22.01.1980
Sameinað þing: 14. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 472 í B-deild Alþingistíðinda. (519)

217. mál, kaup og sala á togurum

Bogi Sigurbjörnsson:

Forseti. Mig langar aðeins til þess að blanda mér í þessar umr. um togarakaup og útgerð togara og kannske sérstaklega út af því, að það hefur verið rætt um slæma aðild útgerðaraðila frá Siglufirði í þessum málum.

Þá er líklega fyrst að geta þess, sem hv. þm. að sjálfsögðu vita, að höfuðútgerðarfyrirtækið á Siglufirði er Þormóður rammi hf. Aðaleigandi þess er ríkið sjálft, sem á 62%, Siglufjarðarkaupstaður 30% og einstaklingar 8%. Þormóður rammi á tvo af fimm togurum sem voru til á Siglufirði, Stálvík og Sigluvík, og dæmið hefur verið þannig, að það fyrirtæki hefur átt verulegan þátt í að sigla með sinn afla. En ég veit ekki hvort menn hafa gert sér ljóst, af hverju siglt er með aflann.

Því miður hefur togaraútgerð þessa ágæta félags gengið þannig og verið rekin við slíkar aðstæður, að hún hefur ekki fengið aðstöðu til þess að byggja sig upp svo að viðunandi sé. Má segja, að á hverjum föstudegi vantar peninga til að borga út almenn laun. Þetta hefur verið algert neyðarbrauð, þessar siglingar, hjá þessum skipum a.m.k., og ekki gert í neinum öðrum tilgangi en að fá í fyrsta lagi peningana fyrr inn, í öðru lagi í einstaka tilfellum að fá meiri peninga, en fyrst og fremst að fá peningana sem allra fyrst inn. Ef þetta á að leggja forráðamönnum þessa fyrirtækis til lasts, þessa neyðarkosti, þá er illa komið. Það hefur raunverulega oft verið leitað eftir því að staða þessa fyrirtækis yrði bætt, en árangur takmarkaður. Og það get ég fullyrt, að það hefur oft verið raunverulega fisklítið í landi einmitt út af þessari stöðu.

Það var komið hér inn á kaup á Siglfirðingi, sem keyptur var til Siglufjarðar á síðasta ári, og deilt á fyrrv. fjmrh. fyrir að þessi kaup hefðu átt sér stað. Ég veit ekki hvernig fiskiðjuver, sem á engan togara og engan bát og ekkert fley, á að halda gangandi sínum rekstri og fá ekki heimild til skipakaupa. Það er fyrirtæki á Siglufirði, sem heitir Ísafold, er keypti Siglfirðing, og hefði það ekki fengið að kaupa þetta skip, þá væri alls ekki um neinn rekstur þar að ræða meira. Það var teflt upp á líf og dauða að fá þetta skip eður ei. Það getur vel verið, að það sé raunverulega stefnumið hjá stjórnvöldum, að þar sem ekkert skip er fyrir hendi, en fiskiðjuver, þar sé engin ástæða til að greiða úr. Ég skil ekki slíka stjórnsýslu.

Þá er útgerðarfyrirtæki á staðnum, Togskip hf., sem hefur gert út langan tíma, allt frá 1970. Það gerði út bv. Dagnýju, skip sem sigldi og hefur siglt og er ekki í tengslum við eitt eða neitt frystihús, hvorki þar né annars staðar, enda með frystilestum og öðru slíku, sérstaklega hagstætt til siglinga. Dagný hefur landað öðru hverju, þegar þannig hefur staðið á, en ekki til þess að byggja á því. Þetta útgerðarfyrirtæki fékk leyfi til að flytja inn notaðan togara frá Frakklandi, Sigurey, með því skilyrði að hinu skipinu, Dagnýju, yrði skipt burt. Þetta féllust eigendur þessa útgerðarfyrirtækis á og átti að framkvæma og hefði verið framkvæmt, en þá kom til vandamálið með Þórshöfn, að þar vantaði hráefni í fiskiðjuverið, og var samið við þessa aðila að skipið fengi leyfi til veiða til að leggja þar upp að hluta. Eins og þeir, sem hafa fylgst með því máli, sjálfsagt vita, hefur því miður gengið á ýmsu með þær landanir. Bæði hafa verið erfið skilyrði, skilst mér, í höfninni á Þórshöfn og ýmsar erfiðar aðstæður við að glíma. Ég þekki það mál ekki nógu mikið, en skipið hefði ekki verið gert út frá Siglufirði á þorskveiðar nema til hefði komið fiskveiðileyfi út á Þórshöfn. Já, eins og ég sagði áðan þekki ég málið ekki nægilega. En það hlýtur að vera mál stjórnvalda, ef þau gefa út leyfi með einhverjum ákveðnum skilyrðum og ef skilyrðin eru svikin, eins og talið hefur verið, þá hlýtur að vera við þá að sakast sem gáfu út leyfið, að draga það þá ekki til baka. Nú er þetta úr sögunni þannig séð, skipið hefur verið selt til Hafnarfjarðar á s.l. ári, svo að nú eru aðeins fjórir togarar á Siglufirði. Mér er alveg ljóst, að þessir þrír togarar, sem eru bundnir þar við frystihús, þyrftu að leggja upp afla úr hverri einustu veiðiferð í þessi fiskiðjuver. Það er algerlega út úr neyð sem þeir eru látnir sigla. Það er bara til að losa peninga sem fyrst og bæta bágborna fjárhagsstöðu.

Þetta er staða þessara fiskiðjufyrirtækja á Siglufirði, því miður, jafnvel þó að þau séu í eigu ríkisins að langmestum hluta.