17.12.1979
Neðri deild: 3. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í B-deild Alþingistíðinda. (48)

9. mál, olíugjald til fiskiskipa

Sjútvrh. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Hér liggur fyrir frv. til staðfestingar á brbl. um tímabundið olíugjald til fiskiskipa og um verðuppbót á vannýttar fisktegundir. Tel ég rétt að fara nokkrum orðum um þetta mál.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að engin atvinnugrein hefur orðið jafn-óþyrmilega fyrir barðinu á hinni gífurlegu olíuverðshækkun í ár og sjávarútvegurinn. Í ársbyrjun var gasolíuverð til fiskiskipa kr. 57.50 hver lítri og svartolíuverð 39 þús. kr. hvert tonn. Í okt. s.l., þegar þau brbl. voru sett sem hér eru til staðfestingar, var gasolíuverðið komið í 142 kr. og svartolíuverðið í 89 300 kr., og frekari hækkun er nú á döfinni.

Olíukostnaðurinn var þegar í ársbyrjun þungbær fyrir útveginn, þannig að þessi verðhækkun á olíu gjörbreytir rekstrargrundvelli fiskveiða.

Fyrsta verðhækkunaraldan skall yfir í mars s.l. og var þá tekið upp tímabundið 2.5% olíugjald til fiskiskipa utan hlutaskipta. Óvissa var þá mikil um olíuverð, eins og reyndar er enn, og því erfitt að meta hvort verðhækkun væri tímabundin eða varanleg. Talið var skynsamlegast að snúast við áhrifum olíuverðshækkunarinnar þannig að tekið væri mið af þeirri nauðsyn sem er á því að hvetja til olíusparnaðar, þ.e.a.s. að fara ekki út á þá braut að greiða niður olíuverðið. Hins vegar var nauðsynlegt að auka hlut útgerðarinnar í tekjum af fiskveiðunum til þess að útgerðin gæti staðið undir auknum olíukostnaði. Hlutaskiptaákvæði kjarasamninga sjómanna og útvegsmanna gera það hins vegar að verkum, að ekki er unnt að mæta kostnaðarauka af þessu tagi með hækkun almenns fiskverðs án þess að hlutur sjómanna breytist um leið. Forustumenn sjómanna lýstu því hins vegar yfir á s.l. vetri, að sjómenn vildu ekki hagnast á því áfalli sem olíuverðshækkunin er fyrir þjóðina, og var haft samráð við sjómannasamtökin þegar olíugjaldið var tekið upp í mars.

Þegar kom fram á vorið hafði olíuverð enn hækkað verulega frá því sem var í mars og var því nauðsynlegt að hækka olíugjaldið úr 7% frá 15. maí. Olíuverð hækkaði síðan enn um mitt árið og frá 20. júlí var olíugjaldið utan skipta hækkað í 12%, en þar að auki kom þá til 3% olíugjald til skipta, enda höfðu laun launþega í landinu atmennt hækkað um 3% í júní.

Hinn 28. sept. s.l. varð samkomulag í yfirnefnd Verðlagsráðs sjávarútvegsins um nýtt fiskverð er gilti frá 1. okt. Ákvörðunin fól í sér að skiptaverð til sjómanna hækkaði um 9.2%. Það var forsenda fyrir þessari ákvörðun að olíugjald til fiskiskipa, sem verið hafði 15%, yrði 9% frá 1. okt., jafnframt því sem 3% olíugjaldið frá því júlí, sem kom til skipta, var fellt inn í fiskverðið. Um þessa lausn varð algjört samkomulag allra hagsmunaaðila í yfirnefndinni.

Það er þessi breyting á olíugjaldi, sem var síðan gerð með brbl. nr. 88 16. okt. s.l., enda hafði þing þá verið rofið. Ákvæðinu um 9% olíugjald er ætlað að gilda til 31. des. í ár, eða jafnlengi og fiskverðsákvörðunin frá 1. okt. s.l. Frá áramótum má síðan ákveða nýtt fiskverð, sem nú er til umfjöllunar í yfirnefnd Verðlagsráðs, og verður þar nauðsynlegt að taka þessi mál öll til athugunar í ljósi aðstæðna eins og þær þá verða metnar.

Við ákvörðun fiskverðs frá 1. júní s.l. sem einnig var tekin með samkomulagi allra aðila í yfirnefnd Verðlagsráðs sjávarútvegsins, var reiknað með því að greidd yrði sérstök verðuppbót á ufsaverð og karfaverð úr sjóðum sjávarútvegsins, en áður höfðu farið fram viðræður ríkisstj. og aðila í Verðlagsráði um slíkar ráðstafanir.

Í brbl. nr. 69 11. júní s.l. var síðan heimilað að verja 500 millj. af tekjum Tryggingasjóðs fiskiskipa og 700 millj. kr. af tekjum Aflatryggingasjóðs af útflutningsgjaldi til þess að bæta upp verð á karfa og ufsa frá tímabilinu frá 15. maí til 31. des. 1979.

Afkoman á karfa- og ufsaveiðum var mun lakari en afkoma á þorskveiðum, ekki síst eftir olíuverðshækkanir, en um leið var nauðsynlegt að hvetja til aukinnar sóknar til veiða á karfa og ufsa til þess að draga úr sókn í þorskstofninn. Af þessum ástæðum vorn þessar ráðstafanir gerðar. Má telja að þær hafi átt drjúgan þátt í því að karfa- og ufsaafli hefur aukist mjög á þessu ári.

Við fiskverðsákvörðunina frá 1. okt. var ljóst að rýmka þyrfti nokkuð um heimildir til ráðstöfunar fjár úr Tryggingasjóði og Aflatryggingasjóði til greiðslu uppbótar á karfa og ufsa. Fyrir því var með brbl. nr. 88 16. okt. gerð sú breyting, að heimilað skyldi að verja 550 millj. kr. af tekjum Tryggingasjóðs og 850 millj. af tekjum Aflatryggingasjóðs af útflutningsgjaldi til þessara verðuppbóta á árinu. Jafnframt var þá einnig ljóst að tekjur af útflutningsgjaldi yrðu í ár ívið meiri en reiknað var með í júní s.l.

Eins og ég gat um áðan gilda ákvæðin um karfa- og ufsauppbót til loka þessa árs, og þetta er því eitt þeirra atriða sem huga þarf að við fiskverðsákvörðun nú um áramót. Þessi mál öll eru svo nátengd fiskverðsákvörðuninni að nauðsynlegt kann að reynast að gera á þessu sviði sérstakar ráðstafanir þegar línur skýrast í þeim efnum. En víst er að verðjöfnun milli tegunda hlýtur að koma til greina sem eitt af tækjunum til þess að beina sókn frá þeim tegundum, sem ofnýttar eru, til hinna, sem fremur eru taldar þola meiri sókn. Sama gildir um olíugjaldið eða hliðstæðu þess. Afar ólíklegt virðist að unnt sé að leysa það mál með óbreyttum hlutaskiptasamningum, nema þá fyrir afbeina löggjafans.

Nú liggur fyrir að staðfesta brbl. nr. 88/1979, en framhald málsins hlýtur að ráðast í tengslum við fiskverðsákvörðun sem stendur raunar fyrir dyrum.