22.01.1980
Sameinað þing: 14. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 463 í B-deild Alþingistíðinda. (510)

216. mál, Hafísnefnd

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Vegna þeirrar fsp., sem hér er fram komin, vil ég fá að segja nokkur orð sem formaður þeirrar nefndar sem hér um ræðir, hafísnefndar margfrægrar.

Ég vil geta þess að það hafa líklega fáar nefndir unnið eins snarplega að því verkefni, sem þeim hefur verið falið, og hafísnefnd. Hún hélt 50 fundi, tæplega þó, á tveggja mánaða starfstíma og raunverulegum starfstíma, sem m.a. snerust að mjög verulegu leyti um það að koma vörum og ýmsum varningi til hafíssvæðisins á meðan verkfall Farmanna- og fiskimannasambandsins stóð yfir.

Ég ætla ekki að agnúast við þá félaga mína í hafísnefnd sem ég átti mjög gott samstarf við og hef ekki undan að kvarta á nokkurn hátt. Hins vegar vil ég að það komi skýrt fram, að eftir að verkfalli Farmanna- og fiskimannasambandsins lauk fóru menn að tínast hver til síns heima og höfðu þá þm. búsettir í Norðurlandskjördæmi eystra verið mánuði lengur í Reykjavík en þeim bar, eftir að leyfi þeirra frá þingi hófst. Eftir að þeir voru farnir gerði formaður þrjár tilraunir til þess að boða fund í hafísnefnd, en tókst ekki, vegna þess að nm. voru fjarverandi eða ekki náðist til þeirra af einhverjum orsökum, eins eða tveggja í senn. Síðan fór mjög verulegur tími í skýrslugerðir í sumar og þeim var lokið nú fyrir mánaðamótin nóv.-des. s.l. Þá var gengið frá lánum til allra þeirra manna sem áttu rétt á þeim samkv. skýrslugerð og þeim athugunum sem fram fór á skýrslum.

Hv. þm. Stefán Valgeirsson lét hér orð falla sem að mínu mati eru nokkuð alvarleg og ég tel að hann verði að renna frekari stoðum undir. Ég vil óska þess, að hann komi á framfæri og sýni hér þau bréf sem honum hafa borist um ófullnægjandi afgreiðslu ýmissa mála, eins og hann orðaði það. Einnig vil ég að hann bendi á og leyfi mér að ræða við þá menn sem hafa flutt ámæli á hendur nefndinni fyrir starfsleysi. Þetta þætti mér gott að fá í hendur, svo að ég gæti sannreynt það.

Ég hef satt að segja ekki miklu meira um þetta að segja annað en það, að þegar nefndin hafði skilað bráðabirgðaskýrslu var mér tjáð óformlega að ég gæti lítið svo á að með þessu væri störfum nefndarinnar að mestu lokið. Við þurfum ekkert að fara í grafgötur með það, að ástand þjóðmála var ekki þannig á s.l. hausti, að það væri verulegur fengur að því að fara í gang með nefndarstörf af þessu tagi, og kosningar voru í desember.

Ég veit ekki hvað hv. þm. Stefán Valgeirsson vill að nefndin geri eftir að ríkisstj. hefur nánast tekið þá ákvörðun að hennar störfum sé lokið og að hún hafi sinnt þeim frumskyldum sem fram komu í skipunarbréfi.