21.01.1980
Efri deild: 22. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 426 í B-deild Alþingistíðinda. (479)

53. mál, almenn hegningarlög

Dómsmrh. (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Frv. það til breyt. á almennum hegningarlögum, sem hér er lagt fyrir hv. Ed., fjallar einungis um viðauka við 6. gr. almennra hegningarlaga og er borið fram vegna fyrirhugaðrar fullgildingar Íslands á Evrópusamningi frá 27. jan. 1977, um varnir gegn hryðjuverkum. Er lagt til að unnt verði að refsa eftir íslenskum hegningarlögum fyrir háttsemi þá sem greinir í fyrrnefndum milliríkjasamningi enda þótt hún hafi átt sér stað utan íslenska ríkisins og án tillits til þess hver er að því valdur.

Framangreindur milliríkjasamningur hefur verið undirritaður af Íslands hálfu. Til þess að unnt sé að fullgilda hann þarf að setja viðbótarákvæði í almenn hegningarlög, og er það niðurstaða af athugun dómsmrn., að nægilegt sé að bæta nýjum tölulið, 6. tölulið, við 6. gr. hegningarlaganna til að fullnægja ákvæði samningsins um refsilögsögu þegar synjað er um framsal.

Varðandi framsal skv. samningi þessum mun dómsmrn. leggja til að notuð verði heimild 13. gr. samningsins um fyrirvara og framsal.

Brtt. þessi er flutt sem sérstakt frv. svo að unnt verði að láta meðferð þess-fylgja meðferð væntanlegrar þáltill. um fullgildingu nefnds milliríkjasamnings sem utanrrh. mun væntanlega bera fram á næstunni.

Herra forseti. Það er svo ekki ástæða til að hafa fleiri orð um þetta. Ég vil leyfa mér að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.