17.01.1980
Sameinað þing: 13. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 398 í B-deild Alþingistíðinda. (455)

12. mál, mengunarvarnir í fiskimjölsverksmiðjum

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég vil fyrir hönd okkar flm. þessarar þáltill. þakka fyrir jákvæðar undirtektir sem hún hefur fengið hjá hæstv. heilbr.- og trmrh. og hv. þm. Gunnari Thoroddsen. Ég held að það blandist engum hugur um það, að nauðsynin á úrbótum í sambandi við mengunarvarnir í fiskimjölsverksmiðjum hérlendis er afar brýn, og ég vil í tilefni þess, sem hæstv. heilbr.- og trmrh. sagði um þetta, láta það koma fram, að ég tel að það sé ekki eftir miklu að bíða að hefja það átak, sem þáltill. gerir ráð fyrir, og vinna að þeirri áætlun, sem þar er gert ráð fyrir að gerð verði. Ég held að það geti vel fallið að undirbúningi þess máls, að aðilar, sem þetta mál snertir mest komi saman á vettvangi nefndar eða með öðrum hætti til þess að leggja fram viðhorf sín og tillögur varðandi slíka áætlunargerð. En mér finnst það liggja í orðum hæstv. ráðh., að ekki væri tímabært að hefja vinnu að áætlun af þessu tagi, um þessar mengunarvarnir, heldur þyrfti fyrst að fara fram eins konar frumkönnun á vettvangi nefndar og síðan þyrfti að athuga fjölmörg atriði, m.a. tæknilegar hliðar, búnað og annað þess háttar.

Þetta viðhorf kann að stafa af nokkrum ókunnugleika á þessum málum — skal ég þó ekki um það dæma — en þessi mál eru ekki svo flókin, þó nokkuð flókin geti talist, að það þurfi sérstakar frumkannanir hérlendis að þessu leyti. Þetta er alþekkt vandamál í grannlöndum okkar, sem þar hefur verið sigrast á með myndarlegum hætti. Í Færeyjum, ekki þarf lengra að leita, held ég að loftmengun af því tagi, sem við megum búa við í okkar sjávarplássum víða um landið af völdum fiskimjölsverksmiðja, hafi verið útilokuð að verulegu leyti, og í Noregi og Danmörku hefur verið ráðin bót á þessum málum.

Það hefur réttilega verið á það bent, að aðstæður hérlendis séu að því leyti ólíkar því sem sums staðar gerist í grannlöndum okkar, að starfstími þessara verksmiðja þar sé til muna lengri en hér gerist, og því sé að tiltölu kostnaðarsamara að koma upp mengunarvarnabúnaði við hérlendar verksmiðjur. Ég get alveg fallist á það, að þetta er réttmæt ábending. En hún vísar einnig til þess, sem ég tel nauðsynlegt, að það sé metið og raunar gerð áætlun um endurbyggingu á þessum verksmiðjukosti okkar hérlendis og þá með það í huga að ná fram betri nýtingu á verksmiðjunum en nú er, e.t.v. með sameiningu þeirra, þ.e. að fækka þeim að einhverju leyti, ef horft er til langs tíma, og reyna þannig að auka nýtingartímann. Slíkt er að sjálfsögðu alltaf viðkvæmt atriði, ef leggja á af fyrirtæki af þessu tagi í einhverju byggðarlagi. En á þessi mál verður að líta raunsætt, og það er hægt að skipta verkum þannig að menn geti við unað. Það þarf líka að hugsa um rekstrarafkomu þessara fyrirtækja hvað hinn almenna rekstur snertir og taka þar inn í, svo sem réttmætt er og nauðsynlegt, kostnað við viðunandi mengunarvarnir.

Mér er það minnisstætt áður en ég kom á Alþ. — ég held að það hafi verið veturinn 1977–78 — að málefni fiskimjölsverksmiðja voru til umr. hér á hv. Alþ. og fjölmargir alþm. tóku þar til máls um þessi efni. Var einkum um það rætt, hvort auka ætti við verksmiðjukostinn, fjölga þeim, — mig minnir að það hafi verið aðalinntakið, — en ég man ekki eftir að mengunarvarnir eða sá þáttur hafi yfirleitt komið inn í þær umræður. Það hefur þó varla farið fram hjá mörgum hv. alþm., hversu mikill ami er að þeirri mengun, sem frá fiskimjölsverksmiðjunum stafar, og hversu afar brýnt er að þar verði ráðist í úrbætur.

Eins og fram kemur í þessari till. okkar og hv. frummælandi hefur þegar komið hér á framfæri, gerum við ekki ráð fyrir að hægt verði að leysa þennan vanda á mjög skömmum tíma. En þeim mun brýnna er að í verkið sé ráðist myndarlega, þeim undirbúningi lokið, sem eftir er, og málin síðan tekin í réttri röð.

Hæstv. ráðh. vék að tæknilegri hlið málsins og nauðsynlegri athugun á búnaði, og ég vil ekki gera lítið úr því að menn velji þar rétt. En ég tel ekki að það eigi að vera stjórnvöld, sem kveði upp dóma um hvers konar búnaður, af hvers konar gerð, eigi að vera valinn til mengunarvarna, heldur eigi stjórnvöld að setja almennan mælikvarða um það, hvaða kröfur slíkur búnaður eigi að uppfylla. Það er gott dæmi í þessu sambandi að benda á til hvers það getur leitt, ef stjórnvöld eru farin að skipa fyrir um þessi efni, og þar á ég við þær ábendingar eða fyrirmæli, sem komu frá Heilbrigðiseftirliti ríkisins á árunum upp úr 1970, þar sem talið var rétta ráðið við þessum vanda að hækka skorsteina á viðkomandi verksmiðjum og ekki vísað á aðrar lausnir. Nokkur fyrirtæki lögðu í verulegan kostnað í þessu skyni. Sums staðar lukkaðist þetta, annars staðar ekki. Slík tiltölulega einföld en þó nokkuð dýr lausn getur skilað árangri við sérstakar aðstæður, landfræðilegar aðstæður, eins og t.d. í Þorlákshöfn, en það fer mjög eftir því hvernig háttar til og hversu víðlend sú byggð er sem um er að ræða. Hækkun reykháfa hefur t.d. sáralitla þýðingu í þröngum, luktum fjörðum eins og víða á Austfjörðum, þar sem reykmökkur frá verksmiðjunum fyllir firðina á kyrrum dögum og eyðileggur fyrir íbúum þessara byggðarlaga þá ánægju sem er að þessum góðviðrisdögum, einkum að sumarlagi, og það er alveg sérstaklega eftir að bræðsla hófst að nýju á loðnu að sumarlagi að mjög verulega hefur aukist þrýstingur frá íbúum þessara byggðarlaga og kvartanir yfir því angri og ama sem af þessari mengun stafar.

Ég vil þess vegna vara við því út af fyrir sig, að stjórnvöld ætli sér að setjast í dómarasæti varðandi það, hvað sé nákvæmlega hinn tæknilega rétti búnaður, þó að eðlilegt sé að því sé gefið auga.

Annað atriði er svo það, hvernig hægt er að auðvelda íslenskum iðnaði að taka þátt í að leysa þau verkefni sem liggja fyrir á þessu sviði eins og mörgum öðrum sviðum, þar sem um er að ræða framleiðslu á búnaði sem nota þarf hérlendis. Eru þá mengunarvarnartæki ekkert sérstakt mál út af fyrir sig, heldur þarf að horfa þar til sem flestra framleiðsluþátta, en einnig að sjálfsögðu til þessa. Og hv. þm. Gunnar Thoroddsen benti réttilega á það, að full ástæða væri til að leitast við að greiða götu innlendra iðnfyrirtækja sem ætla sér að ráðast í framleiðslu á búnaði af þessu tagi, sem byggður er á íslensku hugviti, starfi íslensks uppfinningamanns. En það er langt frá því að við búum þannig að okkar framleiðsluiðnaði að þessu leyti, að hann búi við nokkuð sem heitir svipuð, hvað þá sambærileg kjör og gerist í grannlöndum okkar með aðgang að fjármagni, ekki síst þegar um er að ræða þróunarstarfsemi þar sem reynir á rannsóknir frá grunni og þróun á framleiðslubúnaði frá grunni.Ég tel að Jón Þórðarson og þeir, sem með honum hafa unnið að þessu máli, og það fyrirtæki, sem vaxið hefur upp í kringum hans uppfinningu. Lofthreinsun heitir það, að mig minnir, hafi af ótrúlegri þrautseigju leitast við að vinna sínum málum brautargengi og þróa sinn búnað, og ég óska þess að sjálfsögðu að þeir nái árangri. En við þurfum að gæta þess, að það gerast ekki kraftaverk þarna, þó að ötullega sé unnið, nema sæmilega sé staðið að aðbúnaði þessa iðnaðar og hann hafi raunverulega samkeppnismöguleika við iðnað sem erlendis starfar.

Það væri ástæða til að ræða mörg önnur mál í tengslum við þetta efni, en ég ætla ekki að taka langan tíma til þess. En vegna þess að hv. þm. Gunnar Thoroddsen vék að merku máli áðan vil ég þó fara nokkrum orðum um það efni sem hann kom aðallega að í sínu máli, en það er nauðsynin á endurbættri löggjöf varðandi umhverfismál hér hjá okkur. Þar hefur hann átt góðan hlut að með því frv., sem flutt var á Alþ. vorið 1978, um umhverfismál. Þó að ég sé ekki samþykkur því frv. efnislega um öll atriði og telji að þar séu vissir þættir sem þurfi lagfæringar við og þurfi að vera öðruvísi áður en löggjöf verði fullbúin og afgreidd, þá tel ég að að stofni til hafi þar verið um gott mál að ræða og það séu fyrst og fremst einstök atriði sem þurfi nánari skoðunar við og breytinga í sambandi við löggjöf.

Við erum í þessum efnum mjög verulega á eftir þróun sem orðið hefur í grannlöndum okkar varðandi athugun þessara mála og löggjöf á þessu sviði. Í flestum Evrópulöndum ef ekki öllum utan Íslands, þ.e. í Vestur-Evrópu, hafa verið sett á fót sérstök umhverfismálarn., og þau hafa fengið býsna víðtækt verksvið, því að þessi málaflokkur er mjög víðtækur. Við getum mjög margt af grönnum okkar lært að þessu leyti. Nú er það auðvitað ekki meginmál að stofna sérstakt rn., heldur að sjálfsögðu að haga skipan þessara mála þannig að staðið sé að framkvæmd eins og best má verða. En ég held að öllum megi vera ljóst, að núverandi skipan þessara mála í okkar stjórnkerfi er allsendis ófullnægjandi og stendur verulega í vegi fyrir réttum og eðlilegum tökum þessara mála og eðlilegri þróun hér í umhverfismálum. Því er mjög brýnt að frv. af þessu tagi, sem fjalli um svipuð efni og geti byggt að verulegu leyti á því frv., sem hér var lagt fram vorið 1978, komi aftur fram á Alþingi.

Ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar tók þetta mál upp í samstarfssáttmála sínum og gerði einmitt ráð fyrir að löggjöf af þessu tagi yrði hér sett. Þessu máli var hreyft í fyrravetur í ríkisstj. og um þetta rætt, og þáv. hæstv. félmrh. og heilbr.- og trmrh., Magnús H. Magnússon, sá er enn gegnir því starfi, hafði um það frumkvæði að sýna þetta mál í ríkisstj. Það komu fram ábendingar um æskilegar breytingar og var verið að vinna að þessum málum þegar ríkisstj. fór frá, og ég treysti því, að sú ríkisstj., sem væntanlega verður mynduð áður en allt of langt um tíður, taki myndarlega á þessum málum og gefi þeim verðugan gaum, þannig að ekki verði óhæfilegur dráttur á að við fáum hér nothæfa löggjöf, góða löggjöf á þessu sviði.

Það gæti verið ástæða til þess, hv. þdm. til glöggvunar, að víkja að því, hvaða þættir það eru sem ættu að eiga heima í stjórnkerfinu og gætu fallið undir umhverfismálaflokkinn. Þar er að sjálfsögðu um að ræða almenna náttúruvernd, útivistarmál og með óbeinum hætti ferðamál — þó að ég sé ekki að leggja til að þau falli þar undir í heild sinni — mengunarvarnir hvers konar, skipulagsmál — og þá í endurbættri löggjöf, því það er afar brýnt að okkar skipulagslöggjöf verði tekin til endurskoðunar og verði endurbætt út frá því sjónarhorni að sá málaflokkur tengist í fyrsta lagi skipulagi landsins alls, en einnig að felldar verði saman áætlanir um landfræðilegt og hagrænt skipulag og raunar félagslegir þættir líka. Norðurlöndin hin hafa tekið þessi mál upp til endurskoðunar í löggjöf á undanförnum árum og þangað mætti leita eftir mjög gagnlegum fyrirmyndum að þessu leyti, þó að ég sé engan veginn að leggja til að við séum að herma þar allt eftir. Við höfum okkar sérstöðu sem taka þarf tillit til. Inn í þetta þurfa að koma auðlindamálin alveg sérstaklega, þ.e. athuganir á okkar auðlindagrunni og æskileg stýring og ábendingar til fagráðunauta varðandi meðferð okkar auðlinda. Norska umhverfisráðuneytið hefur sérstaka auðlindadeild, og þar hafa verið þróaðar aðferðir til eins konar auðlindafjárlaga, þ.e. tillögugerð, sem byggist á mjög víðtæku mati og rannsóknum, um norskar auðlindir. Þeir tóku sérstaklega fyrir orkulindir sínar og lífrænar auðlindir sjávar þegar þeir voru að prófa líkön varðandi þessi atriði. Og ég tel að meðferð okkar máta að þessu leyti þurfi að vera með ekki ósvipuðum hætti, þannig að það séu ekki einvörðungu viðkomandi fagráðuneyti, sem leggi mat á nýtinguna, heldur sé það aðili sem eigi alveg sérstaklega að gæta þess að um hóflega og skynsamlega nýtingu sé að ræða, horft til lengri tíma. Fagráðuneytin eru oft — og mjög eðlilega — undir verulegum þrýstingi frá viðkomandi hagsmunaaðilum þegar um nýtingu er að ræða. Það getur verið mjög gagnlegt að hafa aðila í stjórnkerfinu sem á lögum samkvæmt að horfa á þessi mál í heild sinni.

Þessu skyld er landnýtingin og tengist að sjálfsögðu skipulagsmálunum, einnig málefni eins og skógrækt og landgræðsla sem nú heyra undir landbrn. Sjálfsagt yrði umdeilt hvort það ætti að færa undir umhverfismálaráðuneyti, þó að það sé gert t.d. í Danmörku. Þar eru skógræktarmál undir þeirra umhverfisráðuneyti. Þjóðminjavernd gæti vel átt heima í slíku rn. — Danir hafa t.d. tekið sína þjóðminjavernd undir umhverfisráðuneytið — að sjálfsögðu friðun plöntu- og dýrategunda og almenn dýraverndarmál, meðferð eiturefna og hættulegra efna, sem sérstök reglugerð gildir um og vísað er til í grg. með þessari þáltill., og svo að sjálfsögðu alþjóðasamningar um umhverfismál. Slíku rn. eða stjórnardeild mundu síðan tengjast fjölmargar stofnanir í okkar stjórnkerfi, sem nú heyra undir fjölmörg rn. Sum gætu með beinum hætti tengst umhverfisráðuneyti eða tengsl yrðu sköpuð með óbeinum hætti, sem einnig gæti átt við í mörgum tilfellum. Þetta segi ég hér aðeins til að vekja athygli á því, að hér er mikil nauðsyn á að taka þessi mál nýjum tökum og endurskoða löggjöf okkar að þessu leyti.

Það var vakin athygli á þessum málum á náttúruverndarþingi vorið 1972 í till. sem ég átti raunar hlut að ásamt fleirum að þar varflutt, og síðan tók Náttúruverndarráð þetta mál upp sérstaklega og hreyfði því við stjórnvöld. Upp úr þessu óx það frv., sem getið var um áðan og margt gott má um segja.

Ég vil svo að endingu vænta þess, að sú þáltill., sem hér er flutt um mengunarvarnir í fiskimjölsverksmiðjum, fái góðan framgang og stuðning hér í Sþ., þess verði ekki langt að bíða og við þurfum ekki að fara hér af þinginu án þess að samþykktir hafi verið gerðar í þá átt sem þessi till. vísar til.

Mengunarmál hafa oft verið til umr. hér á Alþ. en þau hafa alveg sérstaklega verið í tengslum við orkufrekan iðnað og stóriðjuver sem reist hafa verið eða áformað hefur verið að reisa í landinu. Það hefur sannarlega ekki verið að ófyrirsynju að um þau mál hefur verið fjallað og lögð rík áhersla á að með aðgæslu væri farið og miklu til kostað til þess að tryggja að umhverfissjónarmiða sé gætt. En mér finnst oft að það gæti nokkurs ósamræmis í málflutningi varðandi þetta. Þegar litið er til fyrirtækja, sem eru af öðrum ástæðum kannski ekki umdeild hjá okkur, vill oft gleymast að endurbóta sé þörf og það brýnna endurbóta. Þetta á við okkar fiskimjölsverksmiðjur bæði að því er varðar loftmengun og einnig varðandi lagarmengun.

Ég vil líka geta þess hér að endingu, að þó að kostnaður muni verða verulegur við úrbætur í þessum efnum, þá er ekki víst að hann sé jafnmikill og menn telja fljótt á lítið. M.a. hefur það komið fram, að við lausn á mengun sjávar frá fiskimjölsverksmiðjum hefur í rauninni verið um að ræða að auka nýtingu hráefnis stórlega með þeim úrbótum sem þar hefur verið við komið í sambandi við soðkjarnatæki og vinnslu úr þeim úrgangi sem áður streymdi í sjóinn, þannig að tækjabúnaður af þessu tagi hefur borgað sig upp á skömmum tíma. Og það er alls ekki útilokað, heldur þvert á móti líkur á því, að það megi draga mjög verulega úr tilkostnaði við lausn á loftmengun frá fiskimjölsverksmiðjum með aðferðum sem þróaðar hafa verið erlendis, sumpart t.d. í Noregi, þar sem orkan, sem streymir upp um reykháfa þessara verksmiðja, er tekin og tengd soðkjarnavinnslu og með því sparaður verulegur tilkostnaður í orkunotkun með þeim hætti. Ef vel er að staðið og gefinn gaumur að mögulegum orkusparnaði í sambandi við lausn loftmengunar frá fiskimjölsverksmiðjum, þá hygg ég að lausn þessa máls geti orðið auðveldari en margur hyggur og hagur verksmiðjanna verulegur. En hér verða stjórnvöld að koma inn í sem aðili sem stýrir þessum úrbótum, setur almennar reglur, en tryggir einnig að þessi þýðingarmikli rekstur ráði við þær úrbætur sem nauðsynlegar eru. Og það er auðvitað mjög eðlilegt að þetta sé tekið inn í rekstrardæmi fiskimjölsverksmiðjanna almennt séð og svo að öðru leyti hlúð að úrlausn mála, m.a. með tilliti til hagsmuna innlends iðnaðar á þessu sviði.