22.01.1980
Sameinað þing: 14. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 463 í B-deild Alþingistíðinda. (511)

216. mál, Hafísnefnd

Fyrirspyrjandi (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Það er verst að hæstv. forsrh. skuli ekki vera hér inni. Ég man ekki betur en um það væri rætt við ráðh., að við skiluðum skýrslu með tillögum til úrbóta á haustmánuðum, eins og kemur fram í skýrslunni, sem ég las upp úr áðan, og þess vegna kemur mér það ákaflega undarlega fyrir sjónir, ef fyrrv. forsrh. hefur lagt til að leggja nefndina niður. Það er alger misskilningur hjá ráðh., að hafísnefnd hafi verið búin að ljúka störfum. Ég geri ráð fyrir að hann viti betur. Ég er t.d. hér með bréf í höndum, sem er skrifað 13. des, og undirritað af þremur mönnum norður á Þórshöfn, Jóhanni Jónssyni, Ólafi Rafni Jónssyni og Óla Þorsteinssyni. Það eru bornar fram miklar kvartanir í þessu bréfi um afgreiðslu mála. Það eru t.d. kvartanir yfir því, að málum báts, sem lenti í hafís, eina bátsins, sem varð fyrir verulegum skemmdum, hafi ekkert verið sinnt, hann hafi orðið fyrir stórtjóni, en hafi enga úrlausn mála sinna fengið. Enn fremur kemur fram í þessu bréfi, sem er sjálfsagt að láta fyrrv. formann hafísnefndar fá ljósrit af, mikil óánægja í sambandi við afgreiðslu á lánum vegna þorskaneta og skýrsla og skrá yfir það, hvað þeir hafi verið hlunnfarnir í því máli. Og hér koma reikningar frá heildsölufyrirtæki, sem ég fékk þó enn síðar, til þess að staðfesta þetta mál.

Ég ætla ekki í þessum ræðustól að fara að lesa upp bréf og aðfinnslur. (Gripið fram í: Þú ert nú að gera það.) Ég er ekki að gera það, ég er bara að taka dæmi, vegna þess að hv. þm. Árni Gunnarsson skoraði á mig að nefna dæmi. En hérna er þetta bréf, og fleiri bréf er ég með. Þess vegna var spurt um það, hverjum hæstv, félmrh. hefði falið að inna þessi störf af hendi. Er það misskilningur hjá mér einum, að rætt hafi verið um það við hæstv. fyrrv. ríkisstj., að þessi skýrsla yrði gefin í sambandi við birgðamálin? Ég gæti líka lesið hér upp úr skýrslu hafísnefndar 1968, þar sem gerðar eru ábendingar um að það þurfi að sinna þessum málum áfram og einmitt að vinna þau verkefni sem við ræddum um og vorum allir sammála um í hafísnefnd að vinna þyrfti.

Ég vil svo þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans, en ég harma það, ef öðrum er þá ekki falið þetta verkefni svo að það verði unnið, þ.e.a.s. að athuga, hvað þurfi að gera, og gera tillögur til úrbóta og enn fremur að ljúka þeim málum sem þurfti.

Það kom fram hjá hv. þm. Stefáni Jónssyni, að það hefur ekki verið haft samband við nefndina í heild um eitt einasta mál síðan verkfallinu lauk í vor. Ekkert. Og þær afgreiðslur sem síðan hafa átt sér stað eru ekki samþykktar eða um þær teknar ákvarðanir af hafísnefnd.