23.01.1980
Neðri deild: 23. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 497 í B-deild Alþingistíðinda. (544)

46. mál, orlof

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Hv. 1. flm. þessa frv. hefur lýst efni þess og skýrt frá því, að hann hafi áður flutt þessa till. í frv.-formi fyrir um það bil tveimur þingum. Á 100. löggjafarþinginu urðu dálitlar umr. hér í þessari hv. d. um þessi mál vegna frv. sem fyrrv. hæstv. ríkisstj. flutti um breytingu á orlofslögunum, þar sem gert var ráð fyrir að Póstgíróstofan fengi frekari heimildir til þess að fá upplýsingar hjá á atvinnurekendum sem bæri skylda til að greiða orlof. Í þeim umr. komu fram ýmis sjónarmið og tók þátt í þeim m.a. hv. fyrrv. þm. Eðvarð Sigurðsson. Í þeim umr. lét ég koma fram sjónarmið sem ég tel ástæðu til þess að árétta þegar við 1. umr. þessa máls, þótt ég eigi sjálfur sæti í þeirri n. sem lagt er til að fjalli um málið að lokinni l. umr. þess.

Ég tel að frv., sem hér liggur fyrir, sé spor í rétta átt og sé í þeim anda sem ég talaði um á því þingi sem ég minntist á áður. Það er stundum þannig, að við erum að bæta ýmis kerfi, og á sínum tíma var það til mikilla bóta þegar orlofslögunum var breytt úr merkjafyrirkomulaginu í það fyrirkomulag sem við höfum núna. En þá leiddu kannske færri hugann að því, hvort kerfið væri í sjálfu sér úrelt orðið. Við skulum leiða hugann að því, að orlofslögin voru sett fyrir mörgum áratugum við allt önnur skilyrði en nú eru í landinu. Þau voru sett á þeim tímum þegar almenningur í þessu landi tók sér ekki sumarfrí, og þau voru sett til þess að tryggja að allur almenningur, og sérstaklega launþegar í verkalýðsfélögunum, fengi tækifæri til þess að taka sér frí nokkrar vikur á ári hverju.

Nú eru breyttir tímar. Það fé, sem fæst útborgað að vori til í því skyni að launþegar taki sér frí, er jafnvel notað til allt annars. Fyrir það eru keypt sjónvarpstæki, bílar, greiddar útborganir í húsnæði o.s.frv. Því vaknar sú spurning, hvort það kerfi, sem byggt hefur verið upp, nái enn þeim tilgangi sem í upphafi var ætlast til af því. Ég held því fram, að það sé mun meira gagn að því fyrir launþegana, fyrir þá lausráðnu launþega sem eru í þessu orlofskerfi, að fá þær upphæðir, sem hér er um að ræða, beint með sínum launum, þá megi leggja niður það kerfi, sem hefur verið byggt upp í kringum orlofsféð.

Það náði auðvitað ekki nokkurri átt, að til skamms tíma voru vextirnir af orlofsfénu 5%. Þeir hafa nú verið hækkaðir upp í 11%, en menn vita að það dugir hvergi nærri til að ná verðbólgustiginu, þegar það er orðið 40–80%, svo að ég nefni þau mörk sem hafa verið nefnd á undanförnum mánuðum. Ég vil þess vegna strax í upphafi segja frá því, að ég hef gælt við þá hugmynd, hvort ekki bæri að gera á löggjöfinni um orlof miklu stórkostlegri breytingar en hér er verið að fara fram á að gerðar verði. Ég lýsi þó yfir stuðningi við þá hugsun, að einstök verkalýðsfélög geti samið um þessi mál við vinnuveitendafélögin á viðkomandi stöðum á landinu og þá komi jafnvel til greina að orlofsféð sé greitt beint út eða þá greitt til verkalýðsfélaganna og látið ávaxtast í lífeyrissjóðum eða með öðrum hætti sem verkalýðssamtökin og atvinnurekendur koma sér saman um.

En það er önnur ástæða fyrir því, að ég tek til máls við 1. umr. þessa máls, og hún er sú, að ég vil gjarnan fá að vita hve mikill rekstrarkostnaður skapast vegna þess að Póstgíróstofan hefur með höndum þessa starfsemi. Hvað kostar að halda úti þessu kerfi? Mér þætti vænt um það, ef hæstv. ráðh. gæti gefið einhverjar upplýsingar um þetta. Það getur vel verið að hann sé ekki í stakk búinn til þess nú á þessum fundi d., en ef svo er, þá þætti mér vænt um að þær upplýsingar kæmu hér fram, því að þetta kerfi hefur verið til athugunar hjá rn. frá því í fyrra, þegar um það var fjallað af fyrrv. hæstv. ríkisstj. Í því sambandi er rétt að það komi fram, að Eðvarð Sigurðsson talaði fyrir því sjónarmiði á 100. löggjafarþinginu, að allir launþegar í landinu, líka þeir sem eru fastráðnir, ættu að falla undir orlofskerfið eins og það er í dag, til þess að ná fram í fyrsta lagi jafnvægi milli launþeganna og hins vegar til þess að lækka hlutfallslega fastakostnaðinn af þessu kerfi. Þetta er að mínu viti hugsun á öndverðum meiði við mína. Ég held að við ættum að leiða hugann að því fyrst og fremst, hvort við getum ekki losað okkur við þennan kostnað. Er það ekki öllum til hagsbóta? Atvinnurekandinn verður hvort sem er að standa skil á þessu fé, launþeginn fær það fyrr í hendurnar og getur komið því í það verðgildi sem verðbólgan fær ekki grandað, og við losum okkur við ákveðinn rekstrarkostnað, ákveðinn hluta af því bákni sem byggt hefur verið upp hjá Pósti og síma í kringum þetta kerfi.

Ég vildi láta þessi sjónarmið koma fram. Ég hef gert það áður úr þessum ræðustól, og ég mun athuga þetta mál með þessu hugarfari í þeirri hv. n. sem fær málið til meðferðar. Og ég vona að hv. flm. skoði þessi sjónarmið sem stuðning við fyrirliggjandi tillögu.