh. að það sé vel með þá farið að bjóða þeim lán til að kaupa nauðþurftir fyrir og það með fullri verðtryggingu. Það er ekki að undra þó hæstv. ráðh. sé stoltur af sínum hlut í þessu máli.

Auðvitað á að byggja Bjargráðasjóð upp á svipaðan hátt og aðrir tryggingasjóðir eru byggðir upp, með því að hækka iðgjöld til hans svo að hann standi undir nafni. Ef hann á að fara að starfa á þann veg sem Alþfl.-menn leggja til, að hann láni og afgreiði mál sín með þessum hætti, þá er ekkert með þennan sjóð að gera og þá er fráleitt að bændur séu að borga í sjóðinn á sama hátt og verið hefur. Ég sé a.m.k. ekki örla á jafnaðarstefnu í því að láta bændur hlíta allt öðrum kjörum en aðra landsmenn þegar þeir verða tekjulausir vegna veðurfars eða annarra áfalla sem þeim eru óviðráðanleg.

Í maí s.l. skipaði landbrh. nefnd, sem m.a. fékk það verkefni að gera till. til ríkisstj. um lausn á vandamálum bænda vegna söluerfiðleika erlendis á umframframleiðslu landbúnaðarafurða, þannig að tekjuskerðing bænda verði sem minnst. Í nefnd þessari áttu sæti fulltrúar allra stjórnmálaflokkanna ásamt fulltrúum frá Búnaðarfélagi Íslands og Stéttarsambandi bænda. Nefndin klofnaði í afstöðu sinni til málsins, fulltrúi Alþfl. skilaði séráliti. Í áliti meiri hl. segir m.a.:

„Vegna þeirra sérstöku aðstæðna, sem skapast hafa vegna óheftrar framleiðslu undangenginna ára, telur meiri hl. nefndarinnar rétt að lagt verði fram fé að þessu sinni til viðbótar lögboðnum útflutningsbótum. Meiri hl. álítur að hinar nýju heimildir Framleiðsluráðs til aðgerða, sem ætlað er að koma skipulagi á framleiðslu landbúnaðarvara, muni fremur ná því marki að aðlaga framleiðsluna þörfum þjóðarinnar, ef ekki þarf að fást við fjárhagsvanda frá fyrri árum og söluerfiðleika vegna eldri birgða. Meiri hl. nefndarinnar leggur því eftirfarandi til við ríkisstj.:

1. Að hún útvegi viðbótarfjármagn að upphæð 3 milljarða kr. til að bæta bændum að nokkru óverðtryggðan útflutning landbúnaðarafurða á yfirstandandi verðlagsári og til að greiða fyrir sölu á þeim búvörubirgðum, sem í of stórum mæli eru óseldar við upphaf nýs verðlagsárs. Fjárhæð þessi svarar til 2/3 hluta af þeirri tekjuskerðingu sem annars blasir við að bændur verði fyrir, ef ekkert er að gert.

2. Af framangreindri upphæð verði 2 milljarðar kr. útvegaðir svo fljótt að þeir komi til nota fyrir lok verðlagsársins, svo að Framleiðsluráð geti dregið verulega úr innheimtu þess verðjöfnunargjalds sem þegar hefur verið ákveðið.“

Á þessu áliti meiri hl., sem er samkomulag fulltrúa Framsfl., Sjálfstfl., Alþb., Stéttarsambands bænda og Búnaðarfélags Íslands, er þetta frv. byggt.

Þegar ég var á aðalfundi Stéttarsambands bænda í sumar kom til umræðu vöntun á útflutningsbótum. Þar lýsti ég yfir að ég mundi beita mér fyrir því að fá samstöðu allra flokka um að flytja frv. sem fæli í sér lausn á því máli, ef ríkisstj. hefði þá ekki náð samstöðu um lausn málsins. Þegar til þings kom í okt. s.l. reyndi ég að fá samstöðu um þetta mál. Ég fékk neitun hjá Alþfl. Ég beið eftir svari frá Sjálfstfl. fram á síðustu stund og var lítið um svör af hans hálfu. En Alþb. var strax til í að standa að flutningi þessa frv. Ég lagði frv. þetta fram daginn fyrir þingrofið. Flm. voru þá frá sömu flokkum og nú. En daginn eftir að okkar frv. var lagt fram lögðu nokkrir þm. Sjálfstfl. frv. það fram sem þeir endurflytja nú á þessu þingi og kom til umr. hér í hv. deild s.l. mánudag. Eini munurinn á þessum tveimur frv. er sá, að okkar frv. gerir ráð fyrir að ríkissjóður greiði þá 3 milljarða, sem frv. gerir ráð fyrir að bætt verði við lögbundið framlag vegna útfluttra búvara, en í frv. hv. sjálfstæðismanna vilja þeir binda það í lögum, að Byggðasjóður leggi fram þetta fjármagn á næstu þremur árum. Ég tel að það sé óeðlilegt að taka þetta fjármagn úr Byggðasjóði. Hann mun hafa nóg með sitt fjármagn að gera til annarra verkefna, t.d. til að létta undir við að byggja upp atvinnurekstur í strjálbýlinu og víðar. Ég tel líka mjög óeðlilegt að ráðstafa fjármagni Byggðasjóðs með löggjöf á þann hátt sem það frv. gerir ráð fyrir. En um þetta atriði ætla ég ekki að ræða frekar nú, ekki síst vegna þess að þetta frv. kemur í n. sem ég á sæti í, og mun ég ræða þetta atriði við 2. umr. ef þess gerist þörf.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. landbn.