22.01.1980
Neðri deild: 22. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 483 í B-deild Alþingistíðinda. (531)

68. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég lít svo á að þau tvö mál, sem eru á dagskránni, frv. til l. um breyt. á lögum um útflutningsgjald af sjávarafurðum og frv. um breyt. á lögum um Aflatryggingasjóð sjávarútvegsins, séu í raun og veru flutt af þeirri ástæðu fyrst og fremst að greiða fyrir ákvörðun fiskverðs, eins og í raun og veru kom fram í orðum hæstv. sjútvrh. áðan. Í sjálfu sér finnst mér ekki nema eðlilegt að þessi frv. séu flutt og þau komi til meðferðar og athugunar frekar í sjútvn. Hins vegar sakna ég þess, að ekkert liggur enn þá fyrir Alþingi í sambandi við framlengingu á tímabundnu olíugjaldi til fiskiskipa, því að ég tel að þau þrjú atriði, þessi tvö frv. og væntanlegt frv. um olíugjald, séu forsenda þess að hægt sé að ganga frá fiskverðsákvörðun, og nú er liðið á fjórðu viku frá því að fiskverð átti að liggja fyrir.

Nú er erfitt fyrir ríkisstj., sem situr og er starfsstjórn og hefur ekki á bak við sig nema 10 þm., annað en að leita samstarfs við aðra þingflokka eða örugglega þá meiri hluta Alþ. til að lögfesta þau frv. sem þarf til að byggja fiskverðsákvörðun á. Því miður hefur ekki, að ég best veit, verið rætt við neinn þingflokk um þessi tvö frv. sem fóru í prentun fyrir helgi og var útbýtt í gær. Efnislega erum við sjálfstæðismenn samþykkir þessum frv., en þó höfum við nokkrar athugasemdir fram að færa.

Útflutningsgjald af sjávarafurðum er lækkað frá gildandi lögum úr 6% í 5.5% til þess að greiða fyrir fiskvinnslunni að geta tekið á sig hækkað fiskverð. Eftir því sem hefur heyrst og að sumu leyti sést er staða fiskvinnslunnar erfið. Hins vegar er ekki unnt að ræða um tilteknar væntanlegar hækkanir á fiskverði áður en heildarlausn liggur fyrir og meiri hluti Verðlagsráðs sjávarútvegsins hefur fallist á einhverja ákveðna lausn. En margt bendir til þess, miðað við þær verðbætur sem aðrir hafa fengið á þessu tímabili, að ekki verði hjá hækkun komist. Þrátt fyrir góða stöðu meginþorra útgerðarinnar, þó með undantekningum, í lok þessa árs verður ekki hjá því komist að fiskverð hækki bæði til sjómanna og útgerðar.

Þrátt fyrir þá breytingu á útflutningsgjaldi, sem hér er lögð til og miðað við þá stöðu, sem ég best veit að fiskvinnslan er í, þykir mér líklegt að fiskvinnslan þurfi á auknum tekjum að halda eða fleiri krónum. Því vil ég spyrja hæstv. sjútvrh. að því, hvort til umræðna hafi verið við lausn þessara mála einhvers konar gengissig til að bæta fiskvinnslunni upp hallann. Þá er auðvitað mjög komið undir því, hvort það eigi að vera hratt gengissig eða hvort gengið eigi að síga á löngum tíma, því ef ákveðið er hratt gengissig skömmu eftir að fiskverð er ákveðið kemur það auðvitað fiskvinnslunni meir til góða en hægt gengissig sem hækkar vextina að sama skapi og kemur þá síður til góða. Jafnframt væri nauðsynlegt að fá upplýsingar um hvenær hæstv. ráðh. hyggst leggja fram frv. um tímabundið olíugjald til fiskiskipa, því þó að það liggi í loftinu að það gjald, sem var í gildi til síðustu áramóta, lækki eitthvað verður auðvitað ekki hjá því komist að halda því áfram um sinn.

Varðandi frv., sem hér liggja fyrir — ég leyfi mér að ræða bæði frv. í einu til þess að spara tíma, þá er veigamesta breytingin í fyrra frv. að lögfest er aflajöfnunardeild Aflatryggingasjóðs og að hún eigi að fá fasta hlutdeild í útflutningsgjaldinu eða 20%. Aflatryggingasjóður hefur fram að þessu skipst í almenna deild og áhafnadeild. Ég er sammála því, að um sinn verði verðjafnað á milli tegunda, sem eru vannýttar eða ekki fullnýttar, til að minnka sóknina í fullnýttar og ofveiddar fisktegundir. Hins vegar er ég andvígur því, að sett sé á til frambúðar hið svokallaða aflajöfnunargjald. Ég held að tímasetja eigi þessar verðbætur, en ekki að líta alfarið á þær sem framtíðarlausn, því að aðstæður geta breyst og breytast vonandi. Hér er um að ræða að taka fjármuni frá einum í útgerðinni og fiskvinnslunni og færa til annarra innan sömu atvinnugreinar. Það getur verið hæpið að slíkt gildi til langframa.

Með frv. um Aflatryggingasjóð er fskj. um hugmyndir um verðbætur. Þessar hugmyndir um verðbætur ná til bæði ufsa og karfa, sem voru verðbættir á s.l. ári. Ég gerði nokkrar aths. þegar brbl voru hér til staðfestingar í des. Þá benti ég á að ufsi með verðbótum hefði hækkað frá 1. júní 1977 til 1. júlí 1979 um 120% og karfi hefði hækkað með verðbótum á þessu sama tímabili um 98%, en hins vegar hefði grálúða ekki hækkað á þessu tímabili nema um 30% og minni grálúðan um aðeins 28%, en sú fisktegund var ekki verðbætt á s.l. ári. Eftir því sem ég best veit var sóknaraukning í grálúðuna um 5000 tonn eða 50% hækkun frá árinu 1978 og því eðlilegt að þeir sjómenn og sú útgerð, sem stundaði grálúðuveiðar fengju verðbætur. Nú er grálúðan komin inn í hugmyndir um verðbætur fyrir 1980 og ég fyrir mitt leyti hef ekkert við það að athuga.

Í frv. um Aflatryggingasjóð er gert ráð fyrir að heimilt sé að færa fé milli aflajöfnunardeildar og hinnar almennu deildar sjóðsins, þannig að hvert einstakt ár geti hluti aflajöfnunardeildar mest orðið 25% , en minnst 15% af útflutningsgjaldinu.

Ákvæði til bráðabirgða er í frv. þess efnis að tryggja fé til að ljúka greiðslu uppbóta á karfa og ufsa vegna ársins 1979. Ég sé ekki annað en að það verði að fallast á það, því það er skuldbinding sem búið er að gefa. Það er talið að hér vanti um 200 millj. kr., og taka þurfi 100 millj. úr hinni almennu deild Aflatryggingasjóðs og 100 millj. úr Tryggingasjóði fiskiskipa.

Þó að ég sé þeirrar skoðunar að það geti gengið að þrengja um hríð kosti almennu deildar Aflatryggingasjóðs vegna þess, hvað útlit og veiðar og afkoma hefur verið góð á s.l. ári og mikill afli víðast hvar, er mér hins vegar sárara um að taka enn til viðbótar 100 millj. kr. úr Tryggingasjóði fiskiskipa. Þegar aldurslagasjóðurinn var lögfestur í sambandi við Samábyrgð Íslands á fiskiskipum gengust útgerðarmenn af frjálsum vilja inn á að greiða iðgjald til aldurslagasjóðsins. Ef eftirstöðvar yrðu af Tryggingasjóði fiskiskipa var ætlun og ásetningur stjórnvalda á þeim tíma og loforð að þeim fjármunum, sem þá yrðu eftir, yrði varið til aldurslagasjóðs til þess að flýta fyrir því að taka úrelt og þjóðhagslega óhagkvæmt fiskiskip úr notkun og bæta eigendum að vissu marki upp tjón þeirra við að missa skipin og fá engar aðrar tjónabætur en þessar. Afgangsfjármagni Tryggingasjóðs hefur nú verið eytt að verulegu leyti. Á s.l. ári, var gripið til þess að til að greiða stóran hluta af verðbótum á ufsa og karfa og þar af leiðandi tekið frá þeim brýnu verkefnum sem aldurslagasjóði eru ætluð. En úr því sem komið er og þar sem hér er um eftirstöðvar að ræða hvað þetta snertir, þá treysti ég mér ekki, þrátt fyrir að ég sé mjög á móti þessu, til annars en að samþ. að ákvæðið til bráðabirgða í frv. um útflutningsgjald fari í gegn.

Ef við lítum á fskj. I, þar sem eru áætlanir um tekjur sjóða sjávarútvegsins af útflutningsgjaldinu og fjárþörfina á árinu 1980, sjáum við að ákaflega mikið hefur verið þrengt að hinni almennu deild Aflatryggingasjóðs. Ef miðað væri við verðlag í árslok 1979 og gjaldstofn útfluttra sjávarafurða næmi 245 milljörðum kr. hefði almenna deildin samkvæmt lögunum frá 1976 átt að hafa 3234 millj., samkv. lögunum 1979 tæpar 2400 millj., en í frumvarpsdrögum frá 14. jan. 1980 ætti almenna deildin að hafa rúmar 2000 millj. Verðbótunum á fisktegundir er ætlað samkv. hugmyndum sömu frv.-draga að nema hvorki meira né minna en tæplega 2700 millj. kr. Áhafnadeildin er samkvæmt hugmyndum þessara frv.draga komin í 2830 millj., miðað við rúmar 3800 millj. 1976. Það hlýtur að vera reikningsdæmi sem eigi nokkurn veginn að liggja fyrir.

Töluvert er þrengt að Tryggingasjóði fiskiskipa og skal ég ekkert fjölyrða frekar um það. En hluta af tekjum hans á að verja, eins og kallað er í frv. og fskj. þess, til úreldingarstyrkja til eigenda fiskiskipa, 404 millj. kr. Ég er alveg sammála því, sem er hér í frv., að rétt sé að verja hluta af Tryggingasjóðnum í framhaldi af því sem ákveðið var í þeirri ríkisstj. sem ég átti sæti í á sínum tíma. Hins vegar tel ég réttara og eðlilegra að þeim fjármunum verði veitt til aldurslagasjóðsins og aldurslagasjóður fiskiskipa fari með bótagreiðslurnar allar eða stjórn hans. Sú stjórn er kjörin af útvegsmönnum að 2/5, af fulltrúum útvegsmanna í gegnum bátaábyrgðarfélögin í landinu að 2/5, þannig að í raun og veru eiga útgerðarmenn 80% aðild að stjórn aldurslagasjóðsins og Samábyrgðar Íslands, en aðeins einn fulltrúi er skipaður af ríkisvaldinu. Ég tel því að það sé eðlilegra og einfaldara í sniðum að þessir aðilar annist að öllu leyti verkefni aldurslagasjóðsins, þó ég geti fúslega fallist á að þeim fjármunum, sem koma beint af útflutningsgjaldinu, verði ráðstafað með nokkru frjálslegri hætti en lögin um aldurslagasjóð gera ráð fyrir og þá með sérstakri reglugerð sem sjútvrn. gæfi út.

Mér finnst að mörgu leyti séu heldur þrengdir kostir Fiskveiðasjóðs, og má hann síst við því. En ég ætla ekki að ræða það. Þá heildarmynd höfum við ekki fyrr en við sjáum lánsfjáráætlunina lagða fram í hv. Alþ., sem ég fyrir mitt leyti er farinn að vera óþolinmóður eftir að sjá, því að samkv. efnahagslögunum frá s.l. ári hvílir sú lagaskylda á ríkisstj. nú, sem ekki var áður, að leggja lánsfjáráætlun fram jafnhliða fjárlagafrv. enda er ekki hægt að sjá heildarstefnu nema hvort tveggja sé lagt fyrir Alþ. Ég vil nú leyfa mér, þó að lánsfjáráætlun heyri ekki undir hæstv. sjútvrh., að spyrja hann, af því ég sé að hæstv. fjmrh. er hér ekki, hvort lánsfjáráætlunin sé ekki alveg að koma og hvort henni verði ekki útbýtt á Alþ. mjög fljótlega.

Í sambandi við þessi frv. var ég að spyrja hæstv. sjútvrh. spurninga sem er nú frekar fyrir fjmrh. að svara. Ég spurði um hvort þm. fengju ekki að sjá alveg á næstunni lánsfjáráætlun, hvort henni yrði útbýtt þannig að við sæjum hver ætlunin væri í sambandi við t.d. Fiskveiðasjóð í þessu tilfelli, þó lánsfjáráætlunin sé auðvitað, eins og allir vita, margfalt víðtækara og stefnumarkandi plagg.

Þegar verið er að kreppa að öllum til þess að standa undir verðbótum finnst mér skjóta nokkuð skökku við og sýna að vissu leyti rausn, þó að það sé ekki stór tala af heildarupphæðinni, að hækka um þriðjung framlagið til Landssambands ísl. útvegsmanna, þ.e. upphæðina frá árinu á undan, og líka um þriðjung til samtaka sjómanna, — ég læt þá þessa aðila fylgjast að, — að fara úr 61 millj. til hvors í 81 millj. Þetta lítur út á við hálfleiðinlega út, finnst mér, en kannske eru einhverjar frekari skýringar á því að verið sé að hækka þarna um þriðjung þegar verið er með samdrátt á öðrum sviðum. Þetta er auðvitað hvorki stórt atriði né til þess að della mikið um, en ég hefði talið að það ætti að vera í samræmi við annað í þessum samdrætti.

Ég legg áherslu á að skoða sérstaklega í n. hvort aflajöfnunardeildina eigi að lögfesta til frambúðar eða hvort eigi að líta á hana og starf hennar tímabundið í lögum. Það má auðvitað svara þeirri aths. á þann veg, að Alþ. geti alltaf breytt lögum. Það er ekki það sem ég á við. Mér er kunnugt um það eins og öðrum, að með því að setja ákvæðið inn í lögin án þess að það sé tímabundið má telja að komin sé fram nokkurs konar fyrirlýsing Alþ. um að þessi verðjöfnun eigi að halda áfram og vera til frambúðar. Í raun og veru stendur ekki deila um mikilvægi þess að koma verðjöfnun á núna, heldur fyrst og fremst um „prinsip“-atriði, hvort eigi að líta á slíkt sem framtíðarverkefni eða tímabundið verkefni. Ég er þeirrar skoðunar fyrir mitt leyti, að líta beri á verðjöfnunina sem tímabundið verkefni.

Svo var hitt atriðið í sambandi við úreldingarsjóðinn sem ég gat um áðan. Það vil ég mjög gjarnan skoða betur í n. sem fær þessi mál til umr. og ég á sæti í.

Ég vil svo að lokum endurtaka það, sem ég sagði í byrjun, og spyrja hæstv. ráðh. hvort frv. um tímabundið olíugjald verði ekki lagt fram á morgun eða svo til þess að við sjáum heildarlausnina á því, hvernig ríkisvaldið hugsar sér að leysa fiskverðsmálin. Það kveður við alts staðar að það er orðin mikil óánægja með hvað fiskverðsákvörðunin hefur dregist úr hófi fram. Þó að til þess liggi að sumu leyti nokkuð gildar orsakir má þó aftur benda á að þessi dráttur er orðinn óhæfilega langur. Hitt er ekki nýtt, það hefur áður gerst að fiskverðsákvörðun hefur ekki verið tekin í tíma og hafa liðið nokkrir dagar fram á það tímabil sem hún hefur átt að gilda.