23.01.1980
Neðri deild: 23. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 509 í B-deild Alþingistíðinda. (562)

58. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Dómsmrh. (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Þessi umr. hefur að nokkru fjallað um Framkvæmdastofnun ríkisins og er kannske rétt að leggja nokkur orð í belg um þá stofnun. Henni veita forstöðu tveir framkvæmdastjórar, sem jafnframt eru alþm. Því til viðbótar eru síðan fimm menn í stjórn þessarar ágætu stofnunar sem enn fremur eru jafnframt alþm. Eins og kom fram í máli hv. þm. Friðjóns Þórðarsonar hafa „landamæri“ í sambandi við lánveitingar þessarar stofnunar smátt og smátt verið að hverfa svo að eftir stendur raunar að stofnunin er orðin fjórði ríkisbankinn, að því viðbættu kannske að hún lánar til nokkuð sérhæfðra verkefna. Því má svo bæta við að vextir þessa ríkisbanka munu vera nú, að ég hygg, um 22% eða mun lægri en svarar til þeirrar almennu vaxtastefnu sem reynt hefur verið að reka í landinu upp á síðkastið.

Ég vil að sú skoðun komi fram í umr. að Framkvæmdastofnun hefur mjög breytt um svip frá því að hún var sett á laggirnar í byrjun þessa áratugs. Hún er orðinn fjórði ríkisbankinn þrátt fyrir margítrekaða yfirlýsingu bæði flokka og manna á hinu háa Alþingi um að að því skuli stefnt að ríkisbönkunum skuli ekki fjölgað, heldur skuli þeim fækkað úr þremur í tvo, en þó með þeirri sérstöðu að svo hefur verið um hnútana búið, bæði að því er varðar framkvæmdastjórn og stjórn þessarar stofnunar, og þannig njörvað að henni er stýrt beint frá Alþingi. Ég held að þetta sé vond uppsetning og vond þróun sem hafi hér átt sér stað. Ég held að löggjafarvald og framkvæmdavald blandist saman með óeðlilegum hætti. Hluti fjárveitingavaldsins er raunverulega aðeins fluttur til, freistingarnar eru miklar, að ekki sé talað um þegar vaxtastefna stofnunarinnar er önnur og stundum talin hagstæðari fyrir lántakendur en hin almenna vaxtastefna er í landinu.

Ég er sem sagt þeirrar skoðunar, að það sé löngu orðið tímabært að hv. Alþ. endurskoði lög um Framkvæmdastofnun ríkisins með þeim hætti að annaðhvort sé viðurkennt, að hér er risið upp fjórða ríkisbankabáknið í landinu, og að reglur um þessa starfsemi verði þá með þeim hætti, eða á hinn bóginn, að þeim verkefnum, sem þessi stofnun hefur haft, sé skipt og þau flutt annað. Áætlunargerðir eru auðvitað af hinu góða, en hinar pólitísku lánveitingar, sem þarna hafa farið fram, hygg ég að séu af hinu illa og hafi valdið, hin síðari ár a.m.k., vandræðum að því leyti að það á ekki að vera hlutverk Alþ. að stjórna fjármagni með þeim hætti sem þarna er gert.

Þetta vildi ég að kæmi fram við þessa umr.