22.01.1980
Neðri deild: 22. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 482 í B-deild Alþingistíðinda. (530)

68. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Sjútvrh. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Það frv., sem hér er flutt, tengist því frv. um breyt. á lögum um Aflatryggingasjóð sjávarútvegsins sem enn fremur verður lagt fyrir hér á eftir. En tilgangur þessa frv. um breyt. á lögum um útflutningsgjald af sjávarafurðum er þríþættur:

Í fyrsta lagi að auðvelda fiskvinnslunni að greiða olíugjald til fiskiskipa með því að lækka útflutningsgjald af sjávarafurðum frá því stigi sem gildandi er nú, sem er 6%, í 5,5%. Hér er því lagt til að hluti af því fé, sem að óbreyttum lögum rynni til sjóða sjávarútvegsins, fari til að létta útgerðinni róðurinn eftir þá miklu hækkun olíuverðs sem orðið hefur á undanförnum missirum.

Í öðru lagi er tilgangurinn að afla tekna til aflajöfnunardeildar Aflatryggingasjóðs til þess að gera deildinni kleift að standa undir greiðstu verðuppbóta samkv. því frv., sem mælt verður fyrir hér á eftir, á afla einstakra fisktegunda í því skyni að beina sókn frá einstökum fisktegundum til annarra sem fremur eru taldar þola veiðar. Þessar aflajöfnunarbætur kæmu að sjálfsögðu til skipta milli útvegsmanna og sjómanna eins og annað fiskverð.

Í þriðja lagi er samkv. þessu frv. ætlað sérstaklega fé af útflutningsgjaldi til úreldingarstyrkja til eigenda fiskiskipa til þess að létta þeim að taka óhentug skip úr rekstri.

Um fyrsta atriðið, lækkun útflutningsgjaldsins með tilliti til olíuverðshækkunar, má vísa til fordæmis sem gefið var í lögum nr. 3. frá 2. mars 1979, en þá var einmitt gripið til hliðstæðra aðgerða, þegar lögunum um útflutningsgjald var breytt og gjaldhlutfallið lækkaði úr 6% í 5% af verðmæti útfluttra sjávarafurða.

Um annað atriðið er það að segja að samhliða þessu frv. er flutt frv. um stofnun sérstakrar aflajöfnunardeildar við Aflatryggingasjóð sjávarútvegsins, og vísast til aths. með því frv. um það mál. Með því frv., sem hér er flutt, eru aflajöfnunardeildinni tryggðar varanlegar tekjur af útflutningsgjaldi, en auk þess eru heimildarákvæði þess efnis, að sjóðstjórn Aflatryggingasjóðs geti fært fé milli deilda, þ.e. milli almennu deildar sjóðsins og aflajöfnunardeildar, ef þörf krefur. Auk þess eru í frv. ákvæði til bráðabirgða til þess að tryggja fé til að ljúka greiðslu uppbóta á karfa og ufsa vegna ársins 1979.

Nefnd, sem ég skipaði s.l. vor til að endurskoða lög um Aflatryggingasjóð, varð sammála um að mæla með flutningi frv. um aflajöfnunardeildina og frv. um útflutningsgjaldið að því er starfsemi Aflatryggingasjóðs varðar. Enn fremur hefur verið samstaða um þetta frv., og reyndar frv. bæði, í Verðlagsráði sjávarútvegsins.

Með ráðstöfun tekna af útflutningsgjaldi til greiðslu úreldingarstyrkja til eigenda fiskiskipa, sem er þriðji þáttur þessa frv., er verið að marka fastan farveg fyrir þá starfsemi sem hófst með lögum nr. 95/1978 og á sér reyndar lengri aðdraganda. Auk þess sem hluta af útflutningsgjaldstekjum er ráðstafað til þessara þarfa er í frv. ákvæði þess efnis, að heimilt sé að úthluta tekjuafgangi, sem verða kann eftir greiðslu iðgjaldsstyrks úr Tryggingasjóði fiskiskipa, til úreldingarstyrkja.

Fjárhagur Aflatryggingasjóðs og Tryggingasjóðs fiskiskipa er um þessar mundir talinn traustur. Því er nú talið fært bæði að lækka útflutningsgjaldið svo og að breyta nokkuð skiptingu tekna af gjaldinu í því skyni að afla aflajöfnunardeild Aflatryggingasjóðs tekna til að standa undir greiðslu verðuppbótanna og enn fremur að afla tekna til greiðslu úreldingarstyrkja.

Það sést af fskj., sem fylgir með frv., hverjar séu lauslegar áætlanir um tekjur sjóða og eins lauslegar hugmyndir um fjárþörf Aflatryggingasjóðs og Tryggingasjóðs fiskiskipa á árinu 1980, miðað við verðlag og gengi í upphafi þessa árs. Af þessum áætlunum má ráða að bæði hin almenna deild Aflatryggingasjóðs og áhafnadeild hans, svo og Tryggingasjóður fiskiskipa, þoli þann tilflutning á tekjum, sem hér er gert ráð fyrir, án þess að það þurfi að koma niður á starfsemi þeirra. Enn fremur má benda á að þessir sjóðir njóta annarra tekna en útflutningsgjaldstekna, svo sem tekna af eignum, auk þess sem almenna deildin fær mótframlag úr ríkissjóði.

Herra forseti. Með tilliti til þess að brýnt er að ákveða fiskverð og þetta frv. leggur m.a. grundvöll að þeirri ákvörðun vil ég óska þess að það fái eins skjóta afgreiðslu í þessari d. og hv. d. telur mögulegt, og legg til að frv. verði vísað til hv. sjútvn. og 2. umr.