21.01.1980
Efri deild: 22. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 426 í B-deild Alþingistíðinda. (481)

17. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Það hafa orðið óvenjulega ítarlegar umr. um þetta frv. við 1. umr. Að mínu viti er ekkert óeðlilegt að svo sé, vegna þess að hér er um óvenjulega þýðingarmikið mál að ræða. Ég ætla nú ekki að fara að lengja þessar umr., en af sérstöku tilefni kvaddi ég mér hljóðs nú.

Í fyrri ræðu minni lagði ég áherslu á að mál það, sem frv. þetta fjallar um, væri fyrst og fremst tvíþætt: Annars vegar væri það sem varðaði fjármögnun íbúðarlánakerfisins og það væri aðalatriði og grundvallaratriði. Hitt væri það sem varðaði skipulagsmál. Það, sem varðar skipulag húsnæðismálanna, kom ég lítið inn á. Kom ég þó inn á nokkur atriði. Ég varaði við sumum breytingum eða nýmælum, sem eru í þessu frv., en mælti með öðrum. En það, sem ég varaði aðallega við, var að fjármögnunarmálunum væri ekki sinnt, verkefni væru aukin án þess að efla þá tekjustofna íbúðarlánakerfisins, sem eru fyrir, eða að setja því nýja til viðbótar.

Ég vitnaði í grg. frv. sjálfs. Þar kom fram að þegar búið er að reikna út fjármagnsþörf kerfisins miðað við þær breytingar, sem eru lagðar til, vantar til að byrja með 1/4 af því ráðstöfunarfé, sem íbúðarlánakerfið þarf á að halda, og brátt vantar 1/3 af því fé, sem íbúðarlánakerfið þarf á að halda.

Það, sem gaf mér tilefni til þess nú að standa upp, voru orð hæstv. félmrh. í síðustu ræðu hans um þetta frv. Hann sagði að það væri skoðun sín, að verði þetta frv. samþ. sé fjárveitingavaldið bundið af þeim ákvörðunum, sem í því felast, um fjárstreymi til íbúðarlánasjóðanna.

Ég held að í þessum orðum felist mikill misskilningur. Fjárveitingavaldið, eins og ráðh. orðar það, er auðvitað bundið við þær fjárveitingar sem ákveðnar eru í lögum. Og í þessu frv. er gert ráð fyrir ýmsum tekjustofnum, þ.e. þeim tekjustofnum sem hafa verið lögbundnir áður. En fjárveitingavaldið er ekki bundið nema af því að framkvæma þau lagaákvæði, sem felast í þeim tekjustofnum sem áður hafa verið. Ef ekki eru við afgreiðslu þessa frv. settir auknir eða nýir tekjustofnar til þess að mæta aukinni fjárþörf er fjárveitingavaldið ekki bundið við að bæta þar úr. Það er Alþingis að gera það, og það verður ekki gert nema með beinum lagaákvæðum. Það er viðfangsefnið við endurskoðun laganna nú að setja þessi lagaákvæði. Ef þetta er ekki gert, þá hlýtur afleiðingin af því að taka upp nýja lánaflokka í húsnæðismálakerfinu og auka hlutverk og verkefni lánakerfisins með þeim hætti að vera sú, að til þeirra þarfa verður tekið af því fé sem fyrir er, og það verður ekki gert nema með því að það gangi á þau lán sem ganga til nýbygginga. Þetta er alvarlegast í þessu efni. Það má ekki gerast af því að hið almenna húsnæðisástand í landinu er fyrst og fremst komið undir því, þó annað sé mikilvægt, að byggðar séu nægilega margar nýjar íbúðir og lánskjörin á þeim séu sem hagkvæmust.

Það er ekki í fyrsta sinn sem hefur verið syndgað, ef svo mætti að orði komast, gegn íbúðarlánakerfinu með þessum hætti. Það er einmitt vegna þess að þetta hefur stundum verið gert að miðað hefur aftur á bak varðandi nýbyggingalánin, bæði að það hefur verið tregða á að veita lánin og lánin hafa orðið minni hundraðshluti af byggingarkostnaðinum en annars hefði orðið. Og þegar það skeður er vissulega um afturför að ræða. En stundum hefur verið um afturför að ræða í sögu þessara mála, eins og ég benti á í minni fyrri ræðu í þessum umr.

Ég stend hér upp einungis til þess að vara við því, að fallið verði í þessa gröf nú með því að auka verkefni íbúðarlánakerfisins án þess að mæta þeim þörfum, sem það skapar, með nýjum eða auknum tekjustofnum.