23.01.1980
Neðri deild: 23. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 500 í B-deild Alþingistíðinda. (547)

46. mál, orlof

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Þau mál, sem eru hér til umr. nú vegna frv. hv. þm. Karvels Pálmasonar o.fl., voru rædd nokkuð á næstsíðasta Alþingi, 100. löggjafarþinginu, eins og hv. þm. Friðrik Sophusson gat um. Hv. þm Friðrik Sophusson greindi frá þeirri skoðun, sem þar hafði komið fram hjá Eðvarð Sigurðssyni, formanni Verkamannafélagsins Dagsbrúnar, sem þá sat á Alþingi. Eðvarð Sigurðsson lagði í ræðu sinni áherslu á það meginatriði, sem hv. 1. landsk. þm. Pétur Sigurðsson, nefndi áðan, að orlofsféð væri ekki hugsað sem eyðslueyrir. Ég held að þetta verði varla betur skýrt en með því að lesa — með leyfi hæstv. forseta — stuttan kafla úr þessari ræðu sem hv. þm. Eðvarð Sigurðsson flutti og vitnað var til áðan. Eðvarð Sigurðsson sagði:

„En grundvallarhugsunin var sú, að menn ættu þetta fé þegar þeir færu í orlof. Það væri kannske alveg á sama hátt hægt að leggja niður t.d. lífeyrissjóðina, það væri kannske hægt að leggja niður að verulegu leyti almannatryggingar, færa þessa kostnaðarliði inn í kaupið og segja svo við fólkið: Þið eruð búin að fá greitt vegna þessa kostnaðar. — Málið er ekki svona. Málið er þannig, að það væri aðeins í örfáum undantekningum, bæði varðandi orlofsfé og lífeyrisgreiðslur, að menn hefðu þennan hátt á. Þess vegna voru lögin sett, þess vegna hafa menn líka komið sér saman um lífeyrissjóðina. Þetta grundvallarsjónarmið verða menn að hafa í huga. Þetta fé á að vera fyrir hendi þegar orlof er tekið.“ Eðvarð Sigurðsson hélt áfram á þessa leið:

„Hitt er svo annað mál, að sjálfsagt eru margar aðferðir hugsanlegar til þess að ná þessu marki. En þetta grundvallarmarkmið verður að vera fyrir hendi. Sjálfur hef ég gjarnan verið þeirrar skoðunar, að 1971, þegar orlofsmerkin voru lögð niður og gírógreiðslurnar teknar upp, hefði gjarnan mátt taka í þetta kerfi, gírókerfi, greiðslur alls orlofsfjár allra launþega. Með því móti hefði skapast traustur grundvöllur fyrir því, að hægt hefði verið að verðbæta þetta fé nokkurn veginn í samræmi við vöxt verðbólgu og dýrtíðar, vegna þess að þá hefði þarna verið um svo stórkostlega fjármuni að ræða, sem aðeins örlítill hluti af hefði þurft að fara til rekstrar.

Í öðru lagi hefði að mínu viti,“ heldur Eðvarð Sigurðsson áfram,“ ef þessi leið hefði verið farin, verið hægt að fá grundvöll — og ákjósanlegasta grundvöll sem menn hefðu getað fengið — fyrir margs konar launa„statistik“ sem því miður er ákaflega bágborin í landi okkar.

Ég vil undirstrika að þetta orlofsfé er ekki viðbót á launin í eðli sínu. Það er hluti af laununum sem geymdur er á þennan hátt. Ég held að það sé í verkalýðshreyfingunni fullkominn vilji til þess að skipa þessum málum á hagkvæmasta hátt, bæði hvað snertir rekstur og annað. En út frá því grundvallarsjónarmiði, þeirrar grundvallarreglu, að orlofsféð sé ekki eyðslueyrir, ekki daglegur eyðslueyrir, heldur eigi að vera fyrir hendi þegar orlof er tekið, verða allar aðferðir varðandi orlofskerfið að ganga.“

Úr því að þetta mál bar hér á góma á hv. Alþ. og vitnað var til þeirrar ræðu alveg réttilega af hv. þm. Friðrik Sophussyni, sem Eðvarð Sigurðsson, formaður Dagsbrúnar, hélt hér í fyrra, þótti mér rétt að koma þessu sjónarmiði á framfæri og vil fara þess á leit við hv. félmn., að hún taki einnig tillit til þeirra sjónarmiða þegar hún fjallar um málið.