21.01.1980
Neðri deild: 21. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 451 í B-deild Alþingistíðinda. (500)

39. mál, óverðtryggður útflutningur búvara

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Umr. eru orðnar allmiklar um þetta mál og hafa hv. þm. notað það sem tilefni til að ræða landbúnaðarmálin á breiðum grundvelli, sem kallað er, og má segja að sumir hafi kannske flutt anga af stefnuræðu um landbúnaðarmál. Ætla ég ekki að fara út á þá slóð. Vel má flytja ræður um stefnu í landbúnaðarmálum við önnur tilefni en umr. um þetta frv., því frv. á í sjálfu sér ekkert skylt við neina stefnu, heldur er þetta frv. á þskj. 39 og eins frv. á þskj. 26 flutt til að bæta úr tilteknu ástandi sem væntanlega og vonandi verður bráðabirgðaástand þangað til ný stefna hefur verið mótuð í landbúnaðarmálum og sú stefna er orðin virk. — Að þessum orðum mæltum ætla ég að láta stefnumál um landbúnaðinn eiga sig í tengslum við þetta frv.

Ég vil með örfáum orðum þakka hv. þm. Stefáni Valgeirssyni ræðu hans áðan. Ég veit að við erum nákvæmlega sammála um að frv. var ekki hægt að afgreiða á þingrofsdaginn. En hefði þingflokkunum tekist að ná samkomulagi um málið áður en það var flutt og eins og hv. þm. Stefán Valgeirsson hafði heitið að beita sér fyrir, en hann hafði síðan rofið þær tilraunir sem gerðar voru, hefði væntanlega verið mögulegt að afgreiða frv. í upphafi 102. löggjafarþingsins í desember. Það hefði ég talið að væri mikils virði. Þetta vona ég að við hv. þm. Stefán Valgeirsson séum nákvæmlega sammála um.

Síðan hóf hv. þm. að ræða um Bjargráðasjóðinn og talaði auðvitað mjög fallega um þau mál, á þá lund að hann vildi að Bjargráðasjóðurinn sinnti hlutverki sínu sem tryggingasjóður í neyðartilvikum og að Alþ. þyrfti að taka á málinu á þá lund að efla tekjustofna sjóðsins. Þetta er allt saman hárrétt og alveg í samræmi við það sem ég sagði áðan. En þau skeyti, sem hv. þm. var að senda í leiðinni, var ekki réttmætt að senda, hvorki í átt til mín, þó að það væri að litlu leyti gert, né heldur hæstv. núv. landbrh. Þessi skeyti átti öll að senda hæstv. fyrrv. vinstri stjórn, sem hv, þm. studdi, því að eins og ég hef þegar sagt, hjálpaði sú vinstri stjórn verðbólgunni til að eyðileggja Bjargráðasjóðinn og ýmsa aðra sjóði í landinu með því að skerða tekjustofna þessara sjóða. (Gripið fram í.) Ekki með því að stuðla að því að styrkja tekjustofnana eða afla nýrra tekjustofna. Þetta ætti hv. þm. Stefán Valgeirsson að hafa í huga þegar hann ræðir þessi mál.

Það má vel vera að hæstv. fyrrv. landbrh. hafi viljað leggja til önnur lánskjör á útlánum Bjargráðasjóðs en gert var. Hann hefur þá ekki komið því fram. Það er kannske nokkur vorkunn þó menn spyrji eins og hv. þm. Árni Gunnarsson. Hvernig á að veita lánsfé úr sjóði eins og Bjargráðasjóði sem verður að afla fjár til starfsemi sinnar með lánum, eins og kjörin eru nú á almennum lánamarkaði? Fram hjá því má hv. þm. Stefán Valgeirsson ekki lita. Ef hann ætlast til að starfsemi Bjargráðasjóðs geti haldið áfarm í landinu gerist annað tveggja að hann verður að ákveða lánskjör sín í samræmi við þau kjör sem eru á lánum sem hann þarf að taka til starfsemi sinnar, eða þá hann hrynur. Svo er hitt, sem ég minntist á í ræðu minni áðan og hv. þm. tók undir, að efla veður tekjustofna sjóðsins. Það var sannarlega vanrækt af hv. vinstri stjórn. Þetta hefur þó margsinnis orðið að gera. Var það síðast gert í árslok 1976 og var full þörf á að hæstv. vinstri stjórn gerði það á síðasta ári. Aldrei hefur verðbólgan verið jafnhraðfara, aldrei hafa tekjustofnar, sem bundnir eru í föstum krónum, rýrnað jafnört. Aldrei fyrr hefur það skeð, að ríkisstj. í landinu hafi gengið til liðs við þessa þróun með því að skerða tekjustofnana beint til ríkissjóðs. Aldrei hefur þörfin verið ríkari. Aldrei hefur verið meiri ástæða fyrir þm. að flytja ræðu eins og hv. þm. Stefán Valgeirsson gerði áðan og brýna eigin ríkisstj. til þess að hún kæmi því fram sem gæti orðið til þess að Bjargráðasjóður sinni hlutverki sínu.