23.01.1980
Efri deild: 23. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 493 í B-deild Alþingistíðinda. (539)

56. mál, mat á sláturafurðum

Iðnrh. (Bragi Sigurjónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir hv. þd. um breytingu á lögum varðandi meðferð, skoðun og mat á sláturafurðum, er einungis endurnýjun á frv. eða lögum, sem hafa verið endurnýjuð frá ári til árs nú undanfarin ár, og stafar af því að þó að töluvert hafi áunnist um endurbyggingu sláturhúsa svo að þau verði í góðu lagi, þá hefur sú uppbygging þó ekki gengið hraðar en svo, að enn má búast við að þurfi að slátra í ólöggiltum sláturhúsum, en þó þannig að það verði ekki framkvæmt nema yfirdýralæknir og héraðsdýralæknar fjalli um þau mál og leyfi. Er því talið nauðsynlegt að fá að framlengja heimild ráðh. til að leyfa slátrun í slíkum sláturhúsum, og um það fjallar það frv. sem ég mæli hér fyrir. Ég hygg að þetta liggi öllum það ljóst fyrir, að um það þurfi ekki mörg orð að hafa, og leyfi mér að æskja þess, að málið verði að lokinni umr. látið ganga til hv. landbn. til skoðunar.