22.01.1980
Sameinað þing: 14. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 477 í B-deild Alþingistíðinda. (523)

217. mál, kaup og sala á togurum

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Það er aðeins örstutt aths.

Í því tilfelli, sem ég nefndi, var það alveg pottþétt að eldri Júlíus Geirmundsson var seldur úr landi og engar áhyggjur hægt að hafa um að honum yrði breytt í árabát eða árabátur seldur fyrir hann. En þá gerist það, að hann er keyptur til landsins. Það, sem var alveg öruggt í þessum efnum, brást.

Hins vegar var allt of seint tekin upp þessi regla og gekk á ýmsu, en ég tel að það skipti mestu máli að ef möguleiki sé á að losna við gömul og óhentug skip eigum við auðvitað að gera það, eins og Norðfirðingar gerðu. Þeir voru að losna við, að mig minnir, 12 ára gamalt skip, og það var alveg sjálfsagt að gera það.

Við greiðum hvorki fyrir né setjum okkur upp á móti skipasmíðastöðvunum innanlands með því að knýja útgerðina til að eiga og reka úrelt skip. Þeir geta þá ekki látið smíða innanlands og þá sitja þeir áfram uppi með sitt gamla og úrelta skip. Hins vegar má auðvitað meta það og vega hverju sinni hvað er úrelt skip og hverjum á að leyfast að endurnýja skip sem eru tiltölulega ný eða nýleg. En þeim, sem eiga mikið framlag til þess, er síst af öllu hægt að meina það.