23.01.1980
Neðri deild: 23. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 506 í B-deild Alþingistíðinda. (558)

58. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af ræðu tveggja síðustu hv. ræðumanna, sem rætt hafa um málefni Byggðasjóðs m.a.

Það er alkunna að forráðamenn Byggðasjóðs og ráðamenn halda því fram, og það með réttu, að sjóðurinn sé fyrst og fremst ætlaður til stofnlána, ekki til rekstrar, og annað, að hann sé viðbótarlánasjóður sem komi til styrkingar öðrum stofnsjóðum til þess að vinna að vissum málum. En ég vil minna á hið raunverulega hlutverk Byggðasjóðs, sem fjallað er um í 28. gr. laga um þau efni. Þar er sagt að hlutverk Byggðasjóðs sé að stuðla að jafnvægi í byggð landsins með því að veita fjárhagslegan stuðning til framkvæmda og eflingar atvinnulífs með hliðsjón af landshlutaáætlunum, sbr. 10. gr., og til að bæta aðstöðu til búsetu í einstökum byggðarlögum og koma í veg fyrir að lífvænlegar byggðir fari í eyði. — Þetta stendur skrifað.

Nú er það svo í seinni tíð, — ég dreg ekki í efa og það viðurkenna allir að Byggðasjóður hefur innt af hendi mikilvægt hlutverk og komið víða að stórgóðu liði úti um byggðir landsins, — en í seinni tíð vex þeirri skoðun fylgi að það eigi í raun og veru að leggja niður „landamæri“ Byggðasjóðs og fara að veita úr honum lán m.a. til þéttbýlisins hér á Reykjanesi og höfuðborgarsvæðinu. Ef sú stefna verður ríkjandi meira og minna í framtíðinni er ekki óeðlilegt að henni verði svarað á þann hátt að fitja upp á tillögum þess efnis að Byggðasjóður láti til sín taka í mikilvægum málum sem varða hinar dreifðu byggðir um allt land.

Hv. síðasti ræðumaður vék að því, að við sjálfstæðismenn hefðum gert tillögur um að fé úr Byggðasjóði rynni til vegamála. Hann gaf það einnig í skyn, sem rétt er, að við hefðum nefnt Byggðasjóð í sambandi við erfiðleika bændastéttarinnar. Loks nú getur frummælandi þess, að eðlilegt sé að leita til Byggðasjóðs þegar jafna á hið stórkostlega misrétti sem ríkir hvað varðar raforkuþjónustu við landsmenn. Mér finnst að þessi þrjú atriði, þó að þau kosti að sjálfsögðu mikið fé, séu í raun og veru eðlilegt andsvar við þeim tillögum sem nýlega hafa verið samþykktar af forráðamönnum Byggðasjóðs og gera ráð fyrir því, að mér skilst, að „landamæri“ Byggðasjóðs verði raunverulega lögð niður og hann láti til sín taka — að sönnu að góðu einu — hvar sem vera skal um byggðir landsins.