22.01.1980
Sameinað þing: 14. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 458 í B-deild Alþingistíðinda. (505)

214. mál, eftirlitsskylda Tryggingarstofnunar ríkisins á gjaldtöku tannlækna

Fyrirspyrjandi (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. heilbrmrh. fyrir svör hans. Enda þótt þau hafi ekki skýrt að öllu leyti það sem um var spurt, þá eru þau samt þess eðlis að þau ber að þakka. Ég vil minna á það, að þegar breytingin var gerð um tannlæknaþjónustuna, þá var ein meginröksemdin fyrir því, að eðlilegt væri að haga þessu þannig að sjúkrasamlög og sveitarfélög greiddu þennan kostnað, tryggja átti með eftirliti Tryggingastofnunarinnar að þarna yrði um eðlilega gjaldtöku að ræða. Það var mjög gagnrýnt af mörgum aðilum, að verið væri að gefa kerfinu laust beislið, ef má orða það svo, til gjaldtöku, fannlæknastéttinni, og eftirlitið hjá Tryggingastofnuninni yrði vafasamt, ef það ætti að ná þeim tilgangi sem að var stefnt. Og því miður hefur komið fram að þessi gagnrýni var réttmæt.

Ég tel ástæðu til að endurtaka hér hluta af því sem hæstv. ráðh. las upp úr 5. gr. samnings milli Tannlæknafélags Íslands og Tryggingastofnunarinnar í sambandi við þetta eftirlit. Þar segir svo:

„Trúnaðartannlæknir skal boða komu sína og semja við tannlækni um hentugan tíma til slíkrar skoðunar. Fyrir tíma, sem trúnaðartannlæknir óskar aðstoðar tannlæknis við skoðun gagna, greiðist samkvæmt tímataxta tannlækna.“

Síðan er talað um kortin, sem eru eign tannlæknisins og eru í hans vörslu. Ég vil benda á að það er mjög sérkennilegt, að þar sem á að endurskoða eða rannsaka hluti, þá getur viðkomandi aðili, sem á að rannsaka hjá, ráðið því sjálfur, hvenær viðkomandi rannsókn á sér stað og hvernig hún skuli fram fara.

Þetta læt ég nægja um þennan þátt, en ég vil geta þess einnig hér, að víða er þessi tilhögun þannig að viðkomandi sjúkrasamlag greiðir allan kostnaðinn beint til viðkomandi tannlæknis. En sums staðar er það aftur þannig að sveitarfélög greiða 50%, en sjúkrasamlagið 50%.

Að því er varðar eftirlit með heilsugæslulæknum vil ég aðeins minna á það hér, að þetta eftirlit, sem á að vera í höndum Tryggingastofnunar ríkisins, er mjög vanbúið að ná þeim tilgangi sem að er stefnt. Ég hef verið á fundi hjá tryggingaráði eða fulltrúum tryggingaráðs, þar sem þetta mál kom til umræðu varðandi heilsugæslustöðvarnar, og þar var fúslega játað að Tryggingastofnunin gæti ekki annast þetta eftirlit eins og til er ætlast, hún hefði hvorki til þess mannafla né möguleika.

Tilfært var, að það væri aðeins rannsakað hjá þeim sjúkrasamlögum sem beinlínis leituðu til Tryggingastofnunarinnar í sambandi við þessi vandamál. Af þessum sökum þarf örugglega til að koma betra eftirlit og annað skipulag.

Í sambandi við reglugerðirnar verð ég að segja það, að það, sem mestu máli skiptir í sambandi við þetta nýja skipulag heilbrigðisþjónustunnar, og það, sem allir voru sammála um á sínum tíma, þegar þessi lög voru sett 1973, að væri einn veigamesti þátturinn í lögunum um heilbrigðisþjónustuna, eru einmitt heilsugæslustöðvarnar. Með þeim lögum er verið að tryggja að allir íbúar landsins nálgist það að eiga sambærilega aðstöðu til heilbrigðisþjónustu. Þess vegna var uppbygging heilsugæslustöðvanna gífurlega mikilvægur þáttur í þessu öllu saman. En það er einmitt í sambandi við rekstur heilsugæslustöðvanna sjálfra sem skortur á reglugerðum er hvað tilfinnanlegastur. Það stendur beinlínis í þeim lögum, að allar ákvarðanir um starf heilsugæslustöðvanna, samskipti við lækna og aðra aðila skuli ákvarða með reglugerð. Þess vegna er mjög tilfinnanlegt fyrir þá, sem þurfa að standa fyrir rekstri heilsugæslustöðva, að þetta skuli ekki hafa verið sett enn þá í framkvæmd.

Í sambandi við aðstöðumun sveitarfélaga, sem ráðh. minntist á áðan, vil ég segja, að ég batt miklar vonir við að sú nefnd, sem hann nefndi hér réttilega og átti að skila af sér í byrjun árs 1979, mundi ljúka störfum, vegna þess að það er ákaflega mikilvægt atriði, sérstaklega fyrir þau sveitarfélög í dreifbýlinu sem reka þessar stöðvar, að á þessu verði gerð viss skipulagsbreyting. Ég þori að fullyrða — og ég hef nægar sannanir fyrir því — að þessi mismunur er slíkur að víðast í þéttbýlinu, þar sem sjúkrahúsin eru og menn geta farið beint inn á sjúkrahúsin og tengið þessa þjónustu, þar er kostnaður heilsugæslunnar í viðkomandi sveitarfélögum á bilinu 1500–2500 kr. á íbúa. En hjá hinum sveitarfélögunum, þar sem þetta er ekki í tengslum við sjúkrahúsin, er það ódýrast um 10 þús. kr. á íbúa og allt upp í 18 þús. kr. á íbúa miðað við s.l. ár. Þetta er aðstöðumunur, sem ég held að hv. alþm. dyljist ekki að er óeðlilegur. Þetta þarf að jafna, og ég treysti því, að hæstv. trmrh. beiti sér fyrir því að bæði Tryggingastofnun ríkisins og hans rn. hefji nú rösklega vinnu við að koma þessum málum í það horf sem æskilegt er.