21.01.1980
Neðri deild: 21. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 438 í B-deild Alþingistíðinda. (496)

39. mál, óverðtryggður útflutningur búvara

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að mæla nokkur orð í tilefni þess frv. sem hér er til umr., um greiðslu bóta á óverðtryggðan útflutning búvara, en ég er einn af flm. þess. Efnislega er frv. mjög svipað frv. sem níu hv. þm. Sjálfstfl. hafa flutt hér í d., umr. hefur farið fram um og hefur verið vísað til n. Helsti munurinn á þessum frv. er sá, eins og hefur verið fram tekið af frummælanda fyrir því máli sem hér er á dagskrá, að gert er ráð fyrir að það lán, sem hér er áformað að taka, 3000 millj. kr., verði greitt úr ríkissjóði á næstu þremur árum, en samkv. tillögum þm. Sjálfstfl. er gert ráð fyrir að greiðslan fari fram úr Byggðasjóði. Ég tel að ekki beri svo mikið á milli þessara frv. og tillagna að ekki ætti að geta tekist um það samstaða í n. að sjónarmið verði samræmd þannig að öruggur meiri hl. verði fyrir þessu máli í þinginu. Það skiptir að sjálfsögðu langmestu máli, að ekki dragist lengi úr þessu að þetta fjármagn verði útvegað og komi til hænda, en enn þá hefur ekkert til þeirra borist, að því er ég best veit, af bótum eða greiðslum vegna útflutnings umfram 10% sem ríkissjóður hefur ábyrgst — eða a.m.k. vantar þar mjög mikið á. Það eru aðrir en Alþb, sem komu í veg fyrir að þetta mál fengi hér afgreiðslu á s.l. vori, og það er sannarlega illt til þess að vita að þá skyldi þetta mál ekki ná fram að ganga. En ég ætla ekki að gera það að umræðuefni að þessu sinni.

Fyrir utan það, að á uppbætur vantar til bænda vegna verðlagsársins 1978–1979, hef ég fengið upplýsingar um að verulegar tafir hafa orðið á greiðslu útflutningsbóta vegna yfirstandandi verðlagsárs. Mér er sagt af mönnum í landbrn., að það nemi um 2000 millj. kr. sem vanti upp á útflutningsbætur á yfirstandandi verðlagsári, það sem skylt er að greiða, og það segir sig sjálft að dráttur af þessu tagi, hvort sem þar er um ár að ræða eða nokkra mánuði, bitnar mjög hart á þolendum, bændum í landinu, og er að sjálfsögðu keðjuverkandi fyrir þá sem við þá skipta. Hér er því sannarlega um stórt mál að ræða.

Ég tel að við greiðslu eða endurgreiðslu á verðjöfnunargjaldi vegna búvöru þurfi að beita þeirri heimild, sem er í lögum um Framleiðsluráð landbúnaðarins, að þær greiðslur verði mismunandi háar og stærri bú verði látin taka á sig meira vegna þessarar umframframleiðslu en minni búin. Þessi heimild er í lögum, og ég tel að hana beri skýlaust að nota. Annað væri nánast óréttlæti og stuðlaði ekki að æskilegri þróun í landbúnaði.

En umr. um þessi tvö þingmál varðandi útflutningsbætur búvara minnir okkur á fjölmarga erfiðleika sem við er að fást í landbúnaði, —erfiðleika sem sumpart stafa af óvenjulegu árferði, en ekki síður af framleiðslu- og markaðsaðstæðum. Bjargráðasjóður og aðgerðir, sem fyrirhugaðar voru eða ákveðið hefur verið að gerðar verði með stuðningi úr honum, hafa komið allnokkuð inn í umr. um þessi mál. Það er ofureðlilegt. Þar voru teknar ákvarðanir af fyrrv. ríkisstj. um tiltekinn stuðning vegna erfiðleika sem stöfuðu af hafís á s.l. vori, og hæstv. landbrh, veitti hér í síðustu viku upplýsingar um þá fyrirgreiðslu úr Bjargráðasjóði að þessu leyti, þar sem greidd hafa verið lán og styrkir að upphæð um 220 millj. kr. í samræmi við tillögur frá hafísnefnd, sem stundum er líka kölluð harðindanefnd. (Gripið fram í.) Það er rétt. Þar er um aðra nefnd að ræða. — En það kom einnig fram í máli hæstv. landbrh. að mikið vantar á að brugðist hafi verið við þeim vanda, sem stafar af grasleysi og uppskerubresti á s.l. sumri og hausti, og þar hefur enn ekki verið farið að tillögum þeirrar nefndar sem um þau mál fjallaði. Og hæstv. ráðh. greindi frá því, að upplýsingaöflun væri ekki lokið að fullu í þessu sambandi, en auk þess að fjárvötnun væri hjá Bjargráðasjóði eða ekki væri búið að afla þess fjár sem þyrfti til hans, þó að heimildir væru nú fyrir að hann tæki þátt í lausn þeirra erfiðleika sem þarna er um að ræða. Hér mun vera um að ræða fjármagn sem nemur 1–2 milljörðum kr. og bæta þyrfti þeim sem orðið hafa fyrir áföllum vegna þessara tveggja þátta, grasleysis og minni heyfengs þar af leiðandi og uppskerubrests á garðávöxtum. Það er mjög brýnt að mínu mati, að þessu uppgjöri verði hraðað því að þær byrðar, sem hér er um að ræða, leggjast sumpart á sömu aðila og hin fyrri áföll og sú vöntun á greiðslu útflutningsbóta sem ég ræddi um og þetta frv., sem hér er til umr., fjallar um.

Varðandi lánskjör úr Bjargráðasjóði, sem hér hafa verið til umr., getur vissulega verið álitamál hvernig þeim skuli hagað. Samkv. hinum fyrri lögum, sem giltu um Bjargráðasjóð, var ekki gert ráð fyrir að hann greiddi vexti. Nú hefur verið ákveðið að lán úr honum beri háa vexti eða fulla verðtryggingu. Ég tel að hér sé hart að gengið í sambandi við þau áföll sem á að bæta úr með þessum ráðstöfunum, og það hefði verið eðlilegt að reyna að koma meira þarna til móts og láta þá nægja fulla verðtryggingu, en sleppa vaxtagreiðslum, a.m.k. í mörgum tilvikum.

Í sambandi við þetta fór hv. þm. Pálmi Jónsson nokkuð hörðum orðum um fyrrv. ríkisstj. fyrir hlut hennar gagnvart Bjargráðasjóði og vildi tengja það verðbólguþróuninni, sem var á síðasta ári, fyrir utan það að framlög til Bjargráðasjóðs voru skert eins og til stofnlánasjóða á s.l. ári. Skerðing á þeim framlögum var þó ekki áhugamál míns flokks, en rétt er að minna á að verðbólga hefur verið hér áður og rýrt tekjur og fjármagn sjóða, þannig að þetta var engin sérstök uppfinning fyrrv. ríkisstj.

Þessi mál voru til meðferðar í ríkisstj. í ágúst og sept. s.l. Þá var einmitt til umræðu að breyta lánakjörum á því fjármagni, sem þá hafði verið ákveðið að Bjargráðasjóður tæki að láni, að upphæð 450 millj. kr., og að þau lán yrðu ekki bundin fullri verðtryggingu, heldur lánuð með venjulegum kjörum sjóðsins eins og þau voru þá. Þetta fékk ekki stuðning allra í ríkisstj., þannig að málið var ekki samþ. En ég var sömu skoðunar og hæstv. landbrh. þá, að eðlilegt væri að þessi lán væru veitt með hagstæðum kjörum þar sem hér var um að ræða að bregðast við verulegum áföllum sem eðlilegt er að líta öðruvísi á en þegar um aðra lánsútvegun er að ræða.

En í sambandi við þau mál, sem Bjargráðasjóði er ætlað að bregðast við, vil ég geta til viðbótar um eitt atriði til úrbóta, sem fyrrv. ríkisstj. beitti sér fyrir og ekki hefur verið nefnt í þessum umr., en verður kannske varanlegra en sumt af því sem gert hefur verið, og skal það þó ekki lastað, en þar á ég við þær vegabætur sem unnið var að á Norðausturlandi á síðasta ári og gerðar voru tillögur um af hafísnefnd. Þáv. hæstv, samgrh., Ragnar Arnalds, tók það mál upp mjög fljótt og myndarlega og ríkisstj. féllst á tillögur hans um útvegun á lánsfé í því skyni. Þessi vegalagning, sem unnið var að s.l. haust og fram á vetur, raunar eins lengi og tíð leyfði, hefur orðið til að auka fólki í þessum landshluta bjartsýni á framtíðina og orðið veruleg sárabót fyrir það í þeim erfiðleikum sem þarna er við að etja. Raunar voru framkvæmdir í vegamálum á þessu svæði, sem ráðist var í, löngu tímabærar aðgerðir til úrbóta, því að það var um að ræða að breyta troðningum eitthvað í áttina við það sem kalla má vegi. Þarna er hins vegar engan veginn komið að lokamarki í aðgerðum af þessu tagi, því að áfram þarf að vinna að vegabótum á þessu svæði og víðar með tilliti til hættu á hafískomu.

En sá vandi, sem hér er til umr., er þegar kominn fram. Það er hins vegar margt í sambandi við landbúnað okkar í augsýn og er nokkuð uggvekjandi. Mér finnst ástæða til í þessu samhengi að minnast á það nokkrum orðum. Þegar verið er að tala um úrlausnir varðandi liðna tíð er nauðsynlegt að átta sig á hvert stefnir.

Ég vil þá víkja aðeins að útflutningsbótavandanum eða þörf fyrir útflutningsbætur á yfirstandandi verðlagsári, eins og nú virðist að þær verði, en Framleiðsluráð landbúnaðarins hefur nýlega kynnt fyrir þingflokkum áætlun um heildarverðmæti landbúnaðarafurða á yfirstandandi verðlagsári og þörf fyrir útflutningsbætur samkv. henni. Í þeirri áætlun kemur það fram, að verða mun mjög mikil aukning á þörf fyrir útflutningsbætur og það ekki bara í hlutfalli við verðlag, heldur raunveruleg hækkunarþörf vegna magnaukningar. Þetta stafar af ýmsu. Það er m.a. gert ráð fyrir að einhver samdráttur verði í sölu á sauðfjárafurðum, þ.e. dilkakjöti, innanlands frá því sem var á s.l. ári, en þá nam salan á kindakjöti samtals á verðlagsárinu 1978–1979 10 816 tonnum, en áætlað að á árinu 1979 í heild tekið verði salan hér innanlands heldur lægri tala eða 10 400 tonn. Hún virðist því heldur vera að dragast saman. Þessu veldur eflaust að nokkru hlutfallsleg lækkun á niðurgreiðslum á þessum afurðum, en aukningin, sem varð á verðlagsárunum 1977–1979 frá því sem áður var, um líklega 1800 tonn eða svo, hefur eflaust stafað að verulegu leyti af auknum niðurgreiðslum og þar af leiðandi auknum kaupum á þessum afurðum.

En auk þess að horfur eru á frekari samdrætti í sölu á sauðfjárafurðum innanlands á yfirstandandi verðlagsári er einnig um að ræða verulegan vanda vegna aukinnar birgðasöfnunar og eitthvað aukinnar framleiðslu á mjólkurafurðum. Þannig er mikill samdráttur í sölu á ostum á Bandaríkjamarkaði, ég hygg úr 2300 tonnum, eins og var áður, niður í um 600 tonn, þannig að þarna er um stórfellda skerðingu að ræða. Þá er einnig gert ráð fyrir verulegri aukningu á hrossakjöti, en það vegur ekki þungt í útflutningsbótum og skiptir út af fyrir sig ekki miklu í þessu samhengi.

Það hafa margir eflaust gert ráð fyrir að um yrði að ræða verulega fækkun á sauðfé á s.l. hausti og af því gæti orðið aukning á kjöti. En niðurstöðutölur bera ekki vott um þetta. Miðað við haustslátrun 1978 annars vegar og 1979 hins vegar hefur verið slátrað rösklega 66 þús. fleira sauðfé á haustinu 1979 en haustið áður. Það var samtals 1 088 045 kindum slátrað s.l. haust, sem gaf 15 150 176 tonn af kjöti, sem er 242 þús. tonnum minna en árið 1978, og stafar það að sjálfsögðu af verulega minni fallþunga dilka en áður var, þannig að þó að fjöldinn væri nokkru meiri er heildarkjötmagnið nokkru minna.

Samkv. áætlun Framleiðsluráðsins, sem ég gat um, er þörfin fyrir útflutningsbætur áætluð samtals 15 milljarðar 321 millj. kr. á yfirstandandi verðlagsári. Þar af vegna sauðfjárafurða um 8.4 milljarðar kr. og vegna nautgripaafurða 6.8 milljarðar, en vegna hrossakjöts 70 millj. kr. 10% viðmiðunin, sem lögboðin er, þ.e. að greiða útflutningsbætur fyrir 10% umfram þá framleiðslu sem selst innanlands, svarar til 8.5 milljarða, þannig að þörfin umfram þetta í útflutningsbótum á, þessu verðlagsári nemur samkv. þessu, ef áætlunin stæðist, 6.8 milljörðum kr. sem greiða þyrfti í útflutningsbætur. Ef þær fást ekki þurfa bændur að bera skaðann með einum eða öðrum hætti í útflutningsverði. En það útflutningsverð, sem talið er að fáist fyrir þær afurðir sem hér er um að ræða, er varðandi dilkakjötið 27–35% — ég hygg að ég hafi séð það rétt í gögnum - og varðandi osta aðeins 21% af því sem fæst fyrir þessar afurðir innanlands.

Við þessa mynd, sem mér þykir heldur dökk álitum, er því að bæta, að í fyrirliggjandi fjárlagafrv. hæstv. fjmrh., sem nú liggur fyrir þinginu, mun vanta um 1.5 milljarða

til þess að náð verði 10% markinu varðandi útflutningsbætur miðað við þær áætlanir um framleiðslu afurða sem Framleiðsluráð hefur greint frá. Hér blasir því sannarlega við stórt og áframhaldandi vandamál, jafnvel vaxandi frá því sem áður var. Og það er mikil ástæða til þess fyrir Alþ. að taka á þessum málum í samvinnu við bændastéttina í landinu og fulltrúa hennar og samtök þannig að leitað verði allra tiltækra leiða til þess að koma málefnum landbúnaðarins og bændastéttarinnar — og raunar þjóðfélagsins þá um leið því að þetta vegur mikið inn í þjóðarbú okkar — í það horf sem viðunandi megi teljast og tryggi sem best að bændur og aðrir, sem við landbúnað starfa, verði ekki fyrir stórfelldum áföllum, kannske meira og minna skyndilegum áföllum, ef gripið er til aðgerða af skyndingu, sem ég tel ekki farsælt því að hér þarf að verða eðlileg þróun. Landbúnaður lýtur ákveðnum lögmálum, eins og aðrar atvinnugreinar, og það þarf að vinna af framsýni til þess að ná árangri.

Varðandi þær leiðir, sem gætu verið til úrbóta í þessum efnum, er auðvitað um margt að ræða og á margt hefur verið minnst í umr. á Alþ. um þessi mál. Menn horfa eðlilega til möguleika á söluaukningu innanlands á landbúnaðarafurðum. Ég efast ekki um að hægt er að auka þá sölu nokkuð með ýmsum aðgerðum. Eins og ég gat um áðan kom í ljós við aukningu á niðurgreiðslum á landbúnaðarafurðum að salan jókst verulega, en það er ekki farsælt að breytt sé til varðandi niðurgreiðslur frá ári til árs, hvað þá frá mánuði til mánaðar, eins og gerst hefur, og það er að mínu mati mjög nauðsynlegt að reyna að marka og festa í sessi ákveðna stefnu í þessum efnum þannig að niðurgreiðsluupphæð verði bundin sem ákveðið hlutfall af viðkomandi vöru og þá a.m.k. til ekki skemmri tíma en eins árs. En auðvitað þyrfti þetta að verða til nokkurra ára í senn, a.m.k. meginlínur að þessu leyti.

Með auglýsingum og fræðslu um gildi landbúnaðarafurða okkar miðað við ýmisleg annað, sem á markaði er, má eflaust ná meiri árangri í sölu afurða en tekist hefur. Það hefur ekki verið mjög mikið lagt í auglýsingarstarfsemi í sambandi við landbúnaðarafurðir okkar, en gefa þarf gaum að því, þegar um er að ræða samkeppni þar sem talsvert er borið í auglýsingar á matvælum sem keppa við innlendar afurðir okkar, og fræða um næringargildi og hollustu þeirra og leitast við að ná árangri með því.

Ég ætla ekki að gera að umræðuefni möguleikana á að auka fjölbreytni í íslenskum landbúnaði, þar sem um fjölmarga þætti er að ræða sem þyrftu þá að koma í staðinn fyrir þau störf sem menn nú stunda við framleiðslu á afurðum sem erfitt er að koma á markað með viðunandi hætti og fá viðunandi verð fyrir.

Möguleikarnir á að afla markaðar erlendis umfram það, sem nú er, og fá betra verð fyrir afurðirnar eru, að talið er, ekki mjög miklir, a.m.k. ekki í náinni framtíð. En sú viðleitni, sem þar er í gangi, er í senn eðlileg og sjálfsögð og ber að halda henni áfram. Það, sem hins vegar er mest horft til í sambandi við þann vanda, sem ég er hér að ræða, er að taka upp stjórnun á búvöruframleiðslunni meira en verið hefur, því að hún hefur nánast verið afar takmörkuð. Vantar þó ekki að legið hafi fyrir tillögur frá samtökum bænda um þau efni, því að eins og allir hv. þdm. vita eru mörg ár, raunar komið á annan áratug, síðan bændasamtökin lögðu fram mjög ákveðnar tillögur í þessum efnum og óskuðu eftir heimildum frá löggjafanum til að bregðast við vanda sem þá var að koma upp, á árunum fyrir 1970. Því miður hefur Alþ. ekki orðið við þeim óskum, fyrr en þá í fyrra að breytt var ákvæðum í lögum um Framleiðsluráð landbúnaðarins til að heimila tilteknar stjórnunaraðgerðir sem löngu voru tímabærar. Aðgerðir til framkvæmda á þeim lagafyrirmælum lúta m.a. að því að koma á kvótakerfi varðandi sölu afurða frá einstökum bændum og einstökum jörðum. Það er mjög eðlileg viðleitni að bregðast þannig við. Hins vegar þurfa menn að gera sér ljóst að slíku kvótakerfi fylgja margir annmarkar sem ekki er hægt að horfa fram hjá. Bæði er það, að nokkur hætta er á að það geti verið misnotað og skili þannig ekki þeim árangri sem til er ætlast, og skal ég þó ekki leggja dóm á, hversu mikil hætta er á slíku. Hitt skiptir þó meira máli að mínu mati, að ekki eru tekin inn atriði sem eðlilegt er að litið sé á varðandi þróun á einstökum jörðum og í einstökum byggðarlögum varðandi búskap. Það eru atriði eins og landkostir jarða, landnýting, sem ekki kemur inn í þessa aðferð, og því er mjög knýjandi að ekki verði dregið að hefja undirbúning að víðtækari áætlunum varðandi landbúnaðarframleiðsluna, búrekstrar- og framkvæmdaáætlunum varðandi einstök byggðarlög og landshluta og auðvitað inni í þeirri mynd einstök býli sem eru grunneiningin. Þarna þarf að vinda bráðan bug að og hefja víðtæka skoðun þessara mála til undirbúnings slíkri áætlanagerð. Fyrir utan landkostina þarf að sjálfsögðu að taka tillit til markaðsaðstæðna í viðkomandi landshlutum, ekki síst í sambandi við mjólkurafurðir. En það þarf einnig að hafa auga á félagslegum aðstæðum og byggðaaðstæðum, m.a. hvort viðkomandi byggðir þola einhverja fækkun eða að bújarðir leggist af án þess að hætta sé á verulegri röskun. Slíkt verður að sjálfsögðu að taka með í þessa mynd.

Alþingi þarf svo að greiða fyrir þessum málum, eins og ég gat um áður, í samvinnu við bændasamtökin með því að stuðla að eðlilegri lagabreytingu, og þ. á m. er heildarlöggjöf um Framleiðsluráð landbúnaðarins sem undirbúin hefur verið, en ekki komið fyrir Alþ. nema að hluta. Það er mikil þörf á að slík heildarlöggjöf verði sett og þá m.a. með ákvæðum um að taka upp beina samninga milli fulltrúa bænda og ríkisvalds um kjaramál bændastéttarinnar og stefnuna í málefnum landbúnaðarins að öðru leyti. Hér þarf einnig að gera áætlun um þörf fyrir búvörur, — áætlun sem miði fyrst og fremst að því að fullnægja innanlandsþörfunum. En ég tek skýrt fram, að þar ber að hafa borð fyrir báru, þar ber að taka tillit til þeirra sveiflna sem hér verða og reikna má með af völdum árferðis í landbúnaði okkar þannig að við þurfum ekki af þeim sökum að flytja inn landbúnaðarafurðir. Það þarf auðvitað einnig að hafa auga á hagsmunum innlends iðnaðar, vaxandi úrvinnslu úr landbúnaðarafurðum og þá ekki síst ullar- og skinnaiðnaðarins.

Möguleikarnir til stýringar á landbúnaðarframleiðslunni eru auðvitað margir fleiri en ég hef hér getið um, og eðlilegt er að lítið sé til fjármagnsins sem geti verið þarna til stýringar, en það þarf auðvitað að haldast í hendur við skynsamlega áætlunargerð, þ. á m. beitingu á stofnlánum og rekstrarlánum og styrkjum til framkvæmda í landbúnaði, sem þurfa þá einnig að haldast í hendur við skynsamlega landnýtingu.

Ég er ekki heldur í vafa um að hægt er að taka með nokkuð öðrum hætti en verið hefur á ýmsum rekstrarþáttum í búskap okkar, þó að ég viti að margt er á döfinni og að mörgu unnið á vegum samtaka bænda. Ég nefni þar sem dæmi orkunotkun í landbúnaði og möguleika á að spara þar orku og þá ekki síst innflutta orku, sem er stór og vaxandi kostnaðarliður í búskap. Hitt er svo annar þáttur, að sjá sveitum landsins á sómasamlegan hátt fyrir innlendri orku, en þar bíður margt og þarf margt að gera til þess að viðunandi sé, og ég ætla ekki að gera það hér að sérstöku umtalsefni. En orkunotkunin í landbúnaði er þáttur sem kemur víða fram. Hún varðar ekki aðeins það sem á vélarnar er notað, heldur snertir hún einnig áburðarframleiðsluna og tilkostnaðinn við ræktunina, fóðurframleiðsluna og öflun fóðurs og kjarnfóðurs.

Þegar horft er til erfiðleika í sveitum landsins og framtíðarinnar, þarf einnig að gefa gaum að þeim félagslegu aðstæðum, sem þar ríkja, og nauðsyninni á að fólk til sveita dragist ekki óhóflega aftur úr því sem gerist í þéttbýli. Við komum því að vísu aldrei svo fyrir, að sveit verði með sama hætti og þéttbýli, enda ekki ákjósanlegt. En við verðum að sjá til þess, samfélagið verður að sjá til þess,að lágmarkssanngirni sé gætt í sambandi við félagsleg málefni sveitafólks. Það var stigið gott spor á Alþ. í fyrravetur, þegar samþ. voru lög um forfalla- og afleysingarþjónustu í sveitum. Það er mikið mál að þeim lögum verði framfylgt sem fyrst. Þarf í framhaldi af þeim að tryggja að fólk til sveita geti notið orlofs með eðlilegum hætti eins og aðrir þegnar þessa lands og þá einnig sveitakonur í sambandi við barnsburð.

Ef við gerum ráð fyrir að það þurfi að draga saman seglin á vissum sviðum í landbúnaði okkar, sem gæti leitt til fækkunar á fólki við núverandi störf í sveitum, þurfa til að koma ný tækifæri við landbúnað eða aðra atvinnustarfsemi í sveitunum. Þar eru möguleikar af ýmsu tagi sem þarf að vinna að. Ég nefni þar sem dæmi möguleikana og þörfina á aukinni iðnaðarstarfsemi í sveitum eða í þéttbýliskjörnum sveitanna, þ. á m. á þjónustuiðnaði af ýmsu tagi, en einnig í úrvinnsluiðnaði, eins og dæmi hafa sýnt að unnt er að koma við og tengja á eðlilegan hátt við starfsemi fólks að landbúnaði. Það hefur verið með réttu talað um dulið atvinnuleysi í sveitum landsins, og við þurfum að vinna að því, eins og í öðrum atvinnuvegum, að þar verði úr bætt. Þegar rætt er um þann vanda sem því frv., sem hér er til umr., er ætlað að leysa, ber einnig að hugsa til þess, að við þeim vanda, sem við blasir á yfirstandandi ári og sé horft lengra fram í tímann, verði brugðist þannig að ekki skapist hætta á skyndilegum samdrætti í landbúnaði og í atvinnu- og afkomumöguleikum þess fólks sem býr í sveitum landsins.