21.01.1980
Neðri deild: 21. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 452 í B-deild Alþingistíðinda. (501)

39. mál, óverðtryggður útflutningur búvara

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Ég ætla að hætta á að gefa það loforð að níðast ekki á tímanum. Sannast sagna hafði ég ekki hugsað mér að taka til máls um þetta frv. við 1. umr., en ég get ekki stillt mig um að segja örfá orð og þá fyrst og fremst vegna þeirra orða sem hv. þm. Árni Gunnarsson, 6. þm. Norðurl. e., viðhafði áðan, því að það var alveg greinilegt að það var nokkurn veginn sama ræðan og hann flutti þegar til umr. var frv. okkar sjálfstæðismanna um svipað efni og frv. sem hér liggur fyrir. Ég gerði þá nokkrar aths. við ræðu hans, en það virðist vera sannleikur að erfitt er að kenna sumum að sitja rétt. Það er erfitt að snúa mönnum til réttrar áttar sem af einhverjum sökum hafa fengið villu yfir höfuðið.

Hv. þm. hafði þau orð áðan, að við mundum finna til þess eðlilega, þeir sem hefðu komið bændum í þann vanda sem þeir ættu nú við að stríða. Flokksbróðir hans hafði þau orð rétt á undan honum að vandinn væri tvíþættur, hann væri vegna harðæris og hann væri vegna góðæris. Ég veit ekki hvort við sjálfstæðismenn, sem berum hag bænda sérstaklega fyrir brjósti, erum svo máttugir að við getum ráðið því, hvort góðæri eða harðæri er í landinu. En við sitjum áreiðanlega með þeim hug á Alþ. að við getum leyst vandamál sem upp koma hjá þeim þjóðfélagsþegnum sem verða fyrir örðugleikum.

Hv. þm. sagði einnig áðan að þó svo að bændur hefðu nú fengið heimildir til að stjórna þessum málum hefði hvorug þeirra heimilda verið notuð enn sem veittar voru með lögum í fyrra. En ég vildi þá spyrja hv. þm. hvernig í ósköpunum hann ætlaði að fara að minnka framleiðsluna á kjötinu í haust með því að nota kvóta og koma honum á s.l. vor. Það er eins og þessi orð séu töluð innan úr lokaðri tunnu og að maðurinn hafi ekki haft neitt tækifæri til að kynna sér hvernig þær heimildir eru, sem þarna á að beita og ég vona að komi að gagni þegar þær fá að njóta sín, en þær ná ekki árangri að fullu fyrr en 1–3 árum eftir að þær eru veittar.

Ég hygg að það hafi verið almennt mál manna að komið hafi í ljós þegar fram á veturinn kom, að ekki mundi vera þörf á að beita kjarnfóðurgjaldinu vegna mjólkurframleiðslunnar, hún hefði dregist það mikið saman, auk þess sem tíðarfarið á s.l. sumri var með þeim hætti að rík nauðsyn var fyrir menn að fá kjarnfóður keypt við ekki allt of háu verði til þess að koma þeim bústofni fram sem þeir lífsnauðsynlega þurftu að setja á vetur, skaði þeirra er nógur samt. Það er rétt að lagaheimildirnar hafa ekki verið notaðar, en það er af þessum sökum.

Tími minn er ekki ýkja langur, en ég vildi enn fremur taka það fram, að sú till., sem er í frv. okkar sjálfstæðismanna um að Byggðasjóði verði gert að greiða niður það lán sem væntanlega yrði tekið til að bæta bændum útflutningsskaðann, er fyrst og fremst til komin vegna þess að við ætlum ekki að íþyngja skattþegnunum með þessum ráðstöfunum. Ef hv. 6. þm. Norðurl. e. vill skoða málið hleypidómalaust sér hann að við höfum ekki lagt til að lagt yrði meira fé til Byggðasjóðs. Það verður því ekki um neina skattheimtu að ræða þess vegna. Byggðasjóðsgjaldið er ákveðið fyrir fram, og við ætlumst til þess að Byggðasjóður geti notið sín að verulegu leyti þó að hann ráðstafi tekjum sínum að hluta í þetta næstu 3 ár. Það er ekki svo stór hluti af ráðstöfunartekjum sjóðsins að hægt sé að segja að verið sé að binda hendur hans óeðlilega. Og ég vil enn fremur benda á að þessi ráðstöfun á fé Byggðasjóðs er fullkomlega réttlætanleg, bæði vegna þess að hún kemur til með að styrkja byggð í landinu, eins og ætlunarverk sjóðsins er, og hins, að ég tel að byggðasjóðsfé hafi í allt of litlum mæli gengið til þess atvinnuvegar, sem hér hefur verið rætt um, þ.e. til landbúnaðarins. Með þessu móti mundi það þó geta gerst að nokkru.