22.01.1980
Sameinað þing: 14. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 463 í B-deild Alþingistíðinda. (512)

216. mál, Hafísnefnd

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Aðeins örfá orð. — Það má vel vera að kvartanir hafi komið alveg fram í desember yfir ýmsu í þessu sambandi. En þá eru það ekki kvartanir vegna starfa hafísnefndar, heldur kvartanir vegna afgreiðslu sjóða, t.d. Bjargráðasjóðs og annarra slíkra sjóða. Það vantaði að þeirra mati ýmis lagafyrirmæli eða breytingar á lögum, og voru sett brbl. til að veita þær heimildir sem þessar sjóðsstjórnir töldu að vantaði. Það hefur engum verið falið að vinna verkefni hafísnefndar. Aftur á móti hefur ýmsum verið falið að koma hugmyndum hennar og samþykkt ríkisstj. í framkvæmd. Og það eru kannske þeir aðilar sem hægt er að kvarta undan, stundum réttilega og stundum vegna þess að lög vantar.

Hitt er svo annað mál, að það getur vel verið að rétt sé að svona nefnd eigi að starfa varanlega, áfram eigi að huga að þessum málum upp á framtíðina. En það er allt annað mál og utan við það verksvið sem þessari hafísnefnd var ætlað.